Milljarður aukalega í réttarkerfið

Um 114 milljónir fara aukalega í rekstur héraðsdómstóla. Þá fara …
Um 114 milljónir fara aukalega í rekstur héraðsdómstóla. Þá fara um 700 milljónir í málakostnað í opinberum málum, en liðurinn er undir ríkissaksóknara. mbl.is

Tæplega einn milljarður verður aukalega settur í réttarkerfið miðað við frumvarp til fjáraukalaga sem var sett á vefsíðu Alþingis í gær. Mestu munar um málakostnað í opinberum málum upp á 705 milljónir, en til viðbótar við það fá héraðsdómstólar 114,3 milljónir aukalega og um 140 milljónir í aðra liði.

Fjárheimildir fyrir liðinn málskostnaður í opinberum málum er á þessu ári 811,1 milljón og verði fjáraukalögin samþykkt er því um tæplega tvöföldun að ræða. Undir þennan lið geta meðal annars fallið kostnaður ríkissaksóknara við öll opinber mál, lögfræði- og málakostnaður sem fellur á ríkið o.fl.

Hrunmálin kosta mikið

Undanfarið hefur ríkið þurft að greiða háar upphæðir vegna reksturs svokallaðra hrunmála, en meðal annars var ríkissjóður dæmdur til að greiða tæplega 100 milljónir í málsvarnarlaun í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í júní.

Samkvæmt frumvarpinu fær Hæstiréttur 9,2 milljónir aukalega og þá er bætt við 65 milljónum í opinbera réttaraðstoð. Er þar um að ræða gjafasóknir sem dómstólar veita. Þá er bætt við 67 milljónum við liðinn bætur brotaþola, en það eru þær skaðabætur sem ríkið greiðir út í skaðabætur og rukkar svo brotageranda sem var dæmdur aftur um.

Samtals er því lagt til að aukalega fari um 960 milljónir í réttarkerfið samkvæmt fjáraukalögum.

mbl.is