Í nefndaráliti fjárlaganefndar er lagt til að 75 milljónum króna verði varið í að hefja undirbúning og hönnun á 4.500 fermetra skrifstofubyggingu fyrir Alþingi samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar ásamt 750 fermetra bílakjallara.
Samkvæmt frumkostnaðaráætlun er reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði um 2,3 milljarðar króna.
Fjárlaganefnd afgreiddi fjárlagafrumvarp næsta árs með breytingartillögum og nefndaráliti meirihlutans í gær.
Byggingin á að koma í staðinn fyrir leiguhúsnæði undir skrifstofur en í dag hefur Alþingi á leigu um 4.400 fermetra húsnæði við Austurstræti fyrir nefndir þingsins, þingmenn, þingflokka og starfsmenn skrifstofunnar.
Við undirbúning framkvæmda á að hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918 samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins, og áformum um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands.
Viðbyggingin komst í umræðuna í vor þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu um efnið.
Frétt mbl.is: Reist verði viðbygging við Alþingi
Í samtali við Morgunblaðið sagði Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, ekki liggja beint við að byggja við Alþingi eftir gamalli teikningu.
Pétur sagði að það sem byggt væri í nútímanum ætti að endurspegla samtímann þrátt fyrir að fræðilegur möguleiki væri á þessu.
„Þetta er því allt saman hægt, en þetta er spurning um það að byggingin var teiknuð fyrir allt annað hlutverk, í allt öðru samfélagi og menningarlegu samhengi. Vilja menn að það sé vitnisburður um árið 2015 að byggt sé eftir hundrað ára gamalli tillögu? Ég er á þeirri skoðun að það liggi ekki beint við að nota svona gamla teikningu bókstaflega.“
Teikningin er í raun af stúdentagarði þar sem hún er frá þeim tíma þegar Háskóli Íslands var í Alþingishúsinu og menn voru að hugsa um að leysa húsnæðismál hans með varanlegum hætti með því að byggja við húsið.
Pétur hefur bent á að starfsemi Alþingis og umsvif voru talsvert minni á þeim tíma en nú.