Selkópur á hópi kúa líf sitt að launa. Slíkt er vissulega mjög óvenjulegt en engu að síður staðreynd. Björgunarafrekið átti sér stað á náttúruverndarsvæði í Framton í Bretlandi.
Litli selkópurinn, sem hefur verið nefndur Celebration (ísl: Gleði) hefur lent í ýmsum ævintýrum á sinni stuttu ævi og flest hafa þau gerst á landi - ekki í sjó.
Í júlí varð kópurinn, sem er urta, viðskila við móður sína. En það var ekki mannfólk sem fann hana heldur kúahjörð. Kópurinn var á kafi í drullu og hópuðust 30 kýr að honum til að rannsaka málið.
Fuglaáhugamaður var í nágrenninu og fór að skoða af hverju kýrnar væru að hópast saman við drullupollinn. Hann tók upp sjónaukann sinn og sá þá litla selkópinn í pollinum. Björgunarlið var kallað til og þegar ljóst var orðið að móðirin væri hvergi nærri tók starfsfólk náttúruverndarsvæðisins kópinn að sér og kom honum svo í fóstur hjá dýraverndunarsamtökum. Hún Gleði litla var þyrst og svöng og fékk svo sýkingu í lungun.
Frá því að Gleði fannst hefur verið hugsað vel um hana, hún er nú hraust og leikur sér við annan sel, hann Charlie. Nú í vikunni var svo tekin ákvörðun um að Gleði og Charlie væru orðin nógu sterk til að snúa til sinna náttúrulegu heimkynna. Farið var með þau í búrum niður á strönd og um leið og þeim var sleppt kjöguðu þau niður að sjónum og skelltu sér í öldurnar.