Tekinn af lífi fyrir þrefalt morð

AFP

Yfirvöld í Texas tóku í nótt af lífi mann sem myrti þrjú börn með því að kveikja í heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar árið 2000. Eitt barnanna var dóttir hans, eins árs en hin tvö voru stjúpdætur hans, fimm og sjö ára. 

Maðurinn, Raphael Holiday, 36 ára, var tekinn af lífi með banvænni lyfjagjöf og úrskurðaður látinn klukkan 20:30 að staðartíma, klukkan 2:30 í nótt að íslenskum tíma, að sögn Jasons Clarks, talsmanns fangelsismála í Texas.

Fyrrverandi eiginkona Holidays hafði fengið nálgunarbann á hann eftir skilnað þeirra snemma á árinu 2000 eftir að í ljós kom að hann hafði beitt stjúpdóttur sína kynferðislegu ofbeldi en í september 2000 hunsaði hann bannið og braust inn á heimili eiginkonunnar fyrrverandi í Madisonsýslu. Hún flúði skelfingu lostin af heimilinu til þess að fá aðstoð.

Holiday hótaði ömmu barnanna með byssu og neyddi hana til þess að hella bensíni yfir allt í húsinu og kveikti síðan í. Holiday er þrettándi fanginn sem tekinn er af lífi í Texas í ár.

Frekari upplýsingar um mál Holidays

mbl.is