VW sýnir auðmýkt og selur þotuna

Matthias Mueller, forstjóri VW, á blaðamannafundinum í dag.
Matthias Mueller, forstjóri VW, á blaðamannafundinum í dag. AFP

Einkaþota Volkswagen verður seld og áhersla verður lögð á auðmýkt. Rannsókn á svindlbúnaðarhneykslinu stendur nú yfir og voru fyrstu niðurstöður kynntar á blaðamannafundi í dag. 

Þar kom fram að búnaðinum hefði verið komið fyrir í bílum til þess að svindla á prófunum þar sem aðrar lausnir voru ekki tækar innan þess tíma- og fjárhagsramma sem starfsmönnum var gefinn. „Við erum ekki að tala um einstaka mistök heldur keðju þeirra,“ sagði Hans Dieter Pötsch, stjórnarmaður VW á fundinum í dag.

Á fundinum kom fram að hjá VW hefði ríkt andrúmsloft þar sem brot voru umborin.

Matthias Mueller og Hans-Dieter Poetsch í dag.
Matthias Mueller og Hans-Dieter Poetsch í dag. AFP

Pötsch sagðist þó ekki vita hver hinn ábyrgi væri né heldur hversu langt hneykslið teygði sig upp innan fyrirtækisins. Hann sagði þó að tiltölulega fáir starfsmenn hefðu verið viðriðnir málið. Þá gæfi ekkert til kynna að stjórn fyrirtækisins hefði vitað að þessu.

Jones Day, bandaríska lögmannsstofan sem sér um rannsóknina, mun líklega ljúka vinnunni á næsta ári.

Áhersla verður lögð á auðmýkt hjá VW.
Áhersla verður lögð á auðmýkt hjá VW. AFP

Pötsch sagði að koma þyrfti í veg fyrir að eitthvað álíka endurtaki sig. Utanaðkomandi aðili mun í framtíðinni sjá um prófanir hjá fyrirtækinu og breytingar hafa verið gerðar á stjórninni. Sex nýir stjórnarmenn hafa gengið til liðs við VW og sjö nýir framkvæmdastjórar. 

Ekki stendur til að selja einstaka hluta samstæðunnar til þess að mæta kostnaði vegna málsins. Pötsch sagði þó að áhersla yrði lögð á auðmýkt á bílasýningum og annars staðar og verður Airbus einkaþota félagsins seld.

Frétt Financial Times

Sala á VW bílum hefur dregist saman.
Sala á VW bílum hefur dregist saman. AFP
mbl.is