Sérstakur saksóknari fær 400 milljónir aukalega

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.

Embætti sérstaks saksóknara fær 406 milljónir aukalega samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga sem birt var á vef Alþingis í gær. Á fjárlögum ársins hafði embættið fengið 292,4 milljóna fjárheimild, en í fjáraukalögunum er gert ráð fyrir að sú upphæð hækki um 406,7 milljónir og verði því tæplega 700 milljónir.

Á síðasta ári voru fjárheimildir embættisins 561,5 milljónir í fjárlögum og jukust um 215 milljónir í fjáraukalögum. Var því samtals upphæð fjárheimilda embættisins 776,5  milljónir, en árið þar á undan 849 milljónir og árið 2012 1.325,4 milljónir.

Í fjáraukalögunum kemur fram að embættið fái fjármagnið meðal annars vegna flutnings eins starfsmanns peningaþvættisskrifstofu og til að ljúka þeim verkefnum sem embættið hefur með höndum á þessu ári.

Um áramótin verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður og samhliða því nýtt embætti héraðssaksóknara tekið upp. Mun Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, leiða nýju stofnunina.

Upphaflega var gert ráð fyrir að nýtt embætti héraðssaksóknara tæki til starfa 1. júlí 2015 en við þinglega meðferð málsins var gildistöku laganna frestað til áramóta. Af þeim sökum þarf einnig að gera ráð fyrir framlagi til reksturs embættis sérstaks saksóknara á seinni hluta ársins, segir í fjáraukalagafrumvarpinu.

mbl.is