Myglusveppur í Ölduselsskóla

Mygluskemmdir eru í byggingarefnum á nokkrum stöðum og í og …
Mygluskemmdir eru í byggingarefnum á nokkrum stöðum og í og við þak Ölduselsskóla. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Mygluskemmdir eru í byggingarefnum á nokkrum stöðum og í og við þak Ölduselsskóla. Skemmdirnar koma til vegna leka og einnig af því að frágangur og notkun byggingarefna hefur ekki verið fullnægjandi og þarfnast endurbóta. 

Rétt eftir miðjan september sendi skólastjóri skólans foreldrum og forsjáraðilum nemenda tölvupóst þar sem kom fram að vísbendignar væru um rakaskemmdir í húsnæði skólans sem mögulega gætu valdið óþægindum hjá fólki sem í húsnæðinu dveldi og starfaði. Síðan þá hafa verði í gangi rannsóknir og greiningar sem eru nú að stórum hluta lokið. 

Gera þarf endurbætur á kaffistofu starfsmanna, svæði fyrir framan kaffistofu sem liggur að samkomusal skólans og bókasafni, miðrými sem liggur að kennslustofum 5. - 7. bekkjar og tengigangur milli þess svæðis og aðalbyggingar skólans. 

Ekki nauðsynlegt að loka svæðum

Í tölvupósti frá skólastjóra segir að Vinnueftirlit ríkisins og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið gögnin til skoðunar. Mat þeirra sé að samkvæmt þeim loftsýnum sem tekin hafa verið víðs vegar um skólann, sé magn loftborinna myglugróa lítið og því ekki nauðsynlegt að loka neinum svæðum í skólanum.

„Hins vegar þurfi að grípa til ráðstafana til að fjarlægja þá myglu sem er til staðar. Einnig þarf að gera endurbætur þannig að aðstæður skapist ekki fyrir myndun rakaskemmda og myglu. Jafnframt er mikilvægt að huga vel að loftræsingu og loftskiptum í þeim rýmum sem um ræðir og verður það gert.

Umfang þeirra endurbóta sem ráðast þarf í er það mikið að ekki verður hægt að vinna að því öllu í einu. Í gang er farin vinna við að áfangaskipta verkinu og undirbúa þannig að hægt verði að hefjast handa við úrbætur sem fyrst. Stefnt er að því að bregðast við eins hratt og vel og mögulegt er,“ segir í tölvupóstinum

Ráðast í umbætur í jólaleyfinu

Í forgangi er að vinna að úrbótum á miðrými 5.- 7. bekkja og áform eru um að ráðast í það verk í tengslum við jólaleyfi. Á meðan á úrbótunum stendur þarf að loka húsnæðinu á því svæði og getur það því raskað skipulagi skólastarfs tímabundið. 

„Áhrif raka og mygluskemmda í húsnæði á heilsu fólks eru mjög mismunandi eftir einstaklingum og því eru ekki til nein skilgreind viðmiðunarmörk hvað það varðar. Því vil ég hvetja ykkur sem hafið grun um að mygluskemmdirnar geti haft áhrif á heilsu ykkar barns að leita til lækna og koma jafnframt upplýsingum um það til mín,“ segir einnig í tölvupóstinum. 

mbl.is