Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem grunaður er um að hafa reynt að nauðga tveimur konum, sæti gæsluvarðhaldi til 19. janúar.
Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist á tvær konur aðfaranótt 13. desember. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að er fyrir hendi „sterkur grunur“ um að maðurinn hafi framið brotin og eru þau þess eðlis að varðhald er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Aðfararnótt sunnudagsins 13. desember síðastliðins var lögreglu tilkynnt um unga stúlku í miklu uppnámi á Tjarnargötunni í Reykjavík eftir að einhver hefði gert tilraun til að nauðga henni. Stúlkan var í miklu uppnámi og sat í snjónum í rifnum buxum og grét. Stúlkan sagði lögreglunni að hún hefði verið að ganga heim úr miðbænum þar sem hún hafi verið að skemmta sér. Þegar hún hafi gengið Tjarnargötuna hafi hún tekið eftir manni sem gekk fyrir aftan hana. Hafi hann gengið svo nálægt henni að hefði hún stoppað hefði hann rekist á hana. Kvaðst hún hafa orðið hrædd og viljað losna við manninn og því vikið aðeins til hliðar og látið hann ganga fram úr sér.
Þegar hún hafi svo gengið fram hjá manninum hafi hann gripið í hana, reynt að taka símann af henni og kallað hana „bitch“. Hafi hún þá hent símanum frá sér til þess að hann gæti ekki tekið hann. Þá hafi hann gripið um munninn á henni, ýtt henni að húsinu, rifið buxurnar hennar og reynt að hneppa frá sínum buxum. Við þetta hafi hún öskrað eins hátt og hún gat og sparkað í hann en þá hafi hann orðið ennþá harkalegri við hana og ýtt höfði hennar upp að húsinu. Stúlkan sagðist hafa verið viss um að hann ætlaði að nauðga sér og hafi hún öskrað aftur. Þá hafi komið fólk að og hann hlaupið í burtu.
Vitni sem voru í Tjarnargötu er atvikið áttu sér stað sáu mann á hlaupum og lýstu honum á sama hátt og stúlkan.
Aðeins örfáum mínútum eftir að þessi tilkynning barst kom önnur tilkynning til lögreglu um árás á stúlku í Þingholtsstræti. Lögreglan fór á vettvang og hitti þar fyrir stúlku sem var grátandi og í miklu uppnámi. Kvaðst hún hafa verið ein á gangi upp Bankastrætið þegar karlmaður hafi komið aftan að henni og lagt hendi sína yfir axlir hennar. Maðurinn hefði svo gripið fastar og fastar utan um hana. Hún hafi reynt að losa sig en hann hafi þá gripið um munn hennar og gengið ákveðið með hana inn Þingholtsstrætið. Þau hafi ekki verið komin langt inn þá götu þegar hann hafi kastað henni utan í kyrrstæðan bíl. Því næst hafi hann reynt að setjast klofvega ofan á hana og henni hafi liðið allan tíman eins og hann hafi ætlað að nauðga henni. Síðan hafi líklega einhver komið að því allt í einu hafi hann hlaupið í burtu. Stúlkan sagðist m.a. hafa klórað hann á öðru hvoru handarbakinu og einnig hafði hún bitið hann í fingur.
Lögreglan gat rakið ferðir mannsins á öryggismyndavélum. Hann sást t.d. ganga Tjarnargötu í átt að Vonarstræti rétt fyrir kl. 3 um nóttina, sömu leið og unga stúlkan úr fyrra málinu.
Einnig sést á annarri öryggismyndavél hvar maðurinn gengur á eftir stúlkunni sem hann réðst á í Þingholtsstræti. Í greinargerð lögreglustjórans segir að það sjáist á upptökum hvernig maðurinn veiti henni eftirför að Lækjargötu og svo upp Bankastræti þar sem hann þvingi hana með ofbeldi inn í Þingholtsstræti og ráðist svo á hana þar. Sjáist hann keyra hana harkalega í götuna, takast á við hana þar og reyna að halda henni þangað til leigubíl er ekið norður götuna sem hann virðist fælast við og því hlaupa á brott.
Birtar voru tvær myndir af árásarmanninum úr upptökunum í fjölmiðlum 16. desember og óskað eftir upplýsingum um hann. Fjöldi ábendinga barst lögreglu í kjölfarið. Maðurinnhafði jafnframt sjálfur samband við lögreglu og sagst þekkja sig á myndunum.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 18. desember.
Hann neitaði sök í skýrslutökum vegna málsins.
Lögreglan telur hins vegar hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn sé sá sem réðst á konurnar. Önnur árásin sé svo til öll til á upptöku. Að mati lögreglu sé hann því undir sterkum grun um að vera árásarmaðurinn og að hafa, með nokkurra mínútna millibili, ráðist fyrirvaralaust með ofbeldi á tvær konur í miðborg Reykjavíkur og gert tilraun til að nauðga þeim. Það hafi orðið þeim til bjargar í bæði skiptin að hann varð fyrir utanaðkomandi truflun svo hann hafi hlaupið á brott. Um „sérlega ófyrirleitnar, fólskulegar og hættulegar atlögur“ sé að ræða þar sem brotamaður skeyti engu.
Ætluð brot kærða geti varðað allt að 16 ára fangelsi.
Að mati lögreglu er maðurinn hættulegur umhverfi sínu og að brotin séu þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að maðurinn gangi laus meðan mál hans séu til meðferðar.
Rannsókn málsins sé á lokastigi og verði málið sent héraðssaksóknara til ákvörðunar um saksókn eins fljótt og unnt er.