Dómari í máli gegn bandarískum lögreglumanni sem var ákærður í tengslum við dauða manns í haldi lögreglu hefur ómerkt réttarhöldin þar sem kviðdómur gat ekki komist að niðurstöðu. William Porter var fyrstur sex lögreglumanna til að svara til saka fyrir dauða Freddie Gray, sem lést eftir að hafa hryggbrotnað við flutning í lögreglubifreið í Baltimore í apríl sl.
Dauði Gray leiddi til fjöldamótmæla og óeirða í borginni og var eitt í röð mála sem vörpuðu ljósi á kynþáttamismunun og harkalegar aðferðir lögreglu í Bandaríkjunum.
Barry Williams, dómarinn í málinu yfir Porter, ómerkti réttarhöldin eftir að kviðdómendum, fimm mönnum og sjö konum, tókst ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu eftir tveggja daga umþóttunartíma.
Porter, sem er svartur, var m.a. ákærður fyrir manndráp af gáleysi og fyrir að hafa ráðist á Gray, sem var handtekinn eftir að hafa lagt á flótta þegar hann sá til lögreglu. Gray var handtekinn og kærður fyrir að hafa hníf í fórum sínum. Honum var komið fyrir aftan í lögreglubifreiðinni, bundinn á höndum og fótum, en þegar lögregla kom að honum var hann meðvitundarlaus og hryggbrotinn.
Gray lést 19. apríl sl.
Ákæruvaldið í Baltimore ákærði sex lögreglumenn vegna dauða Gray, þrjá svarta og þrjá hvíta, en allir hafa lýst yfir sakleysi. Lögmenn lögreglumannanna segja mögulegt að Gray hafi hryggbrotnað þegar ökumaður lögreglubifreiðarinnar hemlaði snögglega. Þá hafa þeir látið að því liggja að hann hafi sjálfur valdið áverkum sínum.