Í umfjöllun Kastljós í kvöld var m.a. rakin saga Kristínar Jónu Þórarinsdóttur, en hún glímir við þroskaskerðingu og hefur margsinnis orðið fyrir kynferðisafbrotum. Kristín hefur margsinnis leitað til lögreglu en mál hennar hafa aldrei ratað fyrir dómstóla. Þáttur kvöldsins er framhald á umfjöllun gærdagsins en þar kom fram að ríkissaksóknari hefði fellt niður mál þeirra Kristínar og Hönnu Þorvaldsdóttur þar sem hann taldi þau ekki líkleg til sakfellingar.
Sjá frétt mbl.is: Meint kynferðisbrot gegn þroskaskertum konum fara ekki fyrir dóm
Í þætti kvöldsins var rætt við Jón Þorstein Sigurðsson, réttindagæslumann fatlaðs fólks á Vesturlandi og Vestfjörðum, en hann segir það vonbrigði að mál fatlaðs fólks nái ekki inn á borð dómstala þar sem þau eigi heima. Jafnframt er rætt við Þóru Marý Arnórsdóttur, deildarstjóra málefna fatlaðs fólks í Ísafjarðarbæ, en hún gagnrýnir aðgerðaleysi lögreglunnar. „Ég hef farið með Stínu á lögreglustöðina og þá hefur okkur verið sagt að við ættum ekki að leggja fram kæru heldur muni lögreglan tala við þann sem er að áreita hana. Þannig að málin hafa ekki alltaf farið í formlegt ferli þegar hún hefur viljað segja frá,“ sagði hún.
Lögreglan á Ísafirði heldur því þó fram að um misskilning hafi verið að ræða og að lögreglan hafi haldið að um tilkynningu en ekki kæru væri að ræða og að ómögulegt sé fyrir hana að taka ekki við kærum.
Kristín Jóna, eða Stína, er fædd og uppalin í Bolungarvík. En samkvæmt upplýsingum frá rannsókn Nýjabæjarmálsins eru hartnær 30 ár síðan fyrst fór að vakna grunur um að Kristín væri fórnarlamb kynferðisofbeldis. Í framburði starfsmanns sem starfaði með Kristínu kemur fram að hún hafi verið mjög berskjölduð og hrædd við að búa ein. „Samfélagið vissi allt af þessu en enginn gerði neitt.“
Árið 1996 voru tveir karlmenn kærðir fyrir að nauðga Kristínu, fyrir utan skemmtistað á Ísafirði. Það mál var kært en fellt niður af ríkissaksóknara síðar sama ár. Ári síðar 1997 er tilkynnt um tilraun manns til þess að nauðga Kristínu sem hafði þó engin réttarfarsleg eftirmál. Síðan þá hefur Kristín búið í verndaðra umhverfi en þó hafa komið upp mál af svipuðum toga.