Dæmdur nauðgari verður frjáls maður

Maður sem var dæmdur sekur um að hafa tekið þátt í hópnauðgun í Delhi árið 2012 sem leiddi til dauða ungrar konu, verður að öllum líkindum frjáls maður á sunnudaginn. Stjórnmálamaðurinn Subramanian Swamy, hefur barist fyrir því að indverskir dómstólar skerist í leikinn og stöðvi það að manninum verði sleppt.

Maðurinn var sautján ára þegar hann var dæmdur og því hefur nafn hans aldrei verið birt opinberlega. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi í ágúst 2013, sem er hámarksrefsing fyrir börn undir lögaldri í Indlandi.

Nauðgun og dauði konunnar vakti mikla reiði um allan heim og voru allir gerendurnir, fyrir utan unglinginn, dæmdir til dauða.

Aðgerðarsinnar og fjölskylda stúlkunnar hafa kallað eftir því að manninum verði haldið í fangelsi þar sem hann geti að þeirra mati verið hættulegur samfélaginu.

Í dag greindu dómsstólar frá því að manninum gæti ekki verið haldið þar sem hann hefur setið af sér sína refsingu. „Við erum sammála því að þetta er alvarlegt mál. En eftir 20. desember er ekki hlægt að halda honum,“ hafði indverskur fjölmiðill eftir dómara í málinu.

Móðir fórnarlambsins sagði niðurstöðuna vera vonbrigði og að hún væri að íhuga að kæra hana til hæstaréttar. Í ljósi þeirrar miklu reiði sem málið vakti verður maðurinn í umsjá góðgerðarsamtaka fyrst um sinn eftir að honum er sleppt. Er það gert til að tryggja öryggi mannsins.

Sumir hafa haldið því fram að hann hafi verið grófastur í árásinni. Það var þó aldrei sannað við réttarhöldin.

BBC segir frá.

mbl.is