Ásakanir um kynferðisofbeldi ekki ærumeiðingar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms sem hafði ómerkt meint ærumeiðandi ummæli í bók þar sem höfundurinn sakaði ónafngreindan mann um kynferðisbrot gegn sér þegar hún var barn og fleiri stúlkum. Niðurstaða Hæstaréttar var að konan hefði leitt nægilegar líkur að réttmæti ummælanna.

Í bók sem kom út árið 2013 sakaði konan ónafngreindan mann sem „tengdist heimilinu“ um að hafa misnotað sig kynferðislega þegar hún var tíu ára gömul. Þá kom fram í henni að maðurinn hefði misnotað aðrar stúlkur í fjölskyldunni kynferðislega allt frá því að þær voru fjögurra ára gamlar.

Maðurinn, sem var í hjúskap með móður rithöfundarins í um fjörutíu ár, höfðaði mál gegn konunni og sakaði hana um ærumeiðandi ummæli, bæði í bókinni og á Facebook. Taldi hann fullvíst að ummælunum væri beint að sér og krafðist þess að þau yrðu dæmd dauð og ómerk.

Héraðsdómur Reykjaness féllst á það í október í fyrra þrátt fyrir að vitni hafi komið fyrir dóminn sem báru um kynferðisofbeldi mannsins gegn sér. Maðurinn hafi hvorki verið fundinn sekur um það sem hann var sakaður um né sætt lögreglurannsókn af slíku tilefni. Því taldi dómurinn að fullyrðingar konunnar í bókinni og í Facebook-umræðum væru ósannaðar og nytu því ekki verndar tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar.

Konunni var ekki gerð refsing vegna ummælanna en var hins vegar dæmd til að greiða manninum 200.000 krónur í miskabætur auk málskostnaðar.

Taldi sjálfur að enginn hefði tengt hann við ummælin

Í ákvörðun sinni um að snúa dómi Héraðsdóms Reykjaness við segir Hæstiréttur að taka þurfi tillit til hvernig ummælin hafi verið orðuð, einkum hvort hægt væri að ráða af þeim að þau ættu við kærandann. Hann hafi sjálfur borið fyrir dómi að hann gæti ekki ímyndað sér að nokkur hefði áttað sig á að ummælin ættu við um hann.

Ekki yrði talið að lesendur bókarinnar, sem ekki þekktu til aðstæðna, hefðu getað áttað sig á því að með þeim væri vísað til mannsins. Að því er varðaði hin umþrættu ummæli er komu fram á Facebook var fallist á með konunni að henni hefði verið rétt, í samskiptum sínum við nafngreinda konu á lokuðu svæði miðilsins, að greina henni frá ætluðum brotum mannsins á þann hátt sem hún hafði gert.

Dró Hæstiréttur þá ályktun að konan hefði leitt nægar líkur að réttmæti þess að viðhafa þau ummæli sem maðurinn krafðist ómerkingar á. Yrði í einkarefsimáli sem þessu ekki gerðar kröfur til þess að hún færi fyrir þeim frekari sönnur. Var konan því sýknuð af kröfum mannsins.

mbl.is