Alvarlegir vankantar eru á framlagi íslenskra stjórnvalda til Parísarsamkomulagsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni, að mati Ungra umhverfissinna. Samtökin hafa sett af stað undirskriftasöfnun þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að draga enn meira úr losun Íslands.
Í tilkynningu kemur fram að samtökin telji að stjórnvöld muni ekki axla ábyrgð í loftslagsmálum þar sem þau hafi ekki sýnt vilja til að draga úr útblæstri heldur eingöngu stuðlað að aukningu með áframhaldandi stóriðjuverkefnum. Stóriðjumengun sé nú þegar vandamál á Íslandi.
Loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna fer fram í París í næsta mánuði en vonir standa til að þar verði skrifað undir alþjóðlegt samkomulag um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Takmarkið er að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu til að forðast verstu afleiðingar breytinganna.
Í aðdraganda fundarins hafa ríki heims skilað inn landsmarkmiðum sínum um aðgerðir til að ná því markmiði. Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli að vera með í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030. Hvorki hefur hins vegar verið ákveðið né tilkynnt hvert framlag Íslands verður til þess markmiðs, ólíkt Noregi en þarlend stjórnvöld hafa þegar lýst því yfir að þau muni draga úr losun landsins um 40% óháð því hvað önnur ríki Evrópu geri.
Þarna segja Ungir umhverfissinnar að stjórnvöld forðist að axla ábyrgð með því að setja Íslandi engin markmið önnur en að Evrópa í heild sinni minnki útblástur. Það gæti allt eins þýtt aukinn útblástur á Íslandi. Hann sé reynt að réttlæta í síðustu málsgrein framlags Íslands undir því yfirskyni að „einstök stóriðjuverkefni vegi þyngra á litla Íslandi, án þess að taka mið af því að stóriðjumengun sé vandamál á Íslandi nú þegar“, að því er segir á vef undirskriftasöfnunarinnar.
„Ungir umhverfissinnar beina því til stjórnvalda að draga úr koldíoxíðlosun um a.m.k. 40% í stað þess að auka hana. Þannig geti Ísland orðið öðrum ríkjum fyrirmynd og lagt sitt að mörkum við verndun fiskimiða gegn súrnun sjávar, komið í veg fyrir áframhaldandi bráðnun jökla og þeirri hættu á að Golfstraumurinn hægi á sér, en slíkt gæti haft í för með sér alvarleg áhrif á loftslag á Íslandi,“ segir í tilkynningu Ungra umhverfissinna.
Undirskriftasöfnun um betra framlag til Parísarsamkomulagsins