Á sama tíma og þjóðir heims keppast við að aðlagast loftslagsbreytingum, fer suður-afrískur vísindamaður fyrir alþjóðlegri rannsókn þar sem markmiðið er að þróa nytjaplöntur sem líkja eftir eiginleikum svokallaðra „endurlífgunarplantna“.
Jill Farrant er prófessor í sameinda- og frumulíffræði við háskólann í Höfðaborg. Hún vonast til þess að með því að greina erfðamengi plantna sem þola vel þurrka, sé hægt að finna lausnir fyrir bændur sem búa við síheitari og þurrari skilyrði.
Vísindamenn hafa fundið yfir 130 afbrigði af endurlífgunarplöntum en þær eru einstakar að því marki að þær þola að vera án vatns svo árum skiptir. Þegar þurrkar standa yfir virka plönturnar eins og fræ, og þorna upp þannig að þær virðast dauðar.
Þegar rignir á ný taka þær hins vegar við sér og grænka og blómstra á fáum klukkutímum.
„Ég vil þjóna þeim bændum sem hafa lífsviðurværi sitt af uppskerunni, þeim sem vilja rækta nægan mat til að komast af,“ sagði Farrant í samtali við AFP. Hún segir að dregið hafi úr mörgum bændum, þar sem þurrkar hafa leikið þá illa.
Ein þekktasta endurlífgunarplantan er myrothamnus flabellifolius, sem framleiðir andoxunarefni til að vernda sig í þurrkatíð. Plantan hefur m.a. verið notuð í snyrtivörulínu Giorgio Armani.
Farrant er bóndadóttir og varð hugfangin af endurlífgunarplöntum aðeins níu ára gömul. „Ég skrifaði í dagbókina mína um plöntu sem dó og vaknaði aftur til lífsins þegar það rigndi,“ segir hún.
Áhugi hennar vaknaði á ný árið 1994 og síðan þá er hún orðin sérfræðingur á sínu sviði.
Umhverfisverndarsinnar óttast að hlýnun jarðar muni umbreyta sífleiri svæðum Afríku í eyðimörk. Þá muni vatnsskortur og fólksfjölgun mögulega leiða til versnandi hungurnsneyðar.
Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum gætu loftslagsbreytingar dregið úr maísuppskeru í Suður-Afríku um allt að 30%. Þrýstingur á ríki heims um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda til að halda hlýnun við 2 gráður eykst dag frá degi.
Vísindamenn segja hins vegar allt eins mikilvægt að aðlagast breyttum aðstæðum. Ræktun og allt sem henni viðkemur verði að vera hægt að aðlaga dramatískum veðrabreytingum.
„Landbúnaður ætti að vera þáttur í lausn okkar... loftslagsbreytingavandinn er svo umfangsmikill að allt verður að vera á borðinu,“ segir Rattan Lal, prófessor í jarðvegsfræðum við Ohio State University.
Ef Farrant tekst ætlunarverk sitt mun hún feta í fótspor þeirra vísindamanna sem hefur tekist að bjarga plöntum frá útrýmingu með því að nýta plöntur með sérstaka eiginleika. Á 8. áratug síðustu aldar var bandarískum maís til að mynda bjargað með því að efla plöntuna með erfðaefni úr öðrum maístegundum.
Farrant hefur nýlega snúið rannsóknum sínum að hvingresi, grastegund í Eþíópíu, en fræ plöntunar hafa verið uppistaða í fæðu heimamanna í margar aldir. Hún vonast til þess að gera plöntuna harðgerari með því að virkja erfðaefni sem hún uppgötvaði við rannsóknir sínar á endurlífgunarplöntum.
„Marmið mitt er ávallt að búa til nytjaplöntur sem hafa aukið þol gegn þurrk,“ segir hún. Að því gefnu að hún fái fjármagn til verkefnisins, sér hún fram á að vera komin með fullbúna vöru eftir 10-15 ár.
Sérfræðingar hafa varað við því að þurrk-þolnar plöntur séu ekki lausn við loftslagsbreytingum og ekki einu sinni á fæðuskorti.
„Fæðuöryggi er ekki aðeins háð loftslagi, það veltur á mörkuðum og viðskiptum, verði og aðgengi heimila að mat,“ segir Jim Verdin, sérfræðingur í þurrkum hjá bandarísku veðurstofunni.
Farrant telur starf sitt hins vegar skref í rétta átt; ef henni takist að beisla mátt endurlífgunarplantna muni það auka líkur á því að bændur komist af.
„Ef það rignir ekki þá skiptir það ekki máli, í það minnsta deyja plönturnar ekki,“ segir hún. „Og um leið og það rignir, þá eru þær tilbúnar.“