Dæmdur fyrir heimilisofbeldi

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Rúmlega fimmtugur maður var í Héraðsdómi Reykjaness í gær dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir heimilisofbeldi. Honum var jafnframt gert að greiða fórnarlambi sínu hálfa milljón króna í miskabætur og sakarkostnað upp á tæplega 1,1 milljón króna.

Dómarar töldu hafið yfir allan vafa að maðurinn hafi gerst sekur um líkamlegt ofbeldi gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni en hann var ákærður fyrir að hafa í lok júní 2014 ráðist á hana á heimili þeirra í Garðabæ. Slegið hana með koddum og þrýst kodda harkalega í andlit hennar og ýtt höfði hennar til og frá. Að hafa þvingað aðra hendi hennar aftur fyrir bak og snúið upp á hana og síðan tekið í höfuð hennar og þrýst andliti hennar ofan í rúmdýnuna, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut, nefbrot, mar á vinstri upphandlegg, mar við handarkrika vinstra megin, mar á vinstri framhandlegg, mar á vinstri úlnlið, mar á vinstra handarbaki, mar á hægri framhandlegg, mar á hægra handarbaki, mar á hægri kinn og eymsli yfir kinnbeini, mar yfir nefbeini, eymsli yfir hársverði við hnakka og eymsli yfir báðum öxlum.

Maðurinn neitaði sök í málinu og sagði að engin átök hafi átt sér stað á meðan á sambandi þeirra stóð. Þennan dag hafi hann komið heim síðla dags. Lítið hafi verið sagt þann dag eins og oft áður, enda sé geðslag brotaþola mjög breytilegt, að sögn mannsins. Að öðru leyti hafi þetta verið venjulegur dagur. Þau hafi farið að sofa í sama rúmi án mikilla samskipta. Morguninn eftir hafi þau drukkið kaffi saman og hann farið til vinnu. Þegar hann hafi komið heim um kvöldmatarleytið hafi verið búið að skipta um lás á útidyrahurð og setja muni hans í svartan ruslapoka. Hann hafi ekki átt von á þessu og ekki náð tali af konunni fyrr en 2-3 vikum síðar þegar þau hafi hist á bílaplani fjölbýlishússins sem þau búi bæði í.

Hafi konan þá viljað sofa hjá honum. Hafi þetta gerst í tvígang. Einnig hafi konan komið heim til hans um verslunarmannahelgina þetta sumar, hringt á dyrasímanum, en hann ekki viljað svara henni. Einnig hafi þau hist um síðustu páska í bílageymslu fjölbýlishússins þar sem brotaþoli hafi tekið utan um hann og kysst.

Á þetta féllst dómurinn hins vegar ekki og dæmdi hann í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið en þetta  er í fyrsta skipti sem manninum er gerð refsing.

mbl.is