16 milljarðar út, 17 milljarðar inn

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar og fulltrúar hennar í fjárlaganefnd á fundinum í …
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar og fulltrúar hennar í fjárlaganefnd á fundinum í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta eru ekki okkar fjárlög,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, með þunga við upphaf blaðamannafundar  í dag. „Ef við værum við stjórnvölinn hugsa ég að áherslurnar væru öðruvísi og forgangsröðin sömuleiðis."

Fundurinn var haldinn til að kynna sameiginlegar breytingartillögur stjórnarandstöðuflokkanna við fjárlög ársins 2016. Fulltrúar Pírata, Bjartrar Framtíðar, Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar settust við langborðið á efri hæð Iðnó og fóru yfir helstu breytingatillögur flokkanna sem flokkarnir segja settar fram til að sýna að slíkar áherslubreytingar séu vel framkvæmanlegar.

„Við erum ekki að boða hallarekstur,“ sagði Árni. „Allar þessar tillögur eru fjármagnaðar og við gætum verið að skila meiri afgangi ef verið væri að halda uppi skynsamri skattastefnu.“

Samtals leggur stjórnarandstaðan til að tekjur ríkissjóðs hækki um 17 milljarða en tillögur sem lúta að útgjöldum hljóða upp á 16 milljarða.

Ekki láglaunabætur heldur barnabætur

Í breytingartillögum sínum leggur stjórnarandstaðan mesta áherslu á stóru útgjaldaliðina: að mæta tillögum stjórnenda Landspítalans að einu og öllu leiti og til hækkunar elli- og örorkulífeyris almannatrygginga afturvirkt og með sama hætti og lægstu laun á samningstíma kjarasamninga, sem miða við 300 þúsund króna mánaðarlaun.

Fulltrúar flokkanna í Iðnó voru nýkomnir af þingfundi um fjáraukalög 2015 þar sem meirihluti þingmanna felldi tillögu minnihlutans um fjármögnun til greiðslu á elli- og örorkulífeyri til samræmis við kjarasamninga ársins.

Sagði Árni sömu aðstæður bíða lífeyrisþega á næsta ári og í ár: að vera jafnir launafólki fyrsti fjóra mánuði ársins og detta aftur úr eftir það, nema breytingar verði gerðar á fjárlögum.

Ræddi Árni einnig um breytingartillögur stjórnarandstöðunnar sem ætlaðar eru til að mæta barnafjölskyldum þar sem gert er ráð fyrir hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500 þúsund og hækkun barnabóta með hækkun á skerðingarviðmiðum. 

Sagði Árni að mörgum kunni að þykja þetta stórt skref en að það að ríkisstjórnin hafi ekkert aðhafst til að verðbæta þak fæðingarorlofs, það hefði verið óbreytt í krónutölum í þrjú ár þrátt fyrir að 500 þúsund krónur í dag jafngildi 350 þúsund krónum árið 2009. Hvað barnabætur varðar sagði hann gert ráð fyrir í breytingartillögum stjórnnarandstöðunnar að skerðingarmörkin væru færð upp að lágmarkslaunum, úr 200 þúsund í 270 þúsund enda þyrfti að vinda ofan af fyrri breytingum á kerfinu. „Þessari breytingu á barnabótum í láglaunabætur viljum við snúa við.“

Stjórnarandstaðan leggur mikla áherslu á hækkun elli- og örorkulífeyris í …
Stjórnarandstaðan leggur mikla áherslu á hækkun elli- og örorkulífeyris í tillögum sínum. mbl.is/Styrmir Kári

Félagslegar hamfarir

„Yfirbragðið endurspeglar að það er hægt að gera hlutina öðruvísi,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri Grænna, um breytingartillögurnar sem hún sagði í heild sinni snúast um að jafna kjör almennings og hlúa að innviðum samfélagsins. 

Svandís ræddi sérstaklega um aukið framlag til styrkingar íslenskrar tungu sem og fjárfestingar í græna hagkerfinu og Loftslagssjóði. Kvað hún ríkisstjórnina reglulega hafa tekið framlag úr sjóðnum og sett í ríkissjóð í stað þess að styðja við þetta mikilvæga málefni líkt og aðrar þjóðir heims legðu nú auna áherslu á.

Þá ræddi Svandís einnig sérstaklega um kynbundið ofbeldi en hún sagði ljóst af umræðu og atburðum síðustu mánaða að hann þyrfti aukna innspýtingu. „Við þurfum að bregðast við eins og um raunverulegar hamfarir sé að ræða því þetta eru sannarlega félagslegar hamfarir.“

Fyrir alla ekki suma

Þegar röðin kom að Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, að tjá sig um efni breytingartillagnanna byrjaði hann á að ræða um áherslu þeirra á stuðning við heilbrigðiskerfið og sagði nánast ríkja einhug um málefnið hjá þjóðinni. Tiltók hann einnig mikilvægi aukins stuðnings við flóttamenn og innflytjendur og sagði síðarnefnda hópinn hafa orðið svolítið útundan, bæði í fjárlögum og í umræðunni en að veita þyrfti honum stuðning til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi.

„Fjárlög eru grundvallarskjal um opinber fjármál, opinber fjármál eiga að vera fyrir alla ekki bara fyrir suma,“ sagði Óttarr og staðhæfði að í breytingartillögum stjórnarandstæðunnar fælist leiðrétting fyrir alla.

Helgi Hrafn Gunnarsson, varaformaður þingflokks Pírata, tók í svipaðan streng og Óttarr og benti á að ákveðin mál og málaflokkar virðist alltaf sitja á hakanum. Þar megi t.a.m. nefna fangelsismálin sem sé málaflokkur sem fæstir vilji hugsa um. Sagði hann nauðsynlegt að leggja til aukin framlög til að koma til móts við algjörar lágmarkskröfur, málaflokkurinn þurfi meiri athygli í framtíðinni en tillögur stjórnarandstæðunnar til úrbóta séu raunhæfar um sinn. Ræddi hann einnig um aukin framlög til frumkvæðisrannsókna Umboðsmanns Alþingis og sagði mikilvægt að umboðs þessa helsta eftirlits með þinginu sé mjög sterkt.

Fundurinn fór fram í Iðnó.
Fundurinn fór fram í Iðnó.

Orkuskattur og skattaeftirlit

Í tilkynningu stjórnarandstöðunnar um tillögurnar kemur fram að tillögur þeirra til aukinna framlaga séu fjármagnaðar með tillögum um auknar tekjur í gegnum hærri veiðigjöld, arð af bönkum, orkuskatti á stóriðju og bættu skatteftirliti.

„Þar fyrir utan má minna á að á yfirstandandi kjörtímabili hefur stjórnarmeirihlutinn tekið fjölmargar ákvarðanir um lækkun tekna sem nemur tugum milljarða. Þar má nefna lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts, lækkun á tekjuskatti betur stæðra, afnám sykurskatts, auk þess að heykjast á alvöru gjaldtöku af ferðamönnum. Breytingar á þessum ákvörðunum í heild eða hluta myndu geta skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum,“ segir í tilkynningunni.

Eins og áður segir leggur stjórnarandstaðan til að tekjur ríkissjóðs hækki um 17 milljarða en tillögur sem lúta að útgjöldum hljóða upp á 16 milljarða.

mbl.is