Lögreglan skaut tvo til bana í Chicago

AFP

Lögreglumaður í Chicago skaut konu og ungan mann til bana í nótt eftir að lögregla var kölluð á staðinn vegna heimilisofbeldis. Fjölskyldur þeirra sem létust saka lögreglu um að hafa brugðist of harkalega við.

Í frétt CBS sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að fólkið sem var skotið til bana, 19 ára piltur, Quintonio Legrier og Bettie Jones, 55 ára fimm barna móðir, séu bæði svört. Lögregla hefur ekki upplýst um kynþátt lögreglumannsins né heldur hvaða stöðu hann gegnir innan lögreglunnar.

Jones var úrskurðuð látin klukkan 4:51 að staðartíma á Loretto sjúkrahúsinu. Legrier var úrskurðaður látinn klukkan 5:14 á Stroger sjúrkahúsinu.  Í tilkynningu frá lögreglunni í Chicago var fólkið skotið klukkan 4:25 og að lögregla hafi verið að verjast ógn.

Móðir Legriers, Janet Cooksey, segir í viðtali við WLS-TV að sonur hennar hafi átt við geðræn vandamál að stríða og hann hafi stundum verið hávær en aldrei ofbeldisfullur.  

Cooksey sagði í viðtali við CBS að hún hafi haldið að sonur hennar hafi verið fluttur á geðdeild eftir að lögregla tjáði henni að hann hafi ráðist á föður sinn og hótað honum með hafnarboltakylfu.

„Ef þú ert lögregluþjónn þá átt þú að hafa hlotið þjálfun til að takast á við aðstæður sem þessar. Sjö skot hæfðu son minn. Sjö.“

Jones, sem var nágranni Legrier, bjó í íbúð á fyrstu hæð hússins ásamt unnusta sínum. Dóttir hennar segir að hún hafi orðið fyrir skoti þegar hún opnaði dyrnar á íbúðinni. Börn Jones eru á aldrinum 19-38 ára. 

Frétt CBS

mbl.is