Þarft verkefni en vinnuálag óhóflegt

Flestir gerendur árið 2015 voru karlar.
Flestir gerendur árið 2015 voru karlar. mbl.is/RAX

Mikið hefur áunnist á þeim stutta tíma sem átak gegn heimilisofbeldi hefur staðið yfir og er heildarniðurstaða áfangamats á verkefninu jákvæð. Verkefnið hefur hins vegar ekki verið óumdeilt og þá finna allir sem starfa að verkefninu fyrir auknu vinnuálagi og telja það mjög mikið. 

Um er að ræða tilraunaverkefnið Saman gegn ofbeldi, sem er átak Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar gegn heimilisofbeldi. Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum (RIKK) hefur unnið áfangamat á verkefninu, sem hófst í janúar á þessu ári. Matið byggir á innleggi þess starfsfólks sem að verkefninu kemur, sjónarmiðum þolenda og sérfræðinga á sviðinu ásamt tölulegum gögnum. 

Í skýrslunni er m.a. fjallað um vinnuálag, en þar segir að það sé sammerkt þeim sem rætt hafi verið við að allir töldu vinnuálag vera óhóflegt. Það er álit matsteymisins að margir eigi á hættu að verða fyrir kulnun í starfi ef slíkt álag verður viðvarandi.

Umræða um vinnuálag starfsfólks lögreglunnar kom síendurtekið upp hjá viðmælendum, …
Umræða um vinnuálag starfsfólks lögreglunnar kom síendurtekið upp hjá viðmælendum, bæði hjá starfsfólki lögreglunnar sem upplifir sig nú þegar vera störfum hlaðið, sem og hjá félagsráðgjöfum Reykjavíkurborgar sem töldu augljóst að vinnuálag starfsfólks lögreglu væri mjög mikið. mbl.is/Þórður

Upplifa streitu í starfi sökum álags

„Umræða um vinnuálag starfsfólks lögreglunnar kom síendurtekið upp hjá viðmælendum, bæði hjá starfsfólki lögreglunnar sem upplifir sig nú þegar vera störfum hlaðið, sem og hjá félagsráðgjöfum Reykjavíkurborgar sem töldu augljóst að vinnuálag starfsfólks lögreglu væri mjög mikið. Þegar átaksverkefnið fór af stað bættist mjög mikil vinna við, sér í lagi hjá rannsóknarlögreglumönnum, án þess að auknir fjármunir eða starfsfólk væri sett í málaflokkinn. Þá hefur ekki verið slakað á kröfum eða álagi í vinnslu annarra brotaflokka. Þetta veldur því líka að lögreglumenn upplifa streitu í starfi. Þeir hafa jafnvel bara tíma til að sinna mjög alvarlegum málum og önnur mál þurfa þá að sitja á hakanum,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur fram, að starfsfólk ákærusviðs lögreglu hafi tekið í sama streng. Bent er á að vinnsla heimilisofbeldismála hafi breyst mikið þannig að núna taki hvert mál mun lengri tíma en áður og feli í sér meiri skriffinnsku. Talað hafi verið um að hvert einasta mál tæki a.m.k. fimm klukkutíma og í flóknari málum geti úrvinnsla tekið allt að sólarhring.

Ekki er einungis aukið álag á lögreglu því að fram kemur hjá flestum ef ekki öllum viðmælendum matsteymisins að vinnuálag hafi aukist á öllum vígstöðvum. Starfsmaður hjá Barnavernd tiltók ekki einungis mikla aukningu mála, heldur væru útköll lengri. Slíkt þýddi einnig aukna notkun á bílum og símum, auk þess sem starfsfólk fengi frítökurétt og í kjölfarið ykist álag annars staðar. Starfsmenn félagsþjónustu bæta vöktum vegna verkefnisins að miklu leyti ofan á aðra vinnu og upplifa mikið álag við að taka bæði bakvaktir og vera í fullri dagvinnu.

Ennfremur segir að þeir sem standi á bak við verkefnið Karlar til ábyrgðar hafi einnig fundið fyrir gríðarlegri aukningu mála í sínu starfi. Þeir fái fleiri tilvísanir en hafi einnig tekið þátt í fræðslu fyrir þátttakendur í átakinu, bæði félagsþjónustu, barnaverndarstarfsmenn og lögreglu.

Verkefnið Saman gegn ofbeldi hófst þann 12. janúar 2015, stendur …
Verkefnið Saman gegn ofbeldi hófst þann 12. janúar 2015, stendur yfir í eitt ár og felur í sér aðgerðir bæði af hálfu Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Styrmir Kári

Mikil aukning á tilkynntum heimilisofbeldismálum

Fram kemur í skýrslunni, að á fyrri hluta þessa árs hafi orðið mikil aukning á tilkynntum heimilisofbeldismálum til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafi verið alls 264 talsins, auk þess sem ágreiningsmálum hafi fjölgað verulega og voru 334 þessa fyrstu sex mánuði ársins. Þá segir, að Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt eins mörgum málum og lögreglan en 78 mál komu inn á þeirra borð á tímabilinu. 

Fram kemur, að flestir árásar- og brotaþolar eru konur (60%) og flestir árásaraðilar karlar (78%). Þar kemur einnig fram að algengasta samband milli þolanda og geranda er makasamband og að heimilisofbeldi felur gjarnan í sér andlegt sem og líkamlegt ofbeldi. Það var samhljóða álit þeirra sem rætt var við að ofbeldið hefur mikil áhrif á börn.

Bent er á, að heimilisofbeldi í Reykjavík hafi margar birtingarmyndir sem mikilvægt sé að hafa innsýn inn í til að sporna gegn ofbeldi. Ein slík leið sé að samhæfa betur starf þeirra ólíku aðila sem að málaflokknum koma.

Þolendur lýsa margvíslegu ofbeldi, allt frá alvarlegu líkamlegu ofbeldi til …
Þolendur lýsa margvíslegu ofbeldi, allt frá alvarlegu líkamlegu ofbeldi til andlegs ofbeldis og eignarspjalla mbl.is/G.Rúnar

Samstarf gott og vinnulag batnað

„Heildarniðurstaða áfangamatsins er jákvæð, en miklu hefur verið áorkað á þeim stutta tíma sem verkefnið hefur staðið yfir. Samstarf milli lögreglu, félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og Barnaverndar hefur verið mjög gott og hefur vinnulag batnað eftir því sem liðið hefur á verkefnatímann og starfsfólk hefur fengið tíma til að venjast nýjum vinnubrögðum,“ segir í skýrslunni.

Þá segir, að almenn ánægja hafi verið með verkefnið meðal lögreglumanna sem hafi almennt talið að í því fælist nauðsynleg breyting á verklagi í þessum málaflokki. Töldu þeir að vinnsla mála hafi breyst mjög mikið og send væru skýr skilaboð um að heimilisofbeldi sé ekki liðið. Lögreglumenn lýstu líka ánægju með tengingu við félagsþjónustu og Barnavernd.

Þrátt fyrir ánægju með verkefnið meðal lögreglumanna kom fram ákveðin gagnrýni á framkvæmd þess. Fram kemur í skýrslunni, að t.d. hafi rýni mála verið umdeild meðal þeirra og þá telji sumir að lögregla ætti að hafa meira frelsi til að ákveða hvernig bregðast skuli við á vettvangi, í stað þess að fylgja verklagi sem þeim finnst ekki alltaf henta. Sumum lögreglumönnum finnst ekki gagnlegt að halda málum til streitu gegn vilja þolandans.

Umdeilt í upphafi en verklag hefur slípast til

Í skýrslunni er m.a. fjallað um gagnrýni af hálfu lögreglunnar. Þar segir að flestir lögreglumenn hafi talið að verkefnið hefði í upphafi verið mjög umdeilt þeirra á meðal. Þeir vitnuðu um það að heimilisofbeldismál geti í eðli sínu verið flókin og sumum fannst nýja verklagið hafa í för með sér aukna vinnu, auk þess sem fjöldi mála jókst strax. Þá kom fram að það vantaði mannskap til að sinna þessum málum svo vel sé.

„Verklag hefur hinsvegar slípast til og úrvinnsla orðið auðveldari með tímanum. Lögreglumennirnir eru sammála um að neikvæð viðhorf til verkefnisins hafi þó ekki komið niður á þjónustu lögreglunnar sem hafi unnið vel að málunum. Þó þurfi að reikna með því að lögreglumenn eru mannlegir og geta gert mistök og að innleiðing breytinga tekur alltaf einhvern tíma,“ segir í skýrslunni.

Það var samhljóða álit þeirra sem rætt var við að …
Það var samhljóða álit þeirra sem rætt var við að ofbeldið hefur mikil áhrif á börn. mbl.is/Eggert

Þolendur almennt ánægðir

Allir þolendur sem rætt var við voru ánægðir með störf félagsþjónustu á vettvangi. Tekið er fram, að aðeins nokkrir hafi hins vegar fengið þá eftirfylgd sem verklag geri ráð fyrir og sumir sögðu frá miklum vonbrigðum með skort á eftirfylgni og að ekki hefði verið staðið við fyrirheit um úrræði.

„Almennt voru þolendur ánægðir með viðbrögð lögreglu á vettvangi en nefndu þó að félagsráðgjafar væru góð viðbót. Flestir þolendanna sem höfðu samanburð á viðbrögðum lögreglu fyrir og eftir að verkefnið hófst voru jafnframt mjög ánægðir með þær breytingar sem orðið hafa,“ segir í skýrslunni.

Þá kom fram, bæði þolendum og starfsfólki verkefnisins, að vegna þess fjölda starfsmanna sem komi á vettvang í útköllum, og hve langan tíma þau taki, geti þau verið erfið fyrir þolendur. Starfsfólk hafi einnig talið að verklag væri stundum of stíft og brugðist væri of hart við í einstaka málum. 

Nálgunarbönnum fjölgað í Reykjavík

„Fjölbreytileiki mála er mikill og var haft á orði að fæst málanna féllu að staðalímynd almennings um heimilisofbeldi t.d væru sumir þolendur karlkyns. Lögregla og félagsráðgjafar voru sammála um að úrræði skorti til að aðstoða þá. Fíkn og geðrænum vandamálum meðal málsaðila fylgja verulegar áskoranir sem gera úrvinnslu mála flókna, sérstaklega ef börn eru á heimilinu. Fólk af erlendum uppruna kemur við sögu í mörgum málum og athygli vekur hve fjölbreyttur sá hópur er. Tungumálaörðugleikar hafa því verið hindrun sem hefur áhrif á aðstoð við erlenda aðila mála sem ekki hafa góð tök á íslensku,“ segir í skýrslunni. 

Einnig kemur fram, að nálgunarbönnum í Reykjavík hafi fjölgað síðan verkefnið hófst. Fram kom að úrræðið er nokkuð umdeilt í hópi starfsfólks ákærusviðs lögreglu þar sem fram kom það sjónarmið að nálgunarbann væri ofnotað og íþyngjandi úrræði en lögreglumenn voru þó almennt ósammála því. Félagsráðgjafar og Karlar til ábyrgðar voru jafnframt sammála um að nálgunarbann væri mjög gagnlegt úrræði. 

Í skýrslunni er tekið fram, að lokaúttekt sem taki yfir allt verkefnatímabilið verði sett fram í febrúar 2016. Í henni verði byggt á ítarlegri greiningum fyrir tiltekna þætti. 

„Mikið hefur áunnist á þessum sex mánuðum síðan verkefnið var sett á laggirnar en mikilvægt er að leita sífellt leiða til umbóta til að tryggja farsæla samvinnu og nýta þann lærdóm sem hægt er að draga af verkefninu hingað til.“

mbl.is