„Stundum þeirra val að velja sig“

Frá málþinginu sem haldið var í HR í síðustu viku.
Frá málþinginu sem haldið var í HR í síðustu viku. mbl.is/Golli

Mikilvægt er að gleyma ekki hversu flókin ákvörðun það getur verið að kæra kynferðisbrot. Samfélagið verður að gæta þess að fara ekki sömu leið og gerandinn, að taka stjórnina af brotaþola. Stundum er það einfaldlega val brotaþola að velja sig sjálfan umfram allt annað.

Þetta sagði Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítala og dósent við læknadeild Háskóla Íslands í erindi sínu Á ég að kæra? Áskoranir þolenda kynferðisbrota við ákvörðun um kæru á sameiginlegu málþingi lagadeilda Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst sem haldið var í HR síðastliðinn fimmtudag.

Frétt mbl.is: „Liggur hún ekki bara undir öllum?“

„Þegar þolandi leitar til okkar á Neyðarmóttökuna í kjölfar kynferðisofbeldis, sem oftast er nauðgun, þarf hann að takast á við áskoranir og ákvarðanir sem í draumaveröld enginn ætti að þurfa að takast á við. Í flestum tilfellum tekur við eitthvað sem fólk hefur aldrei þurft að ímynda sér, eða á erfitt með að ímynda sér,“ segir Berglind.

Meðal annars þarf að taka ákvörðun um hvort viðkomandi vilji þiggja læknisskoðun, réttarlæknisfræðilega skoðun sem ætlað er að afla sönnunargagna ef kært verður, hvort þiggja eigi samtal við réttargæslumann og viðtal við sálfræðing.

„Það eru ótal spurningar spurðar sem þolandi þarf að svara og allt er þetta gert með hagsmuni einstaklingsins í huga, bæði til þess að tryggja heilsufarlega þætti hjá einstaklingnum og líka til þess að leggja grunninn að því að hann hafi val þegar fram líða stundir,“ bætti Berglind við.

Eitthvað sem átti ekki að geta gerst

Berglind sagði að eðli kynferðisbeldis sé að það er óvæntur atburður. Í þeim málum sem koma til Neyðarmóttökunnar hefur lífið tekið óvænta stefnu, hversdagslegar aðstæður orðið að ofbeldi eða misnotkun.

„Það er að segja þegar einstaklingur er bara að skemmta sér niðri í bæ eða heima, drekka, djamma – mjög eðlilegar aðstæður. Eða bara að hafa kósýkvöld hjá einhverjum vini. Þegar aðstæður snúast upp í eitthvað hræðilegt. Eitthvað sem átti ekki að geta gerst,“ sagði Berglind.

Atburðurinn feli í eðli sínu oft í sér misnotkun á valdi eða andlega kúgun í einhverju formi og gerir gerandinn lítið úr þolandanum með hegðun sinni. Þolandinn upplifi gjarnan niðurlægingu, ótta, óöryggi og vanmátt og leiðir þetta allt til þess að þolandinn efist um sína eigin dómgreind. „Ég valdi að fara inn í þessar aðstæður og hver er þá ábyrgð mín,“ nefndi Berglind sem dæmi um viðbrögð þolanda.

„Þetta veldur gjarnan skömm, sektarkennd og svo framvegis. Allt þetta gerir það í eðli sínu, bara atburðurinn sem slíkur, að verkum að það er mjög auðvelt fyrir þolandann að breiða yfir haus og gera ekkert í málinu. Það eitt að leita á Neyðarmótttökuna og óska eftir aðstoð, jafnvel þó maður skilji ekki aðstæðurnar, er í raun og veru stórkostlegt finnst mér og gríðarlegt hugrekki. Við segjum oft að við vinnum á hverjum degi með ofurhetjum í þessu samhengi, allt þetta er fyrir marga óyfirstíganlegt og eðlilega svo,“ bætti Berglind við.  

Sjálfsásakanir og sektarkennd eru oft mjög ofarlega hjá brotaþolum.
Sjálfsásakanir og sektarkennd eru oft mjög ofarlega hjá brotaþolum. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

„Hún leit bara eðlilega út“

Að sögn Berglindar skipta fyrstu viðbrögð einstaklinga við alvarlegum áföllum gríðarlega miklu máli og sagði að þar væru kynferðisbrot og nauðganir fremst í flokki sem dæmi um áföll sem valda alvarlegum afleiðingum.

„Þegar við lendum í áföllum er það þannig að við bregðumst við, allt kerfið okkar fer í gang. Við búum yfir sterkum „fight-or-flight“ viðbrögðum sem eru viðbrögð okkar sem ætluð eru að bjarga okkur í hættulegum aðstæðum. Þetta eru líkamleg viðbrögð, tilfinningaleg viðbrögð, sem hafa áhrif á hegðun okkar og hugsun og eru ekki endilega sýnileg,“ sagði Berglind.

Sagði hún að þetta virtist flækjast fyrir fólki. „Já, en hún öskraði ekki, hann gerði ekki þetta og svo framvegis. Eða, hún leit nú bara eðlilega út, ekkert virtist vera að. Oft erum við að mynda okkur skoðun út frá hegðun þolanda,“ sagði Berglind.

„Ef þið hugsið um ykkur sjálf,“ hélt Berglind áfram. „Einhverra hluta vegna þið eruð í gríðarlegu uppnámi og þurfið að ganga inn í opinberar aðstæður, hvað gerum við sem manneskjur. Við reynum að púsla okkur saman, við reynum að koma fyrir á eðlilegan hátt af því að það er eðlilegur hluti af mannlegri hegðun.“

„Eitt af því sem þolandi þarf að takast á við er að „fúnkera“ í aðstæðum sem hann skilur ekki og þarf að vera að vinna á sama tíma úr einhverju rosalega flóknu og þarf síðan að takast á við venjulegar aðstæður eins og að sækja barnið sitt á leikskóla eða mæta í próf í refsirétti næsta dag eða eitthvað álika,“ bætti Berglind við.

Reynir að finna leið til að takast á við aðstæður

Viðbrögð þolenda geta verið fjölþætt, allt frá sterkum tilfinningur til tilfinningadofa. „Þetta getur verið einbeitingarvandi, endurupplifun á því sem gerðist, geðlægðareinkenni, þunglyndi, kvíði, löngun til að deyja, sjálfssköðun, líkamleg einkenni,“ taldi Berglind upp og bætti við að engin ein hegðun sé rétt í kjölfar áfalls.

„Einstaklingurinn reynir að finna leið til þess að takast á við aðstæðurnar með öllum þeim bjargráðum sem hann býr yfir. Eða finna ný bjargráð vegna þess að hann veit ekki hvernig hann á að takast á við hann,“ sagði hún.

Þá hefur starfsfólk Neyðarmóttökunnar einnig séð að áföll valda gjarnan breytingu í hugsun þolenda. „Þetta er núna hluti af greiningarviðmiðum um áfallastreitu, einmitt vegna þess að það gerist gjarnan. Það gerðist eitthvað sem átti ekki að geta gerst. Þolandinn getur átt mjög erfitt með að skilja og horfðast í augu á það sem gerðist. Atburðurinn er ekki aðeins streituvaldandi heldur ógnar hann einnig tilverunni á einhvern hátt,“ benti Berglind á.

Með þessu er grundvallarhugmyndunum um einstaklinginn gagnvart sjálfum sér, öðru fólki og umheiminum er ógnað. „Þetta er það sem við köllum hugmynd um réttlátan heim. Í stuttu máli er verið að tala um að í gegnum tilveruna, allt frá fæðingu, byrjum við að móta og læra að túlka umheiminn. Við lærum að stóll er stóll, hvað þýðir að gera hinar ýmsu daglegu athafnir. Við erum með öll þessi almennu viðhorf í huganum, almennt drögum við þessar hugmyndir ekki í efa nema eitthvað ógni þessum viðhorfum verulega,“ sagði Berglind.

Sagði hún kynferðisofbeldi gjarnan ógna grundvallarviðhorfum. „Okkur gengur mjög illa að samræma það sem við héldum að væri, eins og til dæmis að einhver ungur, flottur íþróttastrákur sem gengur vel í skóla er er almennt til fyrirmyndar er síðan ákærður fyrir nauðgun. Þetta eru viðhorf sem passa ekki saman og þá gerist ýmislegt,“ sagði Berglind.

„Hann hlýtur að hafa misskilið mig“

Hjá þolendum vakna oft ýmsar spurningar sem tengjast til dæmis erfiðleikum við það að horfast í augu við það sem gerðist.  „Ég skil ekki hvernig þetta gat gerst, við vorum vinir, hann hlýtur að hafa misskilið mig. Það hlýtur að hafa verið eitthvað í gangi sem gerði það að verkum að hann misskildi mig,“ sagði Berglind.

Þá eru sjálfsásakanir og sektarkennd oft mjög ofarlega hjá brotaþolum. „Ég var full, ég hefði ekki átt að drekka svona mikið. Ég hefði ekki átt að fara inn í herbergi og hvíla mig og sofa. Ég fann að mig var farið að svima. Ég lokaði hurðinni og svo vaknar hún upp við nauðgun, eiga við hana samfarir. En ég fór með honum heim, hann var svakalega næs,“ taldi Berglind upp.  

„Það eru endalausar spurningar á þessa vegu sem þolandinn er að reyna að átta sig á skömmu eftir atburðinn. Þörfin fyrir að skilja eitthvað sem við náum ekki utan um er mikil. Eðli áfalla er slíkt að það er eitthvað sem gerist sem er stærra en við náum að melta á því augnabliki sem atburðurinn er að gerast. Við þurfum tíma til að ná að melta,“ sagði Berglind og nefndi dæmi um hugtak sem kallast samlögunarvandi.  

„Það er þetta, þegar þolandi fer að draga í efa eigin túlkun á því sem gerðist til þess að varðveita þessa fyrri trú og skoðun um hvernig hlutirnir eiga að vera og eru almennt. Tökum dæmi: Upprunalega trú einstaklings er nauðgun og gerandinn ókunnugur. Svo gerist það að stúlkunni er nauðgað af vini. Þetta passar ekki, þetta hlýtur að vera misskilngur. Stúlkan fer að breyta túlkun sinni og breytingin sem á sér stað er ekki í samræmi við minningarnar og tilfinningalega upplifun sem er í gangi. Við þetta skapast afneitun á minningum og tilfinningunni og afneitun og sjálfsásökun er afleiðingin,“ útskýrði Berglind.

Þolandinn upplifir gjarnan niðurlægingu, ótta, óöryggi og vanmátt og leiðir …
Þolandinn upplifir gjarnan niðurlægingu, ótta, óöryggi og vanmátt og leiðir þetta allt til þess að þolandinn efast um sína eigin dómgreind mbl.is/Kristinn

 „Hin tegundin er þegar grunnstoðum er ógnað, öryggiskenndin okkar, trú okkar og traust á aðra og okkur sjálf, völd og stjórn, hvernig við skynjum það. Allt þetta getur raskast þegar við lendum í kynferðisofbeldi eða einstaklingur verður fyrir slíku. Og það gjarnan verður til þess að í raun og veru fer tilvera okkar á hvolf,“ sagði Berglind og bætti við að ýmsar spurningar geti vaknað hjá brotaþolanum.

„Get ég varið mig? Treysti ég eigin skynjun og dómgreind? Get ég treyst öðrum almennt? Get ég leyst vandamál? Hvað ef þetta er allt mér að kenna? Hef ég stjórn í samskiptum við aðra? Hvers virði er ég eiginlega ef einhver kemur svona fram við mig? Hvað finnst öðrum,“ taldi Berglind upp.

Tryggja að brotaþoli sé spurður erfiðu spurninganna

Sumir þeirra sem leita til Neyðarmóttökunnar eru ákveðnir í því að kæra ekki hinn meinta verknað. Aðrir eru staðráðnir í því að leggja fram kæru en að sögn Berglindar hafa flestir ekki tekið ákvörðun. Þeim sem leita til Neyðarmóttöku er ekki skylt að kæra. Að meðaltali eru 45 – 47 mál sem koma í gegnum móttökuna kærð á hverju ári en þar af er þriðjungur brotaþola á aldrinum 12 – 17 ára og tekur unglingurinn þá ákvörðun í samráðu við barnavernd eða forráðamann.  

„Skjólstæðurinn getur valið einn hluta af þjónustunni, getur valið allt og hafnað öllu. Áherslan er ávallt lögð á að virða val einstaklingsins og hans ákvörðunarrétt,“ sagði Berglind. Bætti hún við að óteljandi þættir geti haft áhrif á ákvörðun um kæru og hugmyndir um gerandann.

Þetta eru til dæmis tengsl við gerandann, ótti við hann og hugsanlegar hótanir. Einnig getur verið um að ræra áhyggjur eða umhyggja fyrir geranda eða fjölskyldu. Þá nefndi hún einnig félagsleg áhrif en ótti getur verið til staðar hjá brotaþola sem felst í því að samfélagið hreinlega hafni honum eða hann verði útskúfaður.

Þá finnur brotaþoli stundum fyrir þrýstingi sem felst í að hann verði að kæra. „Við sjáum gjarnan þessa samfélagslegu ábyrgð. Ég verð að kæra til þess að vernda aðra. Hvað er þetta kemur fyrir einhvern annan? Allt þetta er að hafa áhrif þegar þolandinn er að taka ákvörðun. Kæruferlið vex líka í augum. Hvað tekur við ef ég ákveð að kæra? Þarf að fara fyrir dóm? Dómurinn birtur á netinu, hvað þýðir það,“ sagði Berglind um hugsanir brotaþola.

Sagði hún viðbrögð heilbrigðisstarfsmanna skipta miklu máli í þessu samhengi. „Við leggjum mikla áherslu á að mæta þolanda af nærgætni og skilningi. Leggja ávallt trúnað í frásögnina en ítreka á sama tíma að segja satt og rétt frá. Veita sálfrænan stuðning og veita upplýsingar um áframhaldandi þjónustu. Þolandinn þarf ekki að takast á við þetta einn,“ sagði Berglind.

Sagði hún hlutleysi starfsmanna vera mjög mikilvægt. „Við erum til staðar til að veita upplýsingar og ræða við skjólstæðinginn. Tryggja að skjólstæðingurinn sé spurður þeirra erfiðu spurninga sem þarf að spyrja til þess að hann geti áttað sig á aðstæðum.

Á þessum fyrstu metrum sem þolandinn er að leita til okkar gerist allt svolítið hratt. Okkar hlutverk er að aðstoða einstaklinginn við að skoða hlutina frá öllum hliðum málsins til þess að hjálpa honum á sem bestan hátt. Allt þetta hefur þetta þann tilgang að skjólstæðingurinn geti tekið upplýsta ákvörðun sem hann er sáttur við til framtíðar. Þannig að þið sjáið að þetta er ekki einfalt mál,“ sagði Berglind. 

Gleymum ekki hversu flókin ákvörðunin er

„Ég held að það sé mikilvægt að við gleymum ekki hversu flókin þessi einfalda ákvörðun er, kæra eða ekki kæra. Það er svo margt sem kemur inn í þessa ákvörðun. Tilfininningaleg upplifun, hugsanir, reynslan og allt þetta spilar inn í. Að virða val einstaklingsins skiptir miklu máli. Það sem mér finnst mikilvægt og má ekki gleymast í þessari umræðu er að eðli brotsins er það að skjólstæðingurinn er sviptur völdum og stjórn á meðan atburðurinn á sér stað,“ sagði Berglind.

„Við sem samfélag verðum að passa að fara ekki sömu leið, að ætla að taka stjórn og ýta og þrysta á brotaþola að kæra getur verið sama. Við höfum unnið þolendum sem upplifa þetta þannig. Við verðum að vera styðjandi, sama hvort þolandi kærir eða ekki.

Það er ósanngjarnt að ætlast til þess að allir þolendur, sem völdu ekki að vera beittir kynferðisofbeldi, séu flaggberar réttlætis í því. Í draumaveröld væri þetta bara svart á hvítu, ekkert mál og þyrfti ekki þetta ákvörðunarferli. Þetta eru gríðarlegar hetjur sem koma til okkar og við erum að vinna með og stundum er það þeirra val að velja sig um fram allt annað,“ sagði Berglind einnig.

Frétt mbl.is: Jafnt hlutfall í dómunum fjórum

Frétt mbl.is: „Liggur hún ekki bara undir öllum?“

mbl.is