Skilgreindu samband þitt við peninga

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi.
Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Samband okkar við peninga er flókið. Þetta ævilanga samband stýrir högum okkar, ákvarðanatöku og oft og tíðum líðan. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að flestir telja sig þurfa helmingi hærri tekjur en þeir hafa til að upplifa fjárhagslegt frelsi og geta gert það sem þeir þrá að gera. Það sem mér þykir athyglisverðast við þessar niðurstöður er að þær eru óháðar tekjum aðspurðra. Sem þýðir að þeir sem eru með fimm milljónir í árslaun, telja sig þurfa tíu til að upplifa fjárhagslegt frelsi og þeir sem eru með tíu milljónir, telja sig þurfa tuttugu og þar fram eftir götunum,“ segir Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching og pistlahöfundur á Smartlandi Mörtu Maríu:

Við þurfum peninga til að ...

Við teljum okkur þurfa meira af peningum til að gera hluti eins og byggja upp reksturinn okkar, geta notið meiri tíma með fjölskyldunni, ferðast, borga skuldir, fjárfesta og svo framvegis. En staðreyndin er sú að flest okkar þurfa hjálp þegar kemur að áskorunum okkar tengdum peningum. Það á til dæmis við um að skapa auknar tekjur og halda eftir stærri hluta af þeim tekjum sem við öflum.

Viðkvæmt mál

Fjármál eru ofarlega á lista yfir þau mál sem teljast einkamál og mörgum okkar finnst erfitt og jafnvel óþægilegt að tala um peninga. Þau okkar sem eiga fyrirtæki, upplifa þessi óþægindi þegar kemur að því að ræða um verðin okkar við viðskiptavinina eða þegar kemur að því að selja vöruna okkar. Sum okkar standa sig jafnvel að því að útskýra eða jafnvel afsaka verðið. Fólk sem vinnur fyrir aðra upplifir oft að það þurfi að leggja meira að mörkum en það fær raunverulega greitt fyrir.

Samband þitt við peninga

Sannleikurinn er sá, óháð því hvernig sem við túlkum samband okkar við peninga og hverjar sem birtingarmyndirnar kunna að vera í daglega lífinu, að ef við höfum ekki næga peninga til að gera það sem við þráum að gera, þá er líklegt að við upplifum vanmetakennd. Henni fylgir því jafnframt að við upplifum að líf okkar gæti verið fjölskrúðugra og við gætum lifað því á annan hátt og haft áhrif á fleiri, ef aðeins við hefðum úr meiru að spila.

Peningakönnunin – jólagjöf EddaCoaching til þín

Með því að svara peningakönnuninni gefst þér tækifæri til að bera kennsl á það sem betur má fara í sambandi þínu við peninga. Það er mikilvægt að bera kennsl á þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og það er fyrsta skrefið að breytingum að axla ábyrgð á raunveruleikanum eins og hann blasir við.

Með jólagjöfinni vil ég óska þér gleðilegra jóla og hagsældar á komandi ári. Ég þakka samveruna hér á Smartlandi á árinu sem er að líða og hlakka til komandi árs.

HÉR getur þú tekið prófið.

 

mbl.is