Forvitnar kýr björguðu selkóp

Urtan Gleði var í drullupolli þegar kýrnar fundu hana.
Urtan Gleði var í drullupolli þegar kýrnar fundu hana.

Selkóp­ur á hópi kúa líf sitt að launa. Slíkt er vissu­lega mjög óvenju­legt en engu að síður staðreynd. Björg­un­ar­a­frekið átti sér stað á nátt­úru­vernd­ar­svæði í Fram­t­on í Bretlandi.

Litli selkóp­ur­inn, sem hef­ur verið nefnd­ur Celebrati­on (ísl: Gleði) hef­ur lent í ýms­um æv­in­týr­um á sinni stuttu ævi og flest hafa þau gerst á landi - ekki í sjó.

Í júlí varð kóp­ur­inn, sem er urta, viðskila við móður sína. En það var ekki mann­fólk sem fann hana held­ur kúa­hjörð. Kóp­ur­inn var á kafi í drullu og hópuðust 30 kýr að hon­um til að rann­saka málið.

Fugla­áhugamaður var í ná­grenn­inu og fór að skoða af hverju kýrn­ar væru að hóp­ast sam­an við drullupoll­inn. Hann tók upp sjón­auk­ann sinn og sá þá litla selkóp­inn í poll­in­um. Björg­un­arlið var kallað til og þegar ljóst var orðið að móðirin væri hvergi nærri tók starfs­fólk nátt­úru­vernd­ar­svæðis­ins kóp­inn að sér og kom hon­um svo í fóst­ur hjá dýra­vernd­un­ar­sam­tök­um. Hún Gleði litla var þyrst og svöng og fékk svo sýk­ingu í lung­un. 

Frá því að Gleði fannst hef­ur verið hugsað vel um hana, hún er nú hraust og leik­ur sér við ann­an sel, hann Charlie. Nú í vik­unni var svo tek­in ákvörðun um að Gleði og Charlie væru orðin nógu sterk til að snúa til sinna nátt­úru­legu heim­kynna. Farið var með þau í búr­um niður á strönd og um leið og þeim var sleppt kjöguðu þau niður að sjón­um og skelltu sér í öld­urn­ar. 

mbl.is