Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt Erlend Eysteinsson í 14 mánaða fangelsi fyrir ítrekaðar hótanir í garð fyrrum sambýliskonu sinnar, Ásdísar Viðarsdóttur. Áður hefur verið fjallað ítarlega um mál þetta eftir að Ásdís sagði sögu sína í Kastljósi Ríkisútvarpsins í maí árið 2014.
Sjá frétt mbl.is: „Hann ætlar að láta mig borga“
Erlendur var ákærður í septembermánuði fyrir að hafa á tímabilinu 3. júlí til 15. ágúst árið 2015 margítrekað sent Ásdísi hótanir í textaskilaboðum. Segir í niðurstöðum dómsins að sum skilaboðin hafi verið til þess fallin að vekja hjá brotaþola ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína.
Í ákærunni voru talin upp rúmlega 50 skilaboð sem Erlendur sendi Ásdísi á tímabilinu. Viðurkenndi hann fyrir dómi að hafa sent skilaboðin en fullyrti á sama tíma að ekki væri um hótanir að ræða. Segir hann í skýrslu fyrir dómi að fyrir sér hafi aðeins vakað að fá föðurarf sinn frá brotaþola, og vísaði hann þar til stóls sem verið hefði í eigu föður hans.
Meðal þeirra skilaboða, þar sem ekki þótti leika vafi á um að þar væri hótað refsiverðri meingerð eru til dæmis eftirfarandi:
Erlendi hefur enn fremur verið gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, sem nema rúmlega 400 þúsund krónum.
Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði Erlend í nálgunarbann til sex mánaða í september síðastliðnum, eftir ítrekaðar hótanir hans í garð Ásdísar.
Ásdís krafðist nálgunarbannsins í júlí en þar sem málið gleymdist var kröfunni vísað frá þegar lögreglan fór loks fram á nálgunarbann í ágúst. Héraðsdómur sagði þá að lögreglan hefði lagt fram kröfuna of seint. Hæstiréttur vísaði svo kröfunni um nálgunarbann aftur heim í hérað og þá fékkst loks nálgunarbannið.
Sjá frétt mbl.is: „Þetta var bara klúður“