Ríkisstjóri Oklahoma, Mary Fallin, frestaði á síðustu stundu aftöku Richards Glossips í gærkvöldi þar sem hún vildi láta kanna betur hvort lyfin sem nota ætti við aftökuna stæðust kröfur ríkisins.
Richard Glossip var dæmdur til dauða fyrir að hafa skipulagt morð á yfirmanni sínum, eiganda gistiheimilisins Oklahoma Citym Barry Van Treese, árið 1997. Talið var fullvíst í gærkvöldi að aftakan færi fram þar sem hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði áfrýjun hans. Frans páfi hefur beðið Oklahómaríki um að stöðva aftökuna. Erkibiskup kaþólsku kirkjunnar hefur ritað bréf til Fallin ríkisstjóra og beðið hana um að milda refsinguna úr dauðadómi í lífstíðarfangelsi. Fallin hefur hins vegar sagt að hún hafi ekki heimild til þess.
Klukkustund eftir að aftakan átti að hefjast tilkynnti Fallin að aftakan færi fram 6. nóvember, segir í frétt BBC. Að sögn Fallins fengu fangelsisyfirvöld senda kalín sýru (potassium acetate) til þess að nota við aftökuna sem eitt þriggja lyfja en samkvæmt reglum ríkisins er aðeins kalíumklóríð (potassium chloride) á listanum yfir þau lyf sem nota á í lyfjablönduna við aftökur.
Glossip og fjölskylda hans hafa haldið fram sakleysi hans alla tíð en Treese var barinn til bana. Vinnufélagi Glossips, Adam Sneed, var dæmdur fyrir morðið en hann sagði að Glossip hefði skipulagt morðið og skipað honum að fremja það.
Hann var dæmdur fyrst fyrir aðild að morðinu árið 1998 en dómnum var snúið við árið 2001. Þremur árum síðar var Glossip aftur dæmdur sekur. Meðal þess sem verjendur hans hafa sagt í bréfum þar sem farið er fram á endurskoðun málsins er að samfangi Sneed heldur því fram að Sneed hafi viðurkennt að hafa logið til um aðild Glossips.
Breski milljarðarmæringurinn Richard Branson keypti heilsíðu auglýsingu í dagblaðinu The Oklahóma í gær þar sem hann hélt sakleysi Glossips fram. Fjölmargir hafa gagnrýnt dauðadóminn, meðal annars leikkonan Susan Sarandon.
Nokkrum sinnum hefur þurft að fresta aftökum í Bandaríkjunum undanfarin misseri vegna vandræða við að kaupa lyf til þess að nota við aftökur þar sem lyfjafyrirtæki hafa neitað að selja lyf til slíkra nota. Í apríl í fyrra tók aftaka Claytons Locketts 43 mínútur í Oklahoma en Lockett lést af völdum hjartaáfalls. Eitthvað misfórst við aftökuna en fanginn lést nokkru eftir að aftakan var stöðvuð þar sem fanginn skalf allur og hristist. Talið er að bláæð hafi sprungið sem kom í veg fyrir eðlilegt flæði lyfjablöndunnar sem nota átti við að drepa Lockett. Hann var hins vegar úrskurðaður látinn 43 mínútum eftir að byrjað var að dæla í hann banvænu lyfjablöndunni.