Sá fjórði á 11 mánuðum

Randolph Holder
Randolph Holder Lögreglan í New York

Lögreglumaður í New York var skotinn til bana í gær er hann veitti vopnuðum manni eftirför í Austur-Harlem, samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum.

Í frétt New York Times kemur fram að lögreglumaðurinn, Randolph Holder, 33 ára innflytjandi frá Gyana, er fjórði lögreglumaðurinn sem er drepinn við skyldustörf á ellefu mánuðum. Holder hafð verið í lögreglunni í fimm ár.

Að sögn lögreglustjórans William J. Bratton er sá grunaði í haldi lögreglu. Holder og félagi hans voru að bregðast við tilkynningu um byssuhvelli um hálf níu leytið í gærkvöldi þegar þeir rákust óvænt á manninn á mótum East 120th Street og  Franklin D. Roosevelt Drive. Til skotbardaga kom og fékk Holder skot í höfuðið, að sögn Brattons. Holder var úrskurðaður látinn á Harlem sjúkrahúsinu klukkan 22:22. 

Samkvæmt frétt NYT særðist árásarmaðurinn lítillega og er á sjúkrahúsi undir eftirliti lögreglu. Gert er ráð fyrir að hann verði færður í fangaklefa í dag. Þrír menn voru færðir til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn málsins. 

Í frétt NYT kemur fram að Bratton hafi átt erfitt með að halda aftur af tárunum á blaðamannafundi á sjúkrahúsinu í Harlem seint í gærkvöldi en fjölskylda Holders var hjá honum á dánarbeðinu þar. 

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, segir að borgin syrgi lögreglumann sem týndi lífi við að verja borgina sem honum var svo annt um. „Sorg sem þessari er erfitt að lýsa með orðum.“

Blasio segir að Holer hafi verið innflytjandi sem vildi gefa borginni til baka fyrir það sem hún hafi gert fyrir hann og ferill hans hjá lögreglunni væri flekklaus.

Skömmu áður en blaðamannafundurinn hófst komu tugir lögreglumanna inn á sjúkrahúsið til þess að frétta af örlögum félaga þeirra. Jafnframt voru tveir prestar viðstaddir.  

Holder gekk til liðs við lögregluna í júlí 2010 og fylgdi þar í fótspor föður síns og afa sem báðir voru lögreglumenn í heimalandinu.

„Þrjár kynslóðir lögreglumanna í þessari fjölskyldu,“ sagði Bratton og bætti við að sú síðasta hafi verið hér hjá okkur í lögreglunni í New York. Holder er fjórði lögreglumaðurinn síðan í desember í fyrra, þegar tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn Wenjian Liu, 32 ára, og Rafael Ramos, 40 ára, voru myrtir í launsátri í  Brooklyn. Morðingi þeirra, Ismaaiyl Brinsley, framdi sjálfsvíg í kjölfarið á neðanjarðarlestarstöð.

Brian Moore, 25 ára, lést í maí, tveimur dögum eftir að hann var skotinn þar sem hann sat í lögreglubíl. Morðinginn, Demetrius Blackwell, 35 ára, var handtekinn og ákærður fyrir morð og fleiri glæpi. Hann neitar sök.

Frétt New York Times í heild

William J. Bratton lögreglustjóri í New York
William J. Bratton lögreglustjóri í New York AFP
AFP
AFP
mbl.is