Iceland Music Export hefur komið upp miðstöð í Petersensvítunni í Gamla Bíói fyrir listamenn Iceland Airwaves, fjölmiðla og fólk tengt tónlistarbransanum. Þar verður boðið upp á frítt internet, gott kaffi og og svokallað Nonference. Nonference er lýst sem ráðstefnu (e. conference) sem er ekki ráðstefna en á viðburðinum munu ýmsir sérfræðingar úr tónlistarheiminum halda fyrirlestra og stýra umræðum um ýmsar hliðar hans.
„Við settum smá púður í þetta núna,“ segir Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Iceland Music Export. „Eitt sem við höfum orðið var við er að þetta fagfólk sem er að koma hingað utan úr heimi til þess að sjá íslenska tónlist, útgáfufyrirtæki, bókunaraðila, stjórnendur tónlistarhátíða o.s.frv., hafa gengið svolítið sjálfala. Fólk hefur nýtt sér Off Venue dagskrána og kaffihús en fólk hefur talað um að það vanti svokallað „Artist and Industry Area“ þar sem listamenn, pressan og fólk úr bransanum á athvarf, með netaðstöðu og góðu kaffi.“
Sigtryggur segir að ákveðið hafi verið að taka á þessu með trompi og að bæði dagskráin og aðstaðan í Petersen svítunni sé framúrskarandi. Segir hann einnig vonir standa til að á þessu svæði geti farið fram tengslamyndun milli tónlistarmanna og fagfólks tónlistarbransans umfram þá tengslamyndun sem á sér stað á árlegum „Networking Meeting“ IMX.
„Þessi dagskrá er fyrst og fremst gerð fyrir íslenska tónlistargeirann. Það er fínt ef erlendir gestir koma líka en við erum aðallega að reyna að byggja upp ákveðna færni hér á Íslandi í tónlistarviðskiptum.“
Airwaves hátíðin hefur oft verið kölluð árshátíð íslenskrar tónlistar og segir Sigtryggur það réttnefni. Nonference sé ætlað að bæta nýrri hlið við hátíðina. „Nú er komið að því að fá fróðleik út úr partíinu. Bestu partíin eru „inspírerandi. Maður vaknar morguninn eftir og fær nýjar hugmyndir.“
Dagskráin er fjölbreytt bæði að efni og forminu til og er hún hugsuð útfrá því að gestir geti varpað fram spurningum svo ákveðnir dagskrárliðir verði meira sam- en eintal. Sigtryggur segir að meðal þess sem hann sé spenntur fyrir séu fyrirlestrar Claire Mas, sérfræðings í markaðssetningu tónlistar á netinu sem og tónleikar í Sundhöll Reykjavíkur. Hann nefnir einnig innsetningar finnska raftónlistarmannsins og kokksins Antto Melasniemi sem mun elda ofan í gest Petersen svítunnar öll kvöldin og hyggst Sigtryggur aðstoða hann við að elda óhefðbundna íslenska kjötsúpu á fimmtudag. Hægt er að kynna sér dagskrána frekar á heimasíðu Iceland Music Export og lofar Sigtryggur góðri blöndu af fræðslu og fjöri.
„Við viljum fókusa þessa tengslamyndun á skemmtilegan hátt þannig að þetta verði gaman og gerist eðlilega.“