Deiliskipulagið auglýst aftur

Fundað var um Reykjavíkurflugvöll í morgun.
Fundað var um Reykjavíkurflugvöll í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti á fundi umhverfis - og skipulagsráðs að auglýsa að nýju breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála felldi fyrr í mánuðinum úr gildi deiluskipulagið. Þar var gert ráð fyrir því að svokölluð norðaustur-suðvesturbraut flugvallarins verði fjarlægð.

Borgarstjórn samþykkti skipulagið á síðasta ári en það var eigandi flugskýlis á Reykjarvíkurflugvelli sem kærði það.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, oddviti Framsóknar- og flugvallarvina, sat fundinn í morgun. Hún segir að úrskurður umhverfis- og auðlindarmála hafi ekki komið þeim á óvart. „Við höfum ítrekað bent á það síðustu 14 mánuðina að málsmeðferð deiluskipulagsins hafi ekki verið  í samræmi við ákvæði skipulagslaga, þar sem breytingar voru gerðar eftir samþykki deiliskipulagsins í borgarstjórn. Ákvæði laganna eru mjög skýr að slík málsmeðferð er ekki lögum samkvæmt,“ segir Guðfinna.  

„Meirihlutinn ákvað  að hlusta ekki ábendingar okkar né fylgja þessum skýru lagafyrirmælum, eða viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti. Við gerum athugasemdir við slík vinnubrögð.“

Varðandi auglýsingu á deiliskipulaginu segir hún að Framsóknar- og flugvallarvinir hafi ávallt haldið fram að til að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um að loka flugbrautinni þurfi að liggja fyrir að lokunin komi ekki niður á flugöryggi. „Við teljum að það sé óábyrgt að taka flugbrautina út af skipulagi og gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að brautinni og loka henni áður en slík fullvissa liggur fyrir.“

Hún bætir við að nauðsynleg gögn liggi ekki enn fyrir til að hægt sé að taka þessa upplýstu ákvörðun. „Í niðurstöðu Samgöngustofu frá því sumar kemur skýrt fram að áhættumat ISAVIA náði hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulag almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga, né fjárhagslegra áhrifa á flugreksturinn. Samgöngustofa hefur líka bent á að það þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytinganna ef það verður ákveðið að loka þessari flugbraut, þannig að enn liggur ekki fyrir fullvissa um að það sé hægt að loka þessari braut,“ segir Guðfinna.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks: 

„Borgarbúar stöðvuðu yfirgang og óréttlæti a.m.k. um skeið. Svar borgarstjóra til þeirra er að það verði drifið í því að endurtaka sama gráa leikinn. Engin afsökunarbeiðni fylgdi til þeirra sem ruðst var yfir án þess að sýnt væri minnsta tillit eða arða af skilningi á högum þeirra. Skipun dagsins nú er hraði. Þrátt fyrir að enginn ráðsmanna í umhverfis- og skiplagsráði hafi átt aðkomu að því á síðasta ári að afgreiða deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar taka þeir afstöðu til mjög flókins skipulagsmáls á einum aukafundi þar sem allt kapp er lagt á að flýta málinu sem mestur kostur er. Vandvirkni, fagmennska og samráð virðast ekki skipta máli.

Borgarstjóri hefur gert lítið úr úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með því að tala um að á skipulagsferlinu hafi verið „minniháttar hnökrar“ sem verði kippt í liðinn. Að halda slíku fram er algjör afneitun á staðreyndum málsins og alvarleika þeirra annmarka sem leiddu til þess að úrskurðarnefndin sá ekki aðra leið færa en að fella deiliskipulagið úr gildi.   

Stefna Reykjavíkurborgar á hendur innanríkisráðherra vegna neyðarbrautarinnar grundvallast á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem nú hefur verið fellt úr gildi. Grundvöllur dómsmálsins er sem sagt brostinn og málinu verður augljóslega ekki fram haldið."

mbl.is