Dómstóll í Kolkata á Indlandi hefur dæmt þrjá karlmenn í tíu ára fangelsi fyrir að nauðga konu árið 2012. Konan kom að eigin ósk fram undir nafni í kjölfar málsins. Hún lést úr heilahimnubólgu fyrr á þessu ári.
Suzette Jordan fékk mikið lof fyrir að koma fram undir nafni í þeim tilgangi að eyða þeirri þögn sem umlykur kynferðisofbeldi í landinu. Yfirvöld í borginni höfðu haldið því fram að hún hefði logið til um árásina.
Hópur manna hafði boðist til að keyra Jordan heim er hún hafði yfirgefið næturklúbb í borginni. Þeir enduðu á því að þröngva henni inn í bílinn og skiptust svo á að nauðga henni. Þegar þeir höfðu lokið sér af hentu þeir henni út á götu.
Mamata Banerjee, ríkisstjóri í West-Bengal, hélt því í fyrstu fram að kæra Jordan um árásina væri hluti af samsæri gegn henni og stjórn hennar. Í kjölfarið upphófust mikil mótmæli.
Jordan var tveggja barna móðir og 37 ára er árásin átti sér stað. Hún tók þá fágætu ákvörðun að stíga fram og segja sögu sína í viðtölum. Hún sagðist ekki sjá neina ástæðu til að fela sig þar sem hún hefði ekki gert neitt rangt.
Þessi ákvörðun hennar varð til þess að lögreglan hóf að rannsaka málið og að endingu voru þrír menn handteknir. Tveir nauðgaranna ganga enn lausir.