Ríkisstjóri Alaska-ríkis í Bandaríkjunum. Bill Walker, hefur áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á ríkið sem þýða að flytja þarf íbúa í afskekktum þorpum búferlaflutningum. Eina lausnin sem hann sér á fjármögnun slíkra aðgerða er að bora eftir sömu olíunni og veldur loftslagsbreytingunum.
Hækkandi yfirborð sjávar þýðir að sum þorp í afskekktum hlutum Alaska eins og í Kivalina þurfa að yfirgefa heimili sín vegna ágangs sjávar. Slíkar aðgerðir eru kostnaðarsamar en fjárhagur hefur þrengst undanfarin ár. Alaska er eina ríki Bandaríkjanna sem leggur hvorki á tekju- eða söluskatt heldur fjármagnar sig nær eingöngu með gjöldum á olíu- og gasvinnslu. Nær helmingslækkun á verði hráolíu síðasta árið hefur því verið ríkinu reiðarslag.
Þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað á jörðinni eru fyrst og fremst af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegunda með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og olíu, kolum og gasi. Þrátt fyrir það segir Walker að til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga á Alaska þurfi að bora eftir meiri olíu.
„Við eigum við töluverðan fjárhagsvanda að stríða. Við erum með þorp sem er að skola í burt vegna breytinga á loftslaginu,“ segir Walker við breska ríkisútvarpið BBC.
Fréttamaður BBC spurði hann þá hvort að frekari olíuboranir myndu hjálpa til við að borga fyrir að aðstoða þorp í þessari stöðu.
„Algerlega, á ábyrgan hátt eins og við höfum gert áður,“ segir Walker sem vill að borað verði á smáum hluta verndunarsvæðis dýralífs á Norðurskauti í ríkinu.
Umhverfisverndarsinnar og frumbyggjar á svæðinu eru einarðlega á móti olíuleit og vinnslu á verndarsvæðinu og telja hugmyndir ríkisstjórans „grunnfærnislegar“.
„Þetta er ekki eitthvað sem ríkin munu taka á upp á eigin spýtur. Alríkisstjórnin mun hjálpa til en við þurfum virkilega stærri lausnir til þess að taka á loftslagsbreytingum bæði sem ríki og þjóð,“ segir Lois Epstein frá náttúruverndarsamtökunum Wilderness Society.
Frétt BBC af hugmyndum ríkisstjórans í Alaska