Uwe Beckmeyer, sem er háttsettur í þýska viðskiptaráðuneytinu, segist þess fullviss að ríki heims muni senda skýr skilaboð á loftslagsráðstefnunni í París í desember, með bindandi samkomulagi um minnkandi losun gróðurhúsaloftegunda. Sérstök sendinefnd Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, gerði grein fyrir nálgun Þjóðverja í málefnum norðurskautsins á Arctic Circle-ráðstefnunni í Hörpu eftir hádegi, en þar voru m.a. kynnt umsvif þeirra á sviði vísindarannsókna á norðurslóðum.
Beckmeyer flutti upphafsávarpið og sagði Þjóðverja líta til Arctic Circle sem mikilvægs vettvangs umræðu um norðurslóðir. Hann sagði hagsmuni á svæðinu hafa aukist sl. tvo áratugi, en vistkerfi á norðurslóðum væru mikilvæg og að loftslagsbreytingum fylgdu miklar áskoranir.
Ráðherrann sagði loftslagsbreytingar skapa ný tækifæri á norðurslóðum og að margir íbúar á svæðinu fögnuðu því. Hann sagði að vinna þyrfti að því að gera þróunina sjálfbæra og að í allri stefnumótun þyrfti að horfa til loftslagsbreytinga og umhverfisverndar. Hann sagði Þjóðverja hafa markað þríþætta stefnu varðandi norðurslóðir en hún snéri m.a. að rannsóknum, samstarfi og sjálfbærri þróun. Þá sagði hann tækniframfarir í lykilhlutveri þegar kæmi að því að stuðla að umhverfisvænum siglingum á svæðinu.
Sendiherrann Martin Kotthaus, framkvæmdastjóri Evrópumála í þýska utanríkisráðuneytinu, sagði Þjóðverja hafa stundað vísindastörf á norðurslóðum í meira en hundrað ár. Svæðið hefði löngum verið hjúpað dulúð og ævintýraljóma í augum Þjóðaverja, en í dag væri það miðpunktur umræðunnar um loftslagsmál. Þróun þess fylgdu ýmsar hættur, mögulega hernaðarlegar, en breytt landslag kallaði á sameiginleg viðbrögð til að tryggja friðsamlega nýtingu. Tryggja þyrfti að sú starfsemi sem færi fram á norðurslóðum setti ekki „blett" á norðurslóðir.
Kotthaus sagði loftslagsbreytingar hafa margvísleg áhrif í för með sér; umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg, svo eitthvað sé nefnt. Hann sagði Þjóðverja fyrst og fremst horfa til alþjóðasáttmála en stefna þeirra miðaði að friðsamlegri nálgun, því að vernda umhverfið og fjölbreytt lífríki, tryggja frelsi til rannsókna og frjálsa og örugga skipaumferð. Markmiðið væri friðsamleg, umhverfisvæn og sjálfbær þróun, sem yrði náð með stjórnun, rannsóknum og tæknilegum lausnum.
Hann sagði Þjóðverja dygga stuðningsmenn Norðurskautsráðsins og sagði þá leggja áherslu á samvinnu á sviði vísinda. Þau væru forsenda skilnings á svæðinu og grunnur allrar ákvarðanatöku.
Eftir nokkur erindi um rannsóknarstarf Þjóðverja á norðurslóðum og sjálfbæra þróun var spiluð upptaka þar sem Frank-Walter Steinmeier, utanríkisáðherra Þýskalands, ávarpaði gesti. Hann sagði norðurslóðir varða alla og að það sem þar gerðist og fram færi, hefði áhrif um allan heim. Hann sagði viðbrögð við loftslagsbreytingum alþjóðlegt ábyrgðarverkefni, og árangur næðist aðeins með sameiginlegu átaki. Markmiðið væri öðrum þræði að tryggja frið og öryggi, en með því að taka á loftslagsbreytingum tækjum við á sama tíma á öðrum vandamálum. Hann sagði Þjóðverja stefna að því að axla ábyrgð og að með samstarfi næðist árangur í málefnum norðurslóða.