Tveimur börnum nauðgað

Frá mótmælum gegn kynferðisofbeldi í garð kvenna á Indlandi.
Frá mótmælum gegn kynferðisofbeldi í garð kvenna á Indlandi. AFP

Tveimur stúlkubörnum var nauðgað í borginni Nýju Delí á Indlandi í nótt. Önnur stúlkan er fimm ára gömul en hin tveggja og hálfs árs. Staðfest er að í öðru tilfellinu að minnsta kosti var um hópnauðgun að ræða. Yngri stúlkunni var rænt í gærkvöldi af tveimur karlmönnum í tengslum við trúarlega athöfn í vesturhluta borgarinnar og í kjölfarið nauðgað.

Fram kemur í frétt AFP að lögreglan hafi fundið stúlkuna í almenningsgarði nálægt heimili hennar nokkrum klukkustundum eftir að hennar var saknað og að henni hafi blætt mjög. Læknisskoðun leiddi í ljós að henni hafði verið nauðgað allavega einu sinni. Lögreglan leitar nú gerendanna en leitin hefur til þessa ekki borið árangur.

Eldri stúlkunni var nauðgað af þremur karlmönnum í austurhluta borgarinnar en hún hafði verið ginnt til að koma inn í hús nágranna síns. Stúlkan fannst í kjölfarið í rifnum og blóðugum fötum. Almennir borgarar brutust í kjölfarið inn í húsið og höfðu hendur í hári mannanna og afhenti þá lögreglunni. Læknisskoðun sýndi fram á að hópnauðgun hefði átt sér stað.

Einungis nokkrir dagar eru síðan fjögurra ára stúlku var nauðgað í Nýju Delí og hún ennfremur skorin með rakvélarblaði. Stúlkan fannst meðvitundarlaus við járnbrautarteina í kjölfarið. Höfuðpurinn var í kjölfarið handtekinn.

Vitundarvakning varð á Indlandi árið 2012 þegar ungri námskonu var nauðgað í rútu í Nýju Delí. Tilkynnt var um 36.735 nauðganir á Indlandi á síðasta ári og þar af 2.096 í borginni. Sérfræðingar segja að tölurnar varpi hins vegar aðeins ljósi á hluta umfangs þeirra kynferðisglæpa sem framdir eru.

mbl.is