Greiða fjölskyldu Scotts 820 milljónir

AFP

Borgaryfirvöld í North Charleston í Suður-Karólínu hafa náð samkomulagi við fjölskyldu óvopnaðs svarts manns sem var skotinn til bana af hvítum lögreglumanni í apríl. Borgin mun greiða fjölskyldu Walters Scotts 6,5 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 820 milljóna króna. Borgarráð í North Charleston samþykkti samkomulagið mótatkvæðalaust. 

Walter Scott, fimmtugur að aldri, var skotinn til bana af Michael Slager er Scott hljóp á brott við venjulegt umferðareftirlit. Um er að ræða eitt af nokkrum málum í Bandaríkjunum þar sem svartir óvopnaðir menn hafa verið skotnir til bana af hvítum lögreglumönnum. 

Í frétt BBC kemur fram að lögreglumaðurinn, Michael Slager, hafi verið ákærður fyrir morð og rekinn úr lögreglunni. Ef hann verður fundinn sekur þá á hann yfir höfði sér allt frá 30 ára fangelsi til lífstíðar fangelsis án möguleika á náðun.

Atvikið var tekið upp á myndavél í lögreglubílnum en þar sést Scott hlaupa í burtu úr bíl sínum og í myndskeiði sem vitni tók upp á síma sinn sést þegar Slager skýtur átta skotum á Scott á flóttanum.

Í júlí samþykkti New York borg að greiða fjölskyldu Eric Garners 5,9 milljónir Bandaríkjadala í bætur en hann lést í haldi lögreglu eftir að hafa verið tekinn hálstaki. Í september samþykkti Baltimore borg að greiða fjölskyldu Freddie Gray 6,4 milljónir Bandaríkjadala í bætur en hann lést af völdum áverka á mænu er hann var fluttur í fangelsi. 

Walter Scott var fjögurra barna faðir.
Walter Scott var fjögurra barna faðir.
mbl.is