Lögreglumaður skaut hund til bana

Duchess var bolabítsblendingur
Duchess var bolabítsblendingur Skjáskot af vef NBC

Fjölskylda í Flordia ríki Bandaríkjanna krefst nú afsökunarbeiðni frá lögreglu eftir að lögreglumaður skaut hund þeirra til bana í gærmorgun. Lögreglumaðurinn bankaði upp á hjá fjölskyldunni til þess að láta vita að þau hefðu gleymt að loka bílhurð.

Hundur fjölskyldunnar, Duchess, sem var bolabítsblendingur, hljóp út um hurðina og brást lögreglumaðurinn við með því að skjóta hundinn. Náðist atvikið upp á upptöku öryggismyndavélar.

„Dóttir mín hljóp til að reyna að hjálpa henni og hún dillaði áfram skottinu,“ sagði eigandi hundsins Gillian Palacios í gegnum tárin í samtali við fjölmiðla. „Hún dó hérna á gangstéttinni.“

Lögregla á svæðinu hefur staðfest að skotum hafi verið hleypt af en gáfu ekki upp frekari upplýsingar. Að sögn Palacios var Duchess skotin þrisvar í höfuðið.

„Þetta var bara óþarfi. Ég hefði auðveldlega getað tekið í hana. Hún var engin ógn gegn lífi lögreglumannsins,“ útskýrði Palacios.

Að sögn lögreglumannsins Ken Armenteros, hjá lögreglusveit Florida City, er málið í rannsókn. Lögreglumaðurinn sem skaut hundinn er kominn í tímabundið leyfi.

„Það þarf að þjálfa þessa lögreglumenn betur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hundur er skotinn,“ sagði Palacios.

Frétt NBC um málið.

mbl.is