Samkomulag á loftslagsráðstefnunni í París mun ekki fela í sér alþjóðlegt kolefnisgjald, segir Christiana Figueres, framkvæmdastjóri loftslagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum.
„Margir hafa sagt að við þurfum að taka upp kolefnisgjald og að kolefnisgjald myndi auðvelda fjárfestingu, en lífið er mun flóknara en það,“ sagði Figueres á fundi með fjárfestum í Lundúnum í dag. Hún sagðist hins vegar sammála því að kolefnisgjald myndi einfalda mál.
Fjöldi stórra alþjóðlegra fyrirtækja og fjárfesta hafa kallað eftir kolefnisgjaldi til að auka fjárfestingu í hreinni orkugjöfum, en alþjóðlegt kolefnisgjald myndi skapa hvata fyrir rekstraraðila orkuvera og fyrirtækja að skipta yfir í hreinni orkugjafa á borð við gas, eða fjárfesta í búnaði sem nýtir orkuna betur.
Þegar Evrópusambandið tók upp losunarkvóta árið 2005 stóðu vonir til að það fyrirkomulag yrði tekið upp á alþjóðavísu fyrir 2020, en það hefur reynst erfitt í ljósi ólíkrar nálgunar ríkja.
Útfærsla á kolefnisgjaldinu er í meginatriðum tvenns konar: Annars vegar er um að ræða að ríki ákveður hámarkslosun og losunarkvótar ganga kaupum og sölum, en hins vegar er um að ræða skatt á losun eða magn kolefnis í jarðefnaeldsneyti.