Sanngjarnari nýting ríkissjóðs

Stjórnarandstaðan kynnti tillögur sínar í dag.
Stjórnarandstaðan kynnti tillögur sínar í dag. mbl.is/Ómar

Stjórnarandstaðan kynnti í dag sameiginlegar breytingatillögur sínar við fjárlög ársins 2016.

Í tilkynningu stjórnarandstöðuflokkanna, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata, segir að tillögurnar sýni að mögulegt sé að leggja aðrar áherslur við stjórn landsins og ný‎ta bætta afkomu ríkissjóðs á sanngjarnari hátt.

„Áhersla er á bætt kjör almennings og þeirra sem lægstar tekjur hafa, á heilbrigðisþjónustu, menningu og menntamál og á fjárfestingar í umhverfi og innviðum samfélagsins um allt land. Þannig verði unnið gegn ójöfnuði á Íslandi og tryggt að aukin hagsæld skiptist á réttlátan hátt,“ segir í tilkynningunni. 

Afturvirk hækkun elli- og örorkulífeyris

Í tillögum stjórnarandstöðuflokkanna rennur stærstur hluti fjármuna til hækkunar elli- og örorkulífeyris almannatrygginga afturvirkt og með sama hætti og lægstu laun á samningstíma kjarasamninga, sem miða við 300 þúsund króna mánaðarlaun, og til nauðsynlegrar starfsemi Landspítalans. Þá er gert ráð fyrir hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500 þúsund  og hækkun barnabóta með hækkun á skerðingarviðmiðum.

Eins er gert ráð fyrir hækkun til háskóla og fjármunum til að aflétta fjöldatakmörkunum í framhaldsskóla og styrkja rekstur þeirra auk ‏ þess sem gert er ráð fyrir framlögum til verndar íslenskri tungu.  

„Áhersla er lögð á fjárfestingar í innviðum og sóknaráætlun landshluta. Sérstök áhersla er lögð á viðhald og nýframkvæmdir í vegagerð, enda þörfin afar brýn. Til að mæta skuldbindingum Íslands vegna loftslagsvandans er gert ráð fyrir auknum fjármunum til fjárfestinga í græna hagkerfinu og til Loftslagssjóðs. Að auki eru gerðar tillögur um ýmis brýn réttlætismál: Aukin framlög til móttöku flóttamanna, til aukins stuðnings við innflytjendur, til fangelsismála, til baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, til geðheilbrigðismála og til frumkvæðisathugana Umboðsmanns Alþingis.“

Orkuskattur og hærri veiðigjöld

Í tilkynningu stjórnarandstöðunnar segir að tillögurnar verði allar fjármagnaðar með auknum tekjum, hærri veiðigjöldum, arði af bönkum, orkuskatti á stóriðju og bættu skatteftirliti.

Þar fyrir utan megi minna á að á yfirstandandi kjörtímabili hafi stjórnarmeirihlutinn tekið fjölmargar ákvarðanir um lækkun tekna sem nemi tugum milljarða.

„Þar má nefna lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts, lækkun á tekjuskatti betur stæðra, afnám sykurskatts, auk þess að heykjast á alvöru gjaldtöku af ferðamönnum. Breytingar á þessum ákvörðunum í heild eða hluta myndu geta skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina