Í 60 klukkustunda Harry Potter-larpi

Larpað í kastalanum.
Larpað í kastalanum. Ljósmynd/ Rollespilsfabrikken.dk

Í síðustu viku var Bryn­dísk Ósk Þ. Ingvars­dótt­ir ekki hún sjálf held­ur nem­andi í galdra­há­skóla í heimi Harry Potter. Bryn­dís, sem býr í Karlsrue í Þýskalandi, þar sem kærast­inn henn­ar er í námi, ferðaðist til Lesna í Póllandi þar sem hún skellti sér í skikkju ásamt 140 öðrum og eyddi heilli helgi í galdralarp í og við kast­al­ann Czocha.

Bryn­dís kveðst vera af hár­réttri kyn­slóð til að njóta Harry Potter larps enda hafi hún al­ist upp við lest­ur bók­anna. Hún er með gráðu í fræði og fram­kvæmd frá Lista­há­skól­an­um og hef­ur lengi verið viðloðandi leik­hús og því sé hún löngu búin að losa sig við þann kjána­hroll sem aðrir kunna að finna til við að skella sér í bún­ing og bregða sér í hlut­verk.

„Það eina larp­lega sem ég hafði gert áður var samt þegar ég var með Quidditch-lið fyr­ir nokkr­um árum,“ seg­ir Bryn­dís. Eins og aðdá­end­ur Harry Potter vita er vand­kvæðum bundið fyr­ir mugga (fólk sem ekki get­ur galdrað og ekki kem­ur úr galdra­fjöl­skyldu) að stunda Quidditch. Quidditch leik­menn fljúga nefni­lega um á kúst­sköft­um og þurfa m.a. að vara sig á tveim­ur bolt­um sem kall­ast rot­ar­ar og fljúga stjórn­laus­ir um. Í ofanálag þarf að leita að og finna gullnu eld­ing­una sem skýst um loft­in af sjálfs­dáðum.

„Þá er blandað sam­an hand­bolta, körfu­bolta og ruðning, þá verður til ein­hver svona geggjuð blanda,“ seg­ir Bryn­dís um hvernig mugg­ar fara að því að spila Quidditch. „Það virk­ar nefni­lega og er rosa­lega skemmti­legt.“

Czocha kastalinn.
Czocha kast­al­inn. Ljós­mynd/ Rol­lespils­fa­brikk­en.dk

„All­ir elska Harry Potter

Það var samt öllu alþjóðlegri brag­ur yfir larp­inu í Czocha-kast­ala en yfir ís­lenska Quidditch-liðinu henn­ar Bryn­dís­ar. Larpið var skipu­lagt af dönsk­um og pólsk­um larp­hóp­um en þátt­tak­end­ur komu frá öll­um heims­horn­um. Bryn­dís seg­ir mikið af flott­um köstul­um í Póllandi sem til­tölu­lega ódýrt sé að leigja.

„Það eru svo marg­ir sem dýrka þenn­an heim. Krakk­arn­ir sem voru búin að vera að larpa í 10-15 ár var rosa­lega hissa að sjá svona mikið af fólki sem hafði aldrei larpað áður,“ seg­ir Bryn­dís. „En all­ir elska Harry Potter.“

Larpið varði í 60 klukku­stund­ir sam­fleytt þar sem þátt­tak­end­ur fóru að sofa og vöknuðu sem þær per­són­ur sem þeim hafði verið út­hlutað og eyddu deg­in­um í ýms­um kennslu­stund­um og við að leysa ákveðin verk­efni. Var þetta í fjórða skiptið sem skipu­leggj­end­ur héldu larp með Harry Potter þema en ólíkt fyrri skipt­un­um komu per­són­ur bók­anna hvergi við sögu. Bryn­dís seg­ir ástæðuna vera þá að kvik­mynda­fram­leiðand­inn Warner Bros sé and­snú­inn larp­inu og hafi tek­ist að koma í veg fyr­ir notk­un á per­són­un­um á grund­velli höf­und­ar­rétt­ar. Því þurftu leik­stjórn­end­ur að búa til per­són­ur frá grunni fyr­ir leik­menn.

„Mér fannst það alls ekki til trafala. Í raun­inni varð þetta bara fjöl­breytt­ara,“ seg­ir Bryn­dís.

Bryndísk Ósk segist vel geta hugsað sér að ferðast meira …
Bryn­dísk Ósk seg­ist vel geta hugsað sér að ferðast meira um heim­inn til að taka þátt í larpi.

Fær­eysk­ur fyrsta árs nemi

„Það voru fimm heima­vist­ir og þær voru hver um sig byggðar á ein­hverj­um evr­ópsk­um menn­ing­ar­heimi. Í þessa tvo heilu daga sem ég var þarna mætti ég í al­veg tólf kennslu­stund­ir. Ein­hverj­ir leik­mann­anna ákváðu fyr­ir löngu síðan að þeir ætluðu að vera kenn­ar­ar og þá und­ir­bjuggu þeir bara kennslu­efni. Það var t.d. tími í að kveða út djöfla, tími í ritúalísk­um töfr­um og tími í varn­ar­göldr­um. Þetta var allt mjög mis­mun­andi.“

Bryn­dís seg­ir að það sem henni þyki einna glæsi­leg­ast við viðburðinn hafi verið fjöl­breytni þátt­tak­enda og þá sér­stak­lega sú staðreynd að vel á ann­an tug kepp­enda var kom­inn yfir fer­tugt og jafn­vel fimm­tugt. Þó 18 ára ald­urstak­mark hafi verið á viðburðinn er meðal­ald­ur­inn í larpsam­fé­lag­inu í lægri kant­in­um. Seg­ist Bryn­dís því ekki hafa átt von á því að hitta svo reynda larp­ara og seg­ir hún fjöl­breyti­leik­ann hafa gefið leikn­um raun­veru­legri blæ.

Leik­stjórn­end­ur út­hlutuðu bæði per­són­um og mark­miðum eða þraut­um til kepp­enda. Nefn­ir Bryn­dís sem dæmi að sum­ir hafi verið var­úlf­ar sem áttu að finna hvorn ann­an, ein­hverj­um hafi verið gert að stofna klúbba og öðrum að kveða út djöfla.

„Minn karakt­er var bara á fyrsta ári þannig að ég var ekki með mikið af svona mark­miðum. Það eina sem ég fékk að vita var að ég væri af rosa­lega gam­allri galdra­fjöl­skyldu frá Fær­eyj­um,“ út­skýr­ir Bryn­dís og hlær. „Svo ég var að koma úr smáþorpi, búin að al­ast upp í hálf­gerri ein­angr­un þannig að ég var að koma til: Evr­ópu! Vááá!“ seg­ir hún í hlut­verki stór­eygða fær­eyska ný­nem­ans.

„Mig lang­ar að mæta var­úlfi“

Bryn­dís seg­ir u.þ.b. helm­inn þátt­tak­enda hafa verið fengið mark­mið og að þannig verði sög­urn­ar til.

„Minn karakt­er, for­vitni fyrsta árs nem­inn, varð vitni að blóðfórn úti í skógi og þá lenti ég í vand­ræðum. Þá varð til saga hjá mér og þeim sem náði mér og þeim sem voru í blóðfórn­inni þannig að þetta er svona keðju­verk­un bara eins og í líf­inu, sem ger­ir þetta svo klikkaðslega töff.“

Hún nefn­ir að mik­il­væg­ur hluti af sög­un­um sé hóp­ur auka­leik­ara sem tók þátt í leikn­um. Þeir kall­ast „Non-playa­ble characters“ og skipta úr einu hlut­verki í annað eft­ir þörf­um sög­unn­ar hverju sinni.

„Ein­hvern tím­ann var einn að leika ein­hvern mínótár sem var að ráðast á skól­ann og svo í næsta atriði þá var hann bara draug­ur ein­hversstaðar. Reynd­ustu larp­ar­arn­ir gátu farið inn á skrif­stoðu hjá leik­stjórn­un­um og sagt: Hey, mig lang­ar til að mæta var­úlfi úti í skógi, er ein­hver laus í það klukk­an fimm í dag?.“

Leikmenn fara oft út í skóg í kennslustundum.
Leik­menn fara oft út í skóg í kennslu­stund­um. Ljós­mynd/ Rol­lespils­fa­brikk­en.dk

Mik­il nánd í larp­inu

Bryn­dís seg­ir að helstu tengsl­in sem þátt­tak­end­ur mynduðu „í eig­in per­sónu“ ef svo má að orði kom­ast, hafi verið í rút­unni til og frá kast­al­an­um. Að öðru leiti hafi all­ir verið í hlut­verki all­an tím­ann og að sum­ir hafi jafn­vel kynnt sig með nafni per­sónu sinn­ar strax í upp­hafi.

„Síðan ger­ist það sama og ger­ist ef maður tek­ur þátt í löngu verk­efni eins og leik­sýn­ingu eða ein­hverju svo­leiðis að maður mynd­ar til­finn­inga­leg tengsl yfir nánd­inni og yfir því að hafa gengið í gegn­um þetta sam­an,“ seg­ir hún. „Við spjöll­um sam­an um þetta í grúpp­um á Face­book núna, við tengd­umst í gegn­um upp­lif­un­ina.“

Bryn­dís seg­ist vel geta hugsað sér að ferðast aft­ur milli landa til að taka þátt í stór­um lörp­um. Hún hef­ur ekki heyrt af áþekk­um lörp­um hér á landi en seg­ist afar opin fyr­ir því að heyra í áhuga­söm­um lörp­ur­um.

„Ég held að á Íslandi þyrfti þetta að vera á mikið smærri skala. Ég sé fyr­ir mér teg­und af larpi þar sem maður hitt­ist í karakt­er yfir kvöld­mat eða í veislu eina kvöld­stund. Það þarf bara að finna góða leið þar sem við erum ekki með ógrynni af svona flott­um göml­um bygg­ing­um.“

Einn kennaranna ræðir við nemendur.
Einn kenn­ar­anna ræðir við nem­end­ur. Ljós­mynd/ Rol­lespils­fa­brikk­en.dk

Hef­ur áhyggj­ur af leik­rit­inu

Það er ekki hægt að sleppa Bryn­dísi úr sím­an­um án þess að spyrja hana hvaða per­sóna úr bók­un­um hún hefði verið ef hún hefði fengið að ráða.

„Þar sem að ég var svo­lítið í því að gera ein­hverja óknytti með vin­konu minni hefði ég lík­lega tekið ann­an af tví­burun­um, Fred og Geor­ge. Þeir eru bara að hlaupa um og rugla í fólki sem er að ógeðslega skemmti­legt.“

Hún er ekki til­bú­in að full­yrða að þeir séu upp­á­halds per­són­urn­ar henn­ar úr bók­un­um enda sé það nokkuð breyti­legt. Hún er enn óviss­ari um svarið þegar kem­ur að áliti henn­ar á nýj­um hliðum galdra­heims­ins sem höf­und­ur bók­anna J.K. Rowl­ing stend­ur fyr­ir, ann­ars veg­ar með kvik­mynd­un­um Fant­astic Be­asts and Wh­ere to Find Them og hins­veg­ar með leik­rit­inu Harry Potter and the Cur­sed Child.

„Ég hef smá áhyggj­ur af leik­rit­inu, við heyrðum öll um Spi­derm­an floppið sem varð fyr­ir nokkr­um árum síðan..að taka eitt­hvað úr bók þar sem allt er hægt og setja það á svið, hvort það verði ekki eitt­hvað pínu skrítið. Svo er skipt al­gjör­lega um leik­hóp og eng­ir leik­ar­ar úr bíó­mynd­un­um....“

Bryn­dís seg­ir hins­veg­ar að hún telji lík­legt að Fant­astic Be­asts þríleik­ur­inn verði skemmti­leg­ur. Hann ger­ist í Banda­ríkj­un­um og er því ólík­legt að sami breski sjarm­inn verði yfir þeim og seg­ist Bryn­dís hrein­lega ekki þora að full­yrða neitt.

„Ég ætla bara að sjá þetta og af­neita þessu ef þetta er öm­ur­legt. En ég er meira vongóð en minna. Ef það kem­ur mynd þar sem er bara verið að stækka heim­inn sem maður þekk­ir gæti það orðið skemmti­legt og maður orðið glaður yfir því að sjá vís­an­ir í per­són­urn­ar.“

Þungt hugsi með kústinn á bakinu.
Þungt hugsi með kúst­inn á bak­inu. Ljós­mynd/ Rol­lespils­fa­brikk­en.dk
mbl.is