Skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands sýnir að 67,4% aðspurðra telja mikla þörf á að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Stærsti munurinn á afstöðu fólks í könnuninni fer eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka.
Rúm tólf prósent svarenda telja litla þörf á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni en rúmur fimmtungur tók ekki afstöðu í könnuninni. Stærsti munurinn á afstöðu fór ekki eftir aldri, tekjum, búsetu eða menntun heldur eftir stuðningi við stjórnmálaflokka.
Þannig töldu þeir sem styðja stjórnarflokkana, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, minni þörf á að draga úr losun hér á landi en stuðningsmenn annarra flokka. Þannig telja 43% fylgjenda Framsóknarflokksins þörf á aðgerðum en 27% litla eða mjög litla. Af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins telja 48% mikla eða frekar mikla þörf á aðgerðum en fjórðungur litla eða mjög litla.
Engu að síður telur drjúgur meirihluti fylgjenda allra flokka að aðgerða sé þörf, að því er kemur fram í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.
Í henni segir ennfremur að ekki sé ljóst hver markmið íslenskra stjórnvalda eru á tímabilinu 2020-2030, önnur en þau að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins um 40% samdrátt í losun og að hlutdeild Íslands í þeim aðgerðum verði réttmæt. Öfugt við Noreg sem setji sér markmið um 40% samdrátt án frekari fyrirvara um niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í París eða samninga um skiptingu samdráttar í losun innan Evrópusambandsins, en Noregur tekur þar þátt líkt og Ísland.
Samkvæmt nýrri skýrslu umhverfisráðherra hafi losun frá samgöngum aukist um 55% frá árinu 1990 til ársins 2013 en 1990 sem er viðmiðunarárið í þeirri áætlun (INDC) sem Evrópusambandið hefur kynnt. Í skýrslunni komi þó fram að dregið hafi úr losun frá samgöngum um 13% á tímabilinu 2008-2013. Samtökin telja að hætt sé við að sú losun aukist á ný með vaxandi fjölda ferðamanna sem leigja sér bíl á meðan dvöl hér þeirra stendur.
Til samanburðar megi geta að samkvæmt spá Orkustofnunar frá árinu 2012 til ársins 2050 muni innflutningur á olíu fyrir bifreiðar verða 176,5 þúsund tonn árið 2030 en var 164,4 þúsund tonn árið 1990. Árið 2020 stefni í 243,7 þúsund tonn að mati Orkustofnunar.
Árið 1995 hafi umhverfisráðherra sett fram það markmið að öll skip í höfn skyldu fá rafmagn úr landi í stað þess að brenna olíu. Þessi aðgerð hafi enn ekki komið til framkvæmda og almennt megi segja að sjávarútvegurinn hafi sjálfur markað sér stefnu án aðkomu stjórnvalda.
Full ástæða er sögð til þess að endurskoða og uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum segja Náttúruverndarsamtökin og taka þar undir með fyrrgreindri skýrslu umhverfisráðherra.
„Hafa ber í huga að einungis 15 ár eru til stefnu. Til að takast megi að draga úr losun hér á landi um 40% í samvinnu við Evrópusambandið er ekki seinna vænna fyrir stjórnvöld að láta til sín taka. Jafnvel þótt hlutdeild Íslands yrði minni en 40% er ljóst að ríkisstjórnin verður nú að koma sér að verki. Í húfi eru lífríki sjávar en enn sem komið er ekki að finna neitt um áhrif loftslagsbreytinga og koltvísýrings í andrúmslofti á hafið í þeim samningstexta sem nú liggur fyrir í aðdraganda Parísarráðstefnunnar. Til að Ísland geti hreyft því máli verður stefna og markmið um samdrátt í losun að vera á hreinu,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Tilkynning Náttúruverndarsamtaka Íslands um skoðanakönnunina