Lögreglumaður sem réðst að nemanda í Spring Valley gagnfræðiskólanum í Suður-Karólínu og henti henni úr sæti sínu á mjög hrannalegan hátt hefur verið vikið frá störfum, en lögreglustjóri á staðnum segir aðferðir lögreglumannsins vera óásættanlegar og að hann þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna.
Lögregluofbeldi í skólastofu vekur hörð viðbrögð
Myndband af því þegar lögreglumaðurinn rífur stelpuna upp frá kennsluborðinu sem hún situr við og kollvarpar því og stólnum sem hún situr á, hefur farið eins og eldur um sinu um netið. Stelpan hafði neitað að verða við beiðni stærðfræðikennara síns um að hætta að nota farsíma í tíma og endaði það með að kallað var á lögregluna. Varð hún heldur ekki við fyrirmælum lögreglumannsins um að koma með sér og greip hann þá til hennar með fyrrnefndum afleiðingum.
Lögmaður lögreglumannsins segir að aðgerðir hans hafi verið lögmætar og eðlilegar undir þessum kringumstæðum. Sagði hann lögreglu nota lögreglu athafnir og að mögulega hefði skólinn átt að hugsa til þess áður en kallað var til lögreglu.
Yfirmenn í lögreglunni voru þó fljótir að bregðast við eftir að myndbönd sem sýna verknaðinn komu í dagsljósið og var lögreglumanninum vikið umsvifalaust frá störfum.
Nemandinn gæti þó átt yfir höfði sér að vera vísað tímabundið úr skóla og fá 1.000 dala sekt eða 90 daga fangelsisvist fyrir að brjóta gegn reglum skólakerfisins og koma í veg fyrir að hægt sé að sinna kennslu. Ólíklegt er þó að hún fái fangelsisvist, en dómstólar hafa í slíkum tilfellum reynt að finna aðrar lausnir til að komast hjá fangelsisvist ungs fólks.