„Það er mjög mikið að gera hjá okkur og við önnum engan veginn eftirspurn,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, þegar blaðamaður spyr um aðsókn í þjónustu samtakanna á árinu sem er að líða.
2015 hefur verið mikið umbrotaár í umræðu um kynferðisbrot ekki síst sökum #þöggun: samfélagsmiðlabyltingar kenndrar við Beauty tips-hópinn, og mikillar almennrar reiði í garð dómskerfisins. Í fortíðinni hefur aukin umræða um málefni þolenda kynferðisofbeldis oft skilað sér í fleiri tilkynningum til Stígamóta, þar sem fólk finnur hugrekki til að stíga fram. Má sem dæmi nefna að árið 2013 var „sprengjuár“ hjá Stígamótum þar sem fjöldi nýrra mála var 358 og hafði ekki verið meiri í 11 ár. „Sprengjuna“ rekur Guðrún til mikillar fjölmiðlaumfjöllunar um kynferðisabrotamanninn Karl Vigni Þorsteinsson, sem dæmdur var í sjö ára fangelsi árið 2013 fyrir brot gegn þremur mönnum.
Guðrún segist enn ekki geta fullyrt um fjölda mála árið 2015 þó svo að hana renni í grun að þeim fjölgi mikið á milli ára.
„Þegar við tókum tölurnar saman í september stefndi í metár en við vitum það ekki fyrir víst fyrr en í febrúar. Ég á hins vegarvon á því að eftir alla umræðuna fækki kærum, þó að aðsóknin hingað aukist,“ segir Guðrún.
„Það hafa verið svo neikvæðar fréttir af réttarkerfinu og ekki síst því að konur sem kæra nauðganir eigi það raunverulega á hættu að vera kærðar til baka fyrir rangar ásakanir og jafnvel nauðgun. Við höfum séð nokkur svoleiðis dæmi og það er ekki til þess fallið að auðvelda fólki sem átti fyrir erfitt með að hugsa sér að kæra.“
Þrátt fyrir umdeilda sýknudóma í nauðgunarmálum og enn umdeildari aðfarir ákveðinna verjenda einkenndist umræðan á samfélagsmiðlum framan af ári mun fremur af jákvæðni og stuðningi í garð þolenda. Guðrún fullyrðir ekki að slík samstaða geti vegið upp á móti vantrausti þolenda gegn kerfinu en segir grasrótarhópa vera afar mikilvæga.
„Fólk hefur fundið sér leiðir til að styðja hvert annað í þó nokkrum lokuðum hópum á Facebook. Það er orðin heilmikil vitundarvakning í að þagga ekki heldur segja frá,“ segir Guðrún, sem segir heilmikið hafa breyst í þeim efnum á árinu.
„Svo finnum við líka mjög sterkt fyrir aukinni vitund þeirra sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi um áfallastreituröskunina sína og hvernig þessi umræða og tal um kynferðisofbeldi opnar gömul sár. Þessir hópar styðja hver annan í gegnum það. Víða er líka komin þessi „Trigger Warning“ þegar talað er um nauðganir, sem er af hinu góða.“
Guðrún segir Stígamót hafa staðið fyrir fundum með þolendum í umræddum Facebook-hópum þar sem rætt hafi verið um neikvæðar hliðar umræðunnar og dómskerfisins. „Það er þetta samfélagslega ofbeldi ofan á allt annað og þolendur þurfa að kannast við og bregðast við því að það ýfir upp gömul sár.“