Flestir á mikilvægi þess að draga úr losun

Bílar losa koltvísýring út í lofthjúp jarðar.
Bílar losa koltvísýring út í lofthjúp jarðar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Skoðana­könn­un sem Gallup gerði fyr­ir Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök Íslands sýn­ir að 67,4% aðspurðra telja mikla þörf á að ís­lensk stjórn­völd grípi til aðgerða til þess að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Stærsti mun­ur­inn á af­stöðu fólks í könn­un­inni fer eft­ir stuðningi þeirra við stjórn­mála­flokka.

Rúm tólf pró­sent svar­enda telja litla þörf á að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda sem valda lofts­lags­breyt­ing­um á jörðinni en rúm­ur fimmt­ung­ur tók ekki af­stöðu í könn­un­inni. Stærsti mun­ur­inn á af­stöðu fór ekki eft­ir aldri, tekj­um, bú­setu eða mennt­un held­ur eft­ir stuðningi við stjórn­mála­flokka.

Þannig töldu þeir sem styðja stjórn­ar­flokk­ana, Sjálf­stæðis­flokk og Fram­sókn­ar­flokk, minni þörf á að draga úr los­un hér á landi en stuðnings­menn annarra flokka. Þannig telja 43% fylgj­enda Fram­sókn­ar­flokks­ins þörf á aðgerðum en 27% litla eða mjög litla. Af stuðnings­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins telja 48% mikla eða frek­ar mikla þörf á aðgerðum en fjórðung­ur litla eða mjög litla.

Engu að síður tel­ur drjúg­ur meiri­hluti fylgj­enda allra flokka að aðgerða sé þörf, að því er kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­um Íslands.

Mark­miðin enn ekki ljós

Í henni seg­ir enn­frem­ur að ekki sé ljóst hver mark­mið ís­lenskra stjórn­valda eru á tíma­bil­inu 2020-2030, önn­ur en þau að taka þátt í sam­eig­in­legu mark­miði Evr­ópu­sam­bands­ins um 40% sam­drátt í los­un og að hlut­deild Íslands í þeim aðgerðum verði rétt­mæt. Öfugt við Nor­eg sem setji sér mark­mið um 40% sam­drátt án frek­ari fyr­ir­vara um niður­stöðu lofts­lags­ráðstefn­unn­ar í Par­ís eða samn­inga um skipt­ingu sam­drátt­ar í los­un inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins, en Nor­eg­ur tek­ur þar þátt líkt og Ísland.

Sam­kvæmt nýrri skýrslu um­hverf­is­ráðherra hafi los­un frá sam­göng­um auk­ist um 55% frá ár­inu 1990 til árs­ins 2013 en 1990 sem er viðmiðun­ar­árið í þeirri áætl­un (INDC) sem Evr­ópu­sam­bandið hef­ur kynnt. Í skýrsl­unni komi þó fram að dregið hafi úr los­un frá sam­göng­um um 13% á tíma­bil­inu 2008-2013. Sam­tök­in telja að hætt sé við að sú los­un auk­ist á ný með vax­andi fjölda ferðamanna sem leigja sér bíl á meðan dvöl hér þeirra stend­ur.

Til sam­an­b­urðar megi geta að sam­kvæmt spá Orku­stofn­un­ar frá ár­inu 2012 til árs­ins 2050 muni inn­flutn­ing­ur á olíu fyr­ir bif­reiðar verða 176,5 þúsund tonn árið 2030 en var 164,4 þúsund tonn árið 1990. Árið 2020 stefni í 243,7 þúsund tonn að mati Orku­stofn­un­ar.

Skamm­ur tími til stefnu

Árið 1995 hafi um­hverf­is­ráðherra sett fram það mark­mið að öll skip í höfn skyldu fá raf­magn úr landi í stað þess að brenna olíu. Þessi aðgerð hafi enn ekki komið til fram­kvæmda og al­mennt megi segja að sjáv­ar­út­veg­ur­inn hafi sjálf­ur markað sér stefnu án aðkomu stjórn­valda.

Full ástæða er sögð til þess að end­ur­skoða og upp­færa aðgerðaáætl­un í lofts­lags­mál­um segja Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­in og taka þar und­ir með fyrr­greindri skýrslu um­hverf­is­ráðherra.

„Hafa ber í huga að ein­ung­is 15 ár eru til stefnu. Til að tak­ast megi að draga úr los­un hér á landi um 40% í sam­vinnu við Evr­ópu­sam­bandið er ekki seinna vænna fyr­ir stjórn­völd að láta til sín taka. Jafn­vel þótt hlut­deild Íslands yrði minni en 40% er ljóst að rík­is­stjórn­in verður nú að koma sér að verki. Í húfi eru líf­ríki sjáv­ar en enn sem komið er ekki að finna neitt um áhrif lofts­lags­breyt­inga og kolt­ví­sýr­ings í and­rúms­lofti á hafið í þeim samn­ingstexta sem nú ligg­ur fyr­ir í aðdrag­anda Par­ís­ar­ráðstefn­unn­ar. Til að Ísland geti hreyft því máli verður stefna og mark­mið um sam­drátt í los­un að vera á hreinu,“ seg­ir í til­kynn­ingu sam­tak­anna.

Til­kynn­ing Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands um skoðana­könn­un­ina

mbl.is

Bloggað um frétt­ina