Lögreglumaður nauðgaði 8 konum

Ofbeldi lögreglunnar í Bandaríkjunum gagnvart svörtum hefur verið í kastljósinu …
Ofbeldi lögreglunnar í Bandaríkjunum gagnvart svörtum hefur verið í kastljósinu undanfarin misseri enda sífellt fleiri slík mál að koma upp. AFP

Lögreglumaður í Oklahomaborg var í gær dæmdur fyrir að hafa nauðgað og beitt svartar fátækar konur í borginni kynferðislegu ofbeldi. Farið er fram á að hann verði dæmdur í 263 ára fangelsi fyrir glæpi sína en refsingin verður birt í janúar.

Daniel Holtzclaw, 29 ára hvítur lögreglumaður, stöðvaði konurnar í nafni laganna, leitaði á þeim og níddist á þeim kynferðislega. Holtzclaw var dæmdur fyrir að hafa beitt átta konur ofbeldi, þar á meðal konu á sextugsaldri og 17 ára gamla stúlku.

„Réttlætinu var fullnægt hér í dag og glæpamaður í einkennisbúningi er á leið í fangelsi,“ sagði saksóknari í Oklahoma, David Prater, eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Kona á sextugsaldri er ein þeirra kvenna sem báru vitni í málinu. Hún segir að þegar hún var á heimleið akandi seint um kvöld hafi Holtzclaw gefið henni merki um að nema staðar. Hann spurði hvort hún hefði verið að drekka áfengi og skipaði henni að koma yfir í lögreglubílinn. Þar neyddi hann hana til munnmaka. 

Annað fórnarlamb hans, 17 ára gömul stúlka, segir að Holtzclaw hafi boðið henni far þegar hún var á heimleið gangandi að kvöldlagi. Hann hafi sagt henni að hann þyrfti að leita á henni, neytt hana úr fötunum og nauðgað henni.

Lögfræðingur Holtzclaws hélt því fram við réttarhöldin að skjólstæðingur hans hefði verið að reyna að aðstoða eiturlyfjafíkla og vændiskonur sem hann hitti í starfi sínu í fátækrahverfinu. Margar kvennanna eru á sakaskrá fyrir neyslu fíkniefna.

BBC

mbl.is