Lögreglan á Indlandi hefur handtekið tvo karlmenn sem sakaðir eru um að hafa nauðgað konu í húsnæði tæknifyrirtækisins Infosys. Mennirnir eru á þrítugsaldri. Þeir tóku nauðgunina upp á myndskeið.
Árásin var gerð á sunnudag í höfuðstöðvum fyrirtækisins í borginni Pune í Maharashtra-ríki.
„Konan vann sem gjaldkeri í mötuneyti fyrirtækisins og hafði farið í þvottaherbergið um kvöldið þar sem annar mannanna réðst á hana. Hinn tók svo nauðgunina upp á myndband,“ segir Suresh Bhonsle, yfirlögregluþjónn í Pune í samtali við AFP-fréttastofuna.
Mennirnir voru handteknir skömmu eftir árásina og hefur þegar verið birt ákæra. Mennirnir unnu einnig í mötuneyti fyrirtækisins, annar sem þjónn og hinn við þrif.
Infosys er annað stærsta tæknifyrirtæki Indlands. Stjórnendur þess segjast taka þátt í rannsókninni á árásinni. Þeir segjast ekki leyfa kynferðislegri áreitni eða ofbeldi að viðgangast hjá fyrirtækinu. „Við munum grípa til aðgerða.“
Kynbundið ofbeldi er daglegt brauð á Indlandi og fjöldi kvenna verður fyrir því á hverjum degi.