Í síðustu viku var Bryndísk Ósk Þ. Ingvarsdóttir ekki hún sjálf heldur nemandi í galdraháskóla í heimi Harry Potter. Bryndís, sem býr í Karlsrue í Þýskalandi, þar sem kærastinn hennar er í námi, ferðaðist til Lesna í Póllandi þar sem hún skellti sér í skikkju ásamt 140 öðrum og eyddi heilli helgi í galdralarp í og við kastalann Czocha.
Bryndís kveðst vera af hárréttri kynslóð til að njóta Harry Potter larps enda hafi hún alist upp við lestur bókanna. Hún er með gráðu í fræði og framkvæmd frá Listaháskólanum og hefur lengi verið viðloðandi leikhús og því sé hún löngu búin að losa sig við þann kjánahroll sem aðrir kunna að finna til við að skella sér í búning og bregða sér í hlutverk.
„Það eina larplega sem ég hafði gert áður var samt þegar ég var með Quidditch-lið fyrir nokkrum árum,“ segir Bryndís. Eins og aðdáendur Harry Potter vita er vandkvæðum bundið fyrir mugga (fólk sem ekki getur galdrað og ekki kemur úr galdrafjölskyldu) að stunda Quidditch. Quidditch leikmenn fljúga nefnilega um á kústsköftum og þurfa m.a. að vara sig á tveimur boltum sem kallast rotarar og fljúga stjórnlausir um. Í ofanálag þarf að leita að og finna gullnu eldinguna sem skýst um loftin af sjálfsdáðum.
„Þá er blandað saman handbolta, körfubolta og ruðning, þá verður til einhver svona geggjuð blanda,“ segir Bryndís um hvernig muggar fara að því að spila Quidditch. „Það virkar nefnilega og er rosalega skemmtilegt.“
Það var samt öllu alþjóðlegri bragur yfir larpinu í Czocha-kastala en yfir íslenska Quidditch-liðinu hennar Bryndísar. Larpið var skipulagt af dönskum og pólskum larphópum en þátttakendur komu frá öllum heimshornum. Bryndís segir mikið af flottum köstulum í Póllandi sem tiltölulega ódýrt sé að leigja.
„Það eru svo margir sem dýrka þennan heim. Krakkarnir sem voru búin að vera að larpa í 10-15 ár var rosalega hissa að sjá svona mikið af fólki sem hafði aldrei larpað áður,“ segir Bryndís. „En allir elska Harry Potter.“
Larpið varði í 60 klukkustundir samfleytt þar sem þátttakendur fóru að sofa og vöknuðu sem þær persónur sem þeim hafði verið úthlutað og eyddu deginum í ýmsum kennslustundum og við að leysa ákveðin verkefni. Var þetta í fjórða skiptið sem skipuleggjendur héldu larp með Harry Potter þema en ólíkt fyrri skiptunum komu persónur bókanna hvergi við sögu. Bryndís segir ástæðuna vera þá að kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros sé andsnúinn larpinu og hafi tekist að koma í veg fyrir notkun á persónunum á grundvelli höfundarréttar. Því þurftu leikstjórnendur að búa til persónur frá grunni fyrir leikmenn.
„Mér fannst það alls ekki til trafala. Í rauninni varð þetta bara fjölbreyttara,“ segir Bryndís.
„Það voru fimm heimavistir og þær voru hver um sig byggðar á einhverjum evrópskum menningarheimi. Í þessa tvo heilu daga sem ég var þarna mætti ég í alveg tólf kennslustundir. Einhverjir leikmannanna ákváðu fyrir löngu síðan að þeir ætluðu að vera kennarar og þá undirbjuggu þeir bara kennsluefni. Það var t.d. tími í að kveða út djöfla, tími í ritúalískum töfrum og tími í varnargöldrum. Þetta var allt mjög mismunandi.“
Bryndís segir að það sem henni þyki einna glæsilegast við viðburðinn hafi verið fjölbreytni þátttakenda og þá sérstaklega sú staðreynd að vel á annan tug keppenda var kominn yfir fertugt og jafnvel fimmtugt. Þó 18 ára aldurstakmark hafi verið á viðburðinn er meðalaldurinn í larpsamfélaginu í lægri kantinum. Segist Bryndís því ekki hafa átt von á því að hitta svo reynda larpara og segir hún fjölbreytileikann hafa gefið leiknum raunverulegri blæ.
Leikstjórnendur úthlutuðu bæði persónum og markmiðum eða þrautum til keppenda. Nefnir Bryndís sem dæmi að sumir hafi verið varúlfar sem áttu að finna hvorn annan, einhverjum hafi verið gert að stofna klúbba og öðrum að kveða út djöfla.
„Minn karakter var bara á fyrsta ári þannig að ég var ekki með mikið af svona markmiðum. Það eina sem ég fékk að vita var að ég væri af rosalega gamallri galdrafjölskyldu frá Færeyjum,“ útskýrir Bryndís og hlær. „Svo ég var að koma úr smáþorpi, búin að alast upp í hálfgerri einangrun þannig að ég var að koma til: Evrópu! Vááá!“ segir hún í hlutverki stóreygða færeyska nýnemans.
Bryndís segir u.þ.b. helminn þátttakenda hafa verið fengið markmið og að þannig verði sögurnar til.
„Minn karakter, forvitni fyrsta árs neminn, varð vitni að blóðfórn úti í skógi og þá lenti ég í vandræðum. Þá varð til saga hjá mér og þeim sem náði mér og þeim sem voru í blóðfórninni þannig að þetta er svona keðjuverkun bara eins og í lífinu, sem gerir þetta svo klikkaðslega töff.“
Hún nefnir að mikilvægur hluti af sögunum sé hópur aukaleikara sem tók þátt í leiknum. Þeir kallast „Non-playable characters“ og skipta úr einu hlutverki í annað eftir þörfum sögunnar hverju sinni.
„Einhvern tímann var einn að leika einhvern mínótár sem var að ráðast á skólann og svo í næsta atriði þá var hann bara draugur einhversstaðar. Reyndustu larpararnir gátu farið inn á skrifstoðu hjá leikstjórnunum og sagt: Hey, mig langar til að mæta varúlfi úti í skógi, er einhver laus í það klukkan fimm í dag?.“
Bryndís segir að helstu tengslin sem þátttakendur mynduðu „í eigin persónu“ ef svo má að orði komast, hafi verið í rútunni til og frá kastalanum. Að öðru leiti hafi allir verið í hlutverki allan tímann og að sumir hafi jafnvel kynnt sig með nafni persónu sinnar strax í upphafi.
„Síðan gerist það sama og gerist ef maður tekur þátt í löngu verkefni eins og leiksýningu eða einhverju svoleiðis að maður myndar tilfinningaleg tengsl yfir nándinni og yfir því að hafa gengið í gegnum þetta saman,“ segir hún. „Við spjöllum saman um þetta í grúppum á Facebook núna, við tengdumst í gegnum upplifunina.“
Bryndís segist vel geta hugsað sér að ferðast aftur milli landa til að taka þátt í stórum lörpum. Hún hefur ekki heyrt af áþekkum lörpum hér á landi en segist afar opin fyrir því að heyra í áhugasömum lörpurum.
„Ég held að á Íslandi þyrfti þetta að vera á mikið smærri skala. Ég sé fyrir mér tegund af larpi þar sem maður hittist í karakter yfir kvöldmat eða í veislu eina kvöldstund. Það þarf bara að finna góða leið þar sem við erum ekki með ógrynni af svona flottum gömlum byggingum.“
Það er ekki hægt að sleppa Bryndísi úr símanum án þess að spyrja hana hvaða persóna úr bókunum hún hefði verið ef hún hefði fengið að ráða.
„Þar sem að ég var svolítið í því að gera einhverja óknytti með vinkonu minni hefði ég líklega tekið annan af tvíburunum, Fred og George. Þeir eru bara að hlaupa um og rugla í fólki sem er að ógeðslega skemmtilegt.“
Hún er ekki tilbúin að fullyrða að þeir séu uppáhalds persónurnar hennar úr bókunum enda sé það nokkuð breytilegt. Hún er enn óvissari um svarið þegar kemur að áliti hennar á nýjum hliðum galdraheimsins sem höfundur bókanna J.K. Rowling stendur fyrir, annars vegar með kvikmyndunum Fantastic Beasts and Where to Find Them og hinsvegar með leikritinu Harry Potter and the Cursed Child.
„Ég hef smá áhyggjur af leikritinu, við heyrðum öll um Spiderman floppið sem varð fyrir nokkrum árum síðan..að taka eitthvað úr bók þar sem allt er hægt og setja það á svið, hvort það verði ekki eitthvað pínu skrítið. Svo er skipt algjörlega um leikhóp og engir leikarar úr bíómyndunum....“
Bryndís segir hinsvegar að hún telji líklegt að Fantastic Beasts þríleikurinn verði skemmtilegur. Hann gerist í Bandaríkjunum og er því ólíklegt að sami breski sjarminn verði yfir þeim og segist Bryndís hreinlega ekki þora að fullyrða neitt.
„Ég ætla bara að sjá þetta og afneita þessu ef þetta er ömurlegt. En ég er meira vongóð en minna. Ef það kemur mynd þar sem er bara verið að stækka heiminn sem maður þekkir gæti það orðið skemmtilegt og maður orðið glaður yfir því að sjá vísanir í persónurnar.“