Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir ljóst að deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála felldi úr gildi hafi verið haldið alvarlegum annmörkum.
„Það má rekja til þess að það var alltof mikill flýtir á því máli. Nú á að endurtaka þann sama leik og flýta þessu eins og frekast kostur er. Það felur bara í sér feigðina,“ segir Júlíus Vífill.
Meirihluti borgarráðs samþykkti í morgun að auglýsa að nýju breytingar á deiliskipulagi flugvallarins.
Frétt mbl.is: Deiliskipulagið auglýst aftur
„Ástæðan fyrir því að það er kallaður saman aukafundur á Þorláksmessu er að Reykjavíkurborg hefur stefnt innanríkiráðherra og krafist lokunar á norðaustur-suðvesturbrautinni. Það mál er dauðadæmt og fellur um sjálft sig ef deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar er ekki í gildi,“ segir Júlíus.
„Það er hálfömurlegt að núverandi fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn skuli ekki sjá að það er kominn tími til að staldra við og vanda til verka.“