Mikil umræða hefur farið af stað á samfélagsmiðlum um tvo karlmenn sem eru grunaðir um gróf kynferðisbrot og m.a. spurt hvers vegna þeir hafi ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Lögreglan getur lítið tjáð sig um málið, en segir þó að ekki hafi verið tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Boðað hefur verið til mótmæla við lögreglustöðina á Hverfisgötu klukkan 17 og á Twitter fer nú fram umræða undir myllumerkinu almannahagsmunir. Þá hafa margir beint spurningum til lögreglunnar á Facebook; ljóst er að margir eru bæði reiðir og áhyggjufullir.
Lögreglan fundaði um málið í hádeginu í dag og hún hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að málin séu í algjörum forgangi hjá kynferðisbrotadeild embættisins. Lögreglan tekur hins vegar fram að sumt í umfjöllun fjölmiðla sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknargögn lögreglu.
En á hvaða grundvelli á að fara fram á gæsluvarðhald? Á vef Fangelsismálastofnunar segir að ströng lagaskilyrði séu um beitingu gæsluvarðhalds enda feli það í sér mikla skerðingu á persónufrelsi viðkomandi einstaklings.
Fjallað er um gæsluvarðhald XIV. kafla laga um meðferð sakamála. Þar segir að dómstóll geti úrskurðað sakborning í gæsluvarðhald liggi fyrir rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing sé lögð við og þegar ákveðin skilyrði.
Þá verða að vera fyrir hendi eitthvert eftirtalinn skilyrða:
Þá má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Ekki er heimilt að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sýnt þykir að brot, sem hann sé sakaður um, muni aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu miðað við aðstæður. Enn fremur skuli eftir föngum gæta þess að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þykir að fangelsisrefsing verði dæmd.