„Mér finnst það alvarleg þróun“

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Styrmir Kári

„Við vitum öll að heilbrigðiskerfið er í molum. Það kemur ítrekað fram að það eigi að einkavæða heilbrigðisþjónustuna, sér í lagi heilsugæsluna. Mér finnst það alvarleg þróun. Það hefur ekki orðið almennileg umræða um það í samfélaginu og mér finnst líka alvarleg þróun í viðhorfum formanns fjárlaganefndar gagnvart yfirstjórn Landspítalans.“

Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag og vísaði þar til Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, og deilna á milli hennar og Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, um fjárframlög til spítalans. „Ég veit ekki, kæru samþingmenn, hvernig við getum breytt þessu nema með því að höfða til samvisku þeirra sem fara með svo mikilvægan málaflokk sem fjárlögin eru og eru í forustu fjárlaganefndar.“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, gerði heilbrigðismál einnig að umtalsefni sínu og sagðist hafa fengið mikið af bréfum frá fólki sem væri á löngum biðlistum, jafnvel sárþjáð, eftir hnjáliða-, mjaðmaliða- eða augnaðgerðum. Sagði hann það stiga í hjartað að lesa þessi bréf frá fólki „sem hefur jafnvel gengið hnjáliði sína eða mjaðmaliði upp til agna í þjónustu við hið opinbera en situr svo heima sárþjáð, jafnvel óvinnufært, og á að bíða í tvö til þrjú ár.“

Velti hann því fyrir sér hvort stefnan væri „að svelta hið opinbera heilbrigðiskerfi í hel og láta þessar aðgerðir fara fram á einkastofum, annaðhvort hér á landi eða erlendis.“ Sagði hann brýnt að setja umtalsverða peninga á fjárlögum í að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is