Tæpar 1,2 milljónir í bætur vegna myglu

Myglusveppur. Mynd úr safni.
Myglusveppur. Mynd úr safni.

Leigjendum voru í dag dæmdar tæpar 1,2 milljónir króna í bætur vegna myglusvepps í íbúð þeirra. Í dómnum segir meðal annars að leigufélagið hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna leigjendunum að mygla gæti verið í íbúð þeirra. Leigjendurnir kröfðust ríflega sjö milljóna í bætur vegna skemmda á innbúi og í húsaleigu sem þau greiddu.

Atvik málsins eru þau að árið 2011 tóku stefnendur íbúðina á leigu hjá félaginu. Um mitt árið 2012 hafi stefnendur óskað eftir að húsnæðið væri skoðað og í ljós kom að myglusveppur hafði hreiðrað um sig í hurðarkörmum eða sökklum og sé líklega tilkominn vegna vatnsskemmda.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að niðurstaða matsmanna, sem meðal annars byggja á niðurstöðu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, hafi verið að íbúðin sem um ræðir hafi verið óhæf til notkunar á þeim tíma þegar skoðun á henni fór fram í maí 2012, en þá voru liðnir 9 mánuðir frá því að stefnendur tóku íbúðina á leigu.

Í dómnum segir ennfremur að starfsmaður tiltekins fyrirtækis hafi veitt leigufélaginu ráðgjöf vegna myglu í húsnæði á vegum leigufélagsins. Þá komi einnig fram í dagblöðum frá árinu 2008 að leitað hafi verið til fyrirtækisins til að rannsaka mögulegan myglusvepp í húsnæði á vegum leigufélagsins. Gáfu þessar upplýsingar, auk athugasemda sem leigjendurnir tiltóku í ástandsskýrslu, leigufélaginu ástæðu til að ætla að mygla gæti hafa verið fyrir hendi í fleiri íbúðum á vegum stefnda og þar með í íbúðinni sem leigjendurnir leigðu.

Var því ástæða fyrir leigufélagið til að skoða gaumgæfilega íbúðina við móttöku ástandsskýrslu í upphafi leigutíma, en félagið gerði samning við leigjendurna án þess að vekja athygli þeirra á að mygla gæti verið í íbúðinni.

mbl.is