Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, sagði margvísleg og stór tækifæri falin í því að litið sé á Ísland sem hlutlausan vettvang málefnalegrar umræðu um málefni norðurslóða. Ráðstefnan Arctic Circle verður haldin í Reykjavík 16.-18. október og sagði Ólafur von á um tvö þúsund manns frá fjölmörgum löndum, þar með töldum þjóðhöfðingjum.
Þetta sagði Ólafur í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, í morgun.
Ólafur sagði ráðstefnuna vera hugsaða sem lýðræðislegan og opinn vettvang en ekki lokaða forréttindasamkomu. Mikilvægt væri að byggja allar ákvarðanir á norðurslóðum á vísindalegum grunni og taka þar ábyrga afstöðu en Ólafur sagði mikil bein og óbein tækifæri felast í framþróun á norðurslóðum fyrir Íslendinga.
„Þessi málefni skipta miklu máli fyrir framtíð jarðarinnar en kjarninn í þessari samkomu er að þangað koma allir og þarna fer fram þverfagleg umræða.“ Þá sagði Ólafur von á sendinefndum frá bæði Kína og Þýskalandi sem hafi umboð til þess að svara spurningum.
Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna og leita frekari upplýsinga á síðunni arcticcircle.org