Handjárnuðu 7 ára gamlan dreng

Hér má sjá drenginn handjárnaðan.
Hér má sjá drenginn handjárnaðan. Skjáskot úr frétt NBC

Lögregla í Michigan í Bandaríkjunum hefur nú beðist afsökunar á því að hafa handjárnað sjö ára gamlan dreng í barnaskóla í borginni Flint í síðasta mánuði. Atvikið átti sér stað 12. október á frístundaheimili skólans. Móðir drengsins, Chrystal McCadden var beðin um að koma og ná í son sinn. Þegar hún mætti á svæðið var hann kominn í handjárn.

Lögreglan í Flint í Michigan sagði í yfirlýsingu á föstudaginn að nemandinn hafi ætlað að skaða sjálfan sig og var þessvegna handjárnaður. „Lögreglumaðurinn notaði handjárn til þess að hindra barnið í að skaða sig eða aðra,“ sagði í tilkynningunni.

McCadden segir þó mörg atriði varðandi atvikið óljós. Hún sagði í samtali við NBC að sonur hennar, Cameron, væri með ADHD og ætti ekki skilið að vera handjárnaður. Hún tók upp myndskeið á síma sinn af drengnum þegar hann var handjárnaður.

„Hann er æstur. Ég hef fengið símtöl útaf því áður. En hann er ekki ofbeldisfullur,“ sagði hún. „Ég er ennþá að leita svara.“

Þegar hún spurði son sinn hvað hafði gerst sagðist hann hafa sparkað í kerru. Þegar McCadden bað lögreglumanninn um að leysa son sinn úr handjárnunum sagðist hann ekki vera með lykil.

„Þú settir son minn í handjárn og ert ekki með lykill. Hann var ekki með byssu eða hníf. Var ekkert annað sem þú gast gert?“ spurði McCadden í viðtalinu.

Lögreglustjórinn í Flin, James Tolbert, sagði á föstudaginn að málið sé í rannsókn og að það sé alltaf markmið lögreglunnar að eiga í jákvæðum samskiptum við börn og þarna hefði það ekki tekist.

mbl.is