Aftökum frestað vegna lyfjaskorts

Skortur á lyfjum til þess að nota við aftökur þýðir …
Skortur á lyfjum til þess að nota við aftökur þýðir að Ohio hefur ákveðið að fresta aftökum til ársins 2017 AFP

Yfirvöld í Ohio hafa ákveðið að fresta öllum aftökum í ríkinu til ársins 2017 hið minnsta vegna skorts á banvænum lyfjum. Þetta þýðir að tólf fangar sem átti að taka af lífi á þessu tímabili fá gálgafrest.

Samkvæmt frétt BBC hefur verið gert ráð fyrir aftökum 25 fanga til viðbótar frá 1. janúar 2017 og getur svo farið að þeirra aftökur frestist einnig þar sem illa gengur að finna lyf sem hægt er að nota til að taka fólk af lífi.

Mörg lyfjafyrirtæki neita að selja lyf til bandarískra ríkja sem nota á til þess að eyða lífi og hefur þetta þýtt að ríki hafa þurft að fresta aftökum eða leita á náðir annarra lyfjafyrirtækja sem eru reiðubúin til þess að selja lyf til þessara nota. 

Vegna þessa hafa einhver ríki breytt lögum sínum varðandi aftökuaðferðir og meðal annars hefur Utah samþykkt að heimila aftökur með aftökusveitum vegna lyfjaskortsins og Oklahoma samþykkti í apríl að nota gasklefa á ný sem aftökuaðferð

Þrátt fyrir að heimilt sé að nota gasklefa hafa yfirvöld í Oklahoma frestað þremur aftökum í kjölfar þess að litlu mátti muna að röng lyfjablanda væri notuð við aftöku í september. Eins hefur aftökum verið frestað í Arkansas eftir að átta fangar á dauðadeild kröfðust þess að yfirvöld upplýstu um hvaðan lyfin væru sem notuð væru við aftökur.

Í maí samþykkti löggjafinn í Nebraska að nema dauðarefsingar úr gildi, meðal annars út af mögulegri málsókn varðandi lyfin. Nebraska varð þar með nítjánda ríki Bandaríkjanna sem fellir úr gildi dauðarefsingar.

Frétt BBC

Dauðarefsingum hefur verið frestað til ársins 2017 í Ohio þar …
Dauðarefsingum hefur verið frestað til ársins 2017 í Ohio þar sem ekki fást nothæf lyf til verksins. AFP
mbl.is