Munu láta reyna á stöðugleikaskatt

Slitastjórn SPB hf, áður Icebank, mun láta reyna á réttmæti …
Slitastjórn SPB hf, áður Icebank, mun láta reyna á réttmæti stöðugleikaskatts fyrir dómstólum ef til álagningar kemur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Slitastjórn Icebank segir hagsmuni „ litlu slitabúanna" ekki fara saman við hagsmuni „stóru slitabúanna" í sumum tilvikum þar sem gjaldþrotaleiðin gæti reynst þeim mun einfaldari og hentugri til þess að ljúka slitum.

Sú leið komi hins vegar ekki til greina vegna íþyngjandi skattgreiðslna. Slitastjórn SPB hf., sem áður hét Icebank, hefur sent erindi til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem lagt er til að lögum um stöðugleikaskatt verði breytt þannig að kveðið sé á um að til heildareigna teljist eignir umfram 50 milljarða.

Eins og lögin eru í dag er miðað við heildareignir búsins, án frekari takmarkana. „Með því móti slyppu „litlu slitabúin" við þann kaleik að þurfa að fara í flókið nauðasamningsferli og sveiflast í lagalegu tómarúmi engum til hagsbóta,“ segir slitastjórnin.

„Ógnar ekki stöðugleika“

Í athugasemdinni segir að ef litlu búunum yrði gert kleift að ljúka slitum með gjaldþroti í stað nauðasamnings þyrfti ekki að hafa áhyggjur af samþykkishlutfalli eða jafnvel mætingum á atkvæðafundi, ábyrgð, umboð og valdsvið slitastjórna væri ljóst skv. gjaldþrotalögum og ekki yrði nauðsynlegt að stofna ný félög í þeim tilgangi að slíta þeim innan örfárra mánaða.

Skattalegar afleiðingar gjaldþrotaleiðar og nauðasamningsleiðar eru þó alls ekki þær sömu og munar þar mestu um álagningu stöðugleikaskattsins.

Þá segir að slitastjórnin áskilji sér allan rétt til að láta reyna á réttmæti slíkrar skattlagningar fyrir dómstólum landsins komi til álagningar skattsins. 

„Að lokum viljum við árétta það að fyrir liggur að SPB þarf ekkert að borga í stöðugleikaframlag þar sem það slitabú ógnar engum stöðugleika að mati Seðlabanka Íslands,“ segir í athugasemdinni. „Það skýtur því skökku við ef hinu sama búi yrði gert að greiða stöðugleikaskatt, sérstaklega í ljósi ákveðins tilgangs og markmiða laganna.“

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að athugasemdin sé nýkomin til nefndarinnar og að um hana verði fjallað í nefndinni þrátt fyrir að formlegur umsagnafrestur sé liðinn.

mbl.is