Bjartsýnn á árangur í París

Philippe O'Quin, sendiherra Frakklands á Ísland.
Philippe O'Quin, sendiherra Frakklands á Ísland. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég bind von­ir við að þessi ráðstefna muni skila mikl­um ár­angri fyr­ir heim­inn all­an,“ seg­ir Phil­ippe O'Quin, sendi­herra Frakk­lands á Íslandi, í sam­tali við Morg­un­blaðið um lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna - COP21- sem hefst í Par­ís í dag. Hún hef­ur verið kölluð mik­il­væg­asta alþjóðaráðstefna sög­unn­ar, enda brýnt orðið að ná tök­um á þeim vanda sem hlýn­un loft­hjúps­ins hef­ur í för með sér á jörðinni.

Bjart­sýni sendi­herr­ans bygg­ist á því að flest þátt­töku­ríki hafa fyr­ir­fram boðað margþætt­ar skuld­bind­ing­ar sem taka eiga við þegar Kyoto-bók­un­in renn­ur út árið 2020. Ýmsir hlut­ar henn­ar eru þó ófrá­gengn­ir. Er hug­mynd­in að halda hita­hækk­un und­ir 2°C, en að óbreyttu verður hita­stigið um það bil 5°C hærra en fyr­ir iðnbylt­ingu. Meðal þess sem gera þarf er að veita snauðari ríkj­um heims fjár­hags­leg­an stuðning til að auðvelda þeim að draga úr meng­un og laga sig að breyt­ing­um sem þegar eru að eiga sér stað í um­hverf­inu af völd­um hlýn­un­ar. Hef­ur verið talað um að veita sem svar­ar 100 millj­örðum doll­ara á ári vegna þessa frá 2020.

40 þúsund þátt­tak­end­ur

Ísland fylg­ir þeirri stefnu sem lönd Evr­ópu­sam­bands­ins hafa markað sem er 40% sam­drátt­ur í los­un gróður­húsaloft­teg­unda fyr­ir árið 2030 sam­an­borið við árið 1990.

Ráðstefn­una sækja um 40 þúsund manns frá öll­um ríkj­um heims, vís­inda­menn, emb­ætt­is­menn, áhuga­menn um um­hverf­is­mál, ráðherr­ar og þjóðarleiðtog­ar. Frá Íslandi koma meðal ann­ars Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son for­seti, Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son for­sæt­is­ráðherra, Gunn­ar Bragi Sveins­son ut­an­rík­is­ráðherra og Sigrún Magnús­dótt­ir um­hverf­is­ráðherra. Ráðstefn­unni lýk­ur 11. des­em­ber. Gríðarleg und­ir­bún­ings­vinna ligg­ur að baki ráðstefn­unni og þykja Frakk­ar hafa staðið sig mjög vel við að halda utan um alla þræði henn­ar.

Eft­ir hryðju­verk­in í Par­ís fyr­ir rúm­um hálf­um mánuði voru uppi radd­ir um að skyn­sam­leg­ast væri að fresta ráðstefn­unni. Frá því var fallið og seg­ir Phil­ippe O'Quin að þátt­tak­end­um hafi fjölgað og megi líta á það sem stuðning við Frakka og þá al­mennu sam­stöðu sem þar í landi hef­ur skap­ast um að láta hryðju­verka­menn ekki eyðileggja hið frjálsa og lýðræðis­lega þjóðfé­lag. „Við ætl­um ekki að láta hræða okk­ur frá því að lifa því lífi sem við kjós­um,“ seg­ir sendi­herr­ann.

Phil­ippe O'Quin hef­ur tekið virk­an þátt í að kynna ráðstefn­una hér á landi. Hann hitti stúd­enta í Há­skóla Íslands fyr­ir helgi og mætti á fund í Höfða á dög­un­um þar sem kynnt voru áform fjölda ís­lenskra fyr­ir­tækja um sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu þar sem þau skuld­binda sig til að setja sér mark­mið í lofts­lags­mál­um og fylgja þeim eft­ir með aðgerðum. Í ávarpi á fund­in­um hvatti sendi­herr­ann fyr­ir­tæk­in til að taka þátt því slík yf­ir­lýs­ing og frum­kvæði fyr­ir­tækja væri í takt við það sem verið er að gera víða um heim.

Ræt­ur flótta­manna­vand­ans

Aðspurður hvort hætta væri á að viðsjár í alþjóðamál­um að und­an­förnu mundu draga at­hygl­ina frá verk­efn­um lofts­lags­ráðstefn­unn­ar kvaðst sendi­herr­ann ekki telja að það myndi ger­ast. Hnatt­ræn­ar um­hverf­is­breyt­ing­ar magna mörg vanda­mál sam­tím­ans, svo sem hinn stór­aukna fjölda flótta­fólks. For­ystu­menn ríkja heims gerðu sér grein fyr­ir að ef ekki væri gripið til ráðstaf­ana myndu æ fleiri flýja heim­kynni sín og kom­ast á ver­gang. Við því yrði að sporna. 15

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: