Kolefnisgjald hefur verið lykilþáttur í að drífa áfram þróun á loftslagsvænni tækni, að mati Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs þar sem slíkt gjald hefur verið innheimt í 26 ár. Hún vill að ríki heims taki upp kolefnisgjald og dragi úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti.
Á ráðstefnu á vegum norsk-breska viðskiptaráðsins í London í dag sagði Solberg að hlutverk stjórnvalda að tryggja stöðuga stefnu til að gera fyrirtækjum kleift að fjárfesta í lágkolefnatækni. Samvinnu þurfi til þess að taka á loftslagsbreytingum sem nú verða á jörðinni vegna losunar á gróðurhúsalofttegundum.
Solberg sagði að kolefnisgjald væri mikilvægur þáttur til að tryggja stöðugt fjárfestingarumhverfi fyrir hreina tækni og kallaði eftir því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna kæmu sér saman um kolefnisgjald fyrir alla heimsbyggðina á loftslagfundinum sem fer fram í París í desember.
„Noregur hefur haft kolefnisgjald í lengri tíma. Það hefur ekki hægt á iðnþróun. Þvert á móti hefur það hvatt til nýjunga og þróunar lausna sem draga úr losun og rekstrarkostnaði. Ef það hefur einhvern tímann verið tími til þess að leggja gjald á kolefnislosun og að fjarlægja niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti í áföngum á heimsvísu þá er það núna,“ sagði norski forsætisráðherrann.