Varúð: Mikið spilliefni (e. spoilers) fylgir þessari frétt.
Á síðustu árum hefur nördinu vaxið fiskur um hrygg. Þessi erkitýpa, sem áður spilaði Drekar og dýflissur í kjallaranum hjá móður sinni hefur fyrir margt löngu skriðið upp úr myrkrinu sem gróðvænlegur markhópur fyrir útgefendur bóka, tölvuleikja og kvikmynda. Með vaxandi mikilvægi tölvutækni hefur hann jafnvel komist í álnir og gert menningarheim sinn eftirsóknarverðan. Nú er svo komið að nirðir af öllum stærðum og gerðum geta stoltir gengið uppréttir í dagsljósinu og sagst hafa fílað hina og þessa afkima njarðhegðunar áður en það varð svalt.
Sumir karlnördar eiga erfitt með að samþykkja tilveru kvennörda, sem skriðu nokkuð seinna en karlar upp úr kjöllurum sínum. Hik kvennjarða er afar skiljanlegt þegar litið er til þess að í kvikmyndum tíunda áratugarins var nóg að setja gleraugu á nef kvenmanns til þess að hún teldist óaðlaðandi. Eins og hið andfeminíska Gamergate ber vitni um eiga konur enn langt í land með að vera metnar að verðleikum innan menningar erkinördsins.
Með frumsýningu Star Wars: The Force Awakens var hinsvegar tekið risastórt skref í átt að auknu jafnrétti og það ekki bara í njarðheimum. Aðalpersónan Rey (Daisy Ridley) skipaði sér á einni nóttu í fremstu röð kvenhetja kvikmyndasögunnar án þess að klæðast sérlega þröngum eða efnislitlum fötum og þurfti meira að segja ekki að kyssa neinn til að komast þangað.
Aðeins tvær af hinum sex Star Wars myndunum standast einu sinni Bechdel prófið (og það naumlega) en einu kröfur þess eru að:
a) í myndinni séu tvær eða fleiri konur,
b) sem tala saman,
c) um eitthvað annað en karlmenn.
The Force Awakens stenst prófið með prýði en skilur það þó ekki eftir í rykinu. Myndin hefur verið lofsungin af nördum, femínistum og feminískum nördum um allan heim en gerir hún nóg eftir áratugi af karlmiðuðu Stjörnustríði? Eru kannski gallar á hinni feminísku gjöf Njarðar?
Rey er hugrökk, sjálfstæð og sterk kona sem hefur komist af að því er virðist upp á eigin spýtur frá því hún var skilin eftir á hinni guðsvoluðu plánetu Jakku aðeins fimm ára gömul. Hún hefur öflugustu tengingu við Máttinn (e. The Force) sem sést hefur í kvikmyndunum en var frábær flugmaður, vélvirki og bardagamaður jafnvel áður en hún kynntist honum.
Eins og Patricia Karvelas skrifar í The Guardian breytir Rey öllu fyrir litlar stúlkur sem hafa verið hunsaðar af Star Wars veldinu í áratugi enda hafa þær loksins kvenhetju sambærilega Loga Geimgengli að líta upp til.
„Hún er ekki hlutlaus, hún er ekki í smáhlutverki, hún er ekki skilgreind eftir leyfi karla. Hún er skilgreind af því sem okkur hungrar öll í – vald hennar á rætur sínar í verðleikum hennar – hún er besti bardagamaðurinn, besti flugstjórinn, hinn náttúrulegi leiðtogi.“
Hjá sama miðli segir Bridi Jabour hina „sterku konu“ nálgast það að verða klisja en að Rey sé frumleg á sama tíma og hún tali til kvenna á djúpu stigi.
„(...) [hún] berst í gegnum vetrarbrautir ásamt minna hæfum en vel meinandi karli, sífellt vanmetin, haldandi við reiðinni og fyndninni. Það er næstum allegoría fyrir konur á vinnustöðum nútímans.“
Ýmsar kenningar eru á lofti um hver Rey er og hefur því verið velt upp að hún sé dóttir Loga eða Leiu, afkomandi Obi-Wan Kenobi eða jafnvel Anakin sjálfur endurfæddur.
Hvað sem fortíð hennar líður er fullljóst að Rey er miðpunktur myndarinnar og mun halda áfram að vera hetja næstu mynda. Það eitt og sér er nógu merkilegt samanborið við fyrstu myndirnar þrjár þar sem eina stóra kvenpersónan er Leia prinsessa (Carrie Fisher).
Leia kom upphaflega inn sem sterk og hugrökk kona tilbúin að berjast fyrir sig og sína. Oftast eru þægindi en ekki kynþokki í fyrirrúmi þegar kemur að fatnaði hennar, hún mundar skotvopn og notar eigin þrælahlekki til að drepa kvalara sinn, Jabba the Hut.
Í gegnum myndirnar neyðist hún þó trekk í trekk til að treysta á björgun karlmanna sem grípa yfirleitt í hönd hennar og bókstaflega leiða hana frá hættunni. Raunar er hennar frægasta tilvitnun „Hjálpaðu mér Obi-Wan Kenobi, þú ert mín eina von,“ sem er ekki beinlýnis valdeflandi. Þá þarf Leia að þola eina sögufrægustu kyngervingu kvikmyndasögunnar íklædd gullbikiníi sem þræll Jabba The Hut. Bikiní þetta er svo óaðskiljanlegur hluti persónu hennar að það á sína eigin Wikipedia síðu.
„Eina leiðin sem þeir kunnu til að gera persónuna sterka var að gera hana reiða,“ sagði Carrie Fisher um hlutverkið við Rolling Stone.
„Í Return of the Jedi fær hún að vera kvenlegri, stuðningsríkari, ástúðlegri. En við skulum ekki gleyma því að þessar myndir eru í grunninn fantasíur drengja. Svo hin leiðin sem þeir notuðu til að gera hana kvenlegri í þessari mynd var að láta hana fara úr fötunum.“
Meðferðin á persónu Leiu er auðvitað ekki eina umkvörtunarefni femínista við fyrri Star Wars kvikmyndirnar. Móðir hennar, Padmé Amidala (Natalie Portman), er sterkur leiðtogi í The Phantom Menace en missir lífsviljann og deyr úr ástarsorg undir lok Revenge of the Sith. Talhlutverk kvenna yfir fimm setningum eru teljandi á fingrum annarrar handar og í The Return of the Jedi gekk George Lucas svo langt að döbba karlmannsrödd yfir setningu eina kvenorrustuflugmannsins sem sést í mynd en tveir aðrir voru alfarið klipptir út úr myndinni.
Ef vel er að gáð sýnir Rey aðeins meira hold en aðrar persónur The Force Awakens, að ómannlegum geimverum undanskildum. Það er þó ekki brjóstaskoran sem lætur á sér kræla heldur stæltir upphandleggirnir og kálfarnir sem vísa fremur í styrk hennar en kynferði. Þar að auki fá handakrikar hennar raunar að anda rækilega og þannig gefst áhorfendum tækifæri til að bæta henni á listann yfir konur sem láta ekkert koma í veg fyrir rakstur. Það er skemmtileg tilhugsun að ímynda sér Rey skjótast inn á bað í Fálkanum og svíða broddana af með geislasverðinu, en dveljum ekki of lengi við slíka pælingar.
Í grein sinni fyrir The Atlantic segir Megan Garber Rey vera persónu fyrir öld þar sem femínismi sem lífstíll er að koma í stað femínisma sem hreyfingar. Búningurinn hennar endurspeglar það ágætlega.
„Lítið aftur á þennan búning. Hann ber vitni um erfiðleika og hagkvæmni – þess konar flík sem Katniss Everdeen og Imperator Furiosa og líklega einnig Jessica Jones myndu klæðast, skyldu þær þurfa að reyna að lifa af á Jakku- og samt sem áður búa í honum smáar vísanir í kvenleika. Beltið sem leggur áherslu á mitti Rey. Kyrtillinn, krosslagður yfir axlir hennar minnir á grískar gyðjur. Og þetta er að sjálfsögðu búningur sem minnir mikið á búning Loga Geimgengils.“
Rey neitar að feta í fótspor Leiu og láta leiða sig frá hættu enda er hún mun betur í stakk búin til þess að bjarga sér sjálf. Þetta er undirstrikað í The Force Awakens með skemmtilegri vísun í fyrri myndirnar þar sem Finn (John Boyega) reynir endurtekið að leiða Rey á hlaupum og uppsker miklar skammir fyrir. Þá er rétt að taka fram að Rey er ekki eina kvenhetja myndarinnar því Leia á sterka endurkomu sem leiðtogi Andspyrnuhreyfingarinnar og Maz Kanata (Lupita Nyong‘o) er ekki bara ævaforn og vitur heldur vörður geislasverðs Loga Geimgengils og staðfastur siðferðislegur kompás til mótvægis við hin ungu og óöruggu Rey og Finn. Einnig kemur fyrsta kvenkynsillmenni Störnustríðsheimsins fyrir í myndinni en kapteinn Phasma sem átti upprunalega að vera karlmaður en eftir kvartanir vegna skorts á kvenpersónum við fyrstu kynningu á myndinni var Gwendoline Christie ráðin í hlutverkið.
Ef við víkjum aftur að Rey og Finn þá er eina vísbendingin sem áhorfendur fá um hugsanlegt ástarsamband þeirra á milli sú að Finn spyr hvort Rey eigi kærasta. Það gæti vissulega átt að gefa tóninn fyrir komandi rómantík en eins og farið verður yfir hér síðar er þó annað hugsanlegt par mun ofar á í umræðunni meðal aðdáenda. Það að Rey sleppi við að vera bundin við karlpersónu með ástarsambandi gefur henni aukið frelsi og skilur hana frá öðrum kvenhetjum enda snúa helstu hlutverk kvenna í spennu- og ævintýramyndum yfirleitt að því að vera sætar, fara í sleik eða hugsanlega að láta ræna sér.
Ákveðið feminískt bakslag virðist einmitt ætla að eiga sér stað eftir að Kylo Ren nær Rey á sitt vald. Finn, Han Solo og Chewbacca reyna að bjarga henni en þegar upp er staðið sleppur hún á eigin rammleik og bjargar jafnvel Finn með hjálp Chewbacca. Það er aðeins eitt af mörgum augnablikum í myndinni þar sem hamrað er á þeirri staðreynd að Rey getur bjargað sér sjálf. Viðbrögð hennar á tilburðum Finn við „handleiðslu“ eru eitt þeirra og bardaginn við Kylo Ren er annað. Það hjartnæmasta er hinsvegar þegar Han Solo réttir henni skotvopn í því sem hún undirbýr sig fyrir bardaga.
„Þú gætir þurft á þessu að halda,“ segir hann. Hún svarar „Ég get séð um mig sjálfa,“ og Solo svarar að bragði „Þess vegna er ég að gefa þér það“.
Líta má á þetta samtal sem myndhverfingu fyrir sáttahönd leikstjóra The Force Awakens, J.J. Abrams, til kvenna fyrir hönd Stjörnustríðsveldisins. Konur hafa sýnt það og sannað að þær geta séð um sig sjálfar en karlar búa þó enn yfir völdum sem geta skipt sköpum í baráttunni fyrir jafnrétti. Með því að gera konu að aðalhetju stærstu kvikmyndar áratugarins, sem er að auki innan hins karlmiðaða nördheims, réttir Abrams fram vopn í jafnréttisbaráttunni og segir „Ég styð ykkur.“
Þessum stuðningi hefur verið tekið fagnandi af fólki af öllum kynjum sem kunna vel að meta þá auknu fjölbreytni The Force Awakens býður upp á. Aðrir sjá þó ýmsa vankanta á myndinni og skrifar Michael Hiltzik í Los Angeles Times að hún sé ömurleg. Hún sé hönnuð út frá markaðssjónarmiðum til að ná til sem flestra áhorfenda og það þýði að hún sé eins ómóðgandi og mögulegt sé. Sú niðurstaða segi okkur ýmislegt um framtíð Hollywood og það ekkert gott.
Aðrir hafa bent á að kvenpersónan Rey sé einfaldlega of fullkomin. Hún sé svokölluð Mary Sue en það hugtak er oftast notað yfir persónu í aðdáendaskáldskap (e. fan-fiction) þar sem sá sem skrifar hefur komið fullkominni útgáfu af sjálfum sér fyrir í sögunni sem hann elskar. Megan McArdle segir Rey vera Mary Sue en að í þetta skipti sé hún ekki staðgengill höfundarins í sögunni heldur allra 10 ára stúlkna sem hefur dreymt um að eiga sér Jedi hetju innan Star Wars heimsins. Segir hún persónusköpunina flata og að hún óttist að það muni hafa áhrif á gæði næstu mynda.
Caroline Framke hjá Vox er ósammála slíkum fullyrðingum og bendir á að ef Rey er Mary Sue þá er Logi Geimgengill það líka og sú staðreynd virðist ekki hafa farið neitt sérstaklega í taugarnar á aðdáendum til þessa, líklega af því að hann er karlmaður.
Syreeta McFadden gengur lengra og segir gagnrýnendum sem telja Rey vera „Mary Sue“ mega „sjúg‘ann“ þar sem við höfum nú loksins fengið hetjuna sem okkur hefur dreymt um.
„Rey er ekki viðfang ástar einhvers, hún er stríðsmaður. Og sem einhver sem þóttist vera Logi Geimgengill í garð-endurleikjum barndómsins og stöku Jedi meðal vina, tek ég fagnandi á móti hetju sem ég get samsvarað mig við í heimi sem ég hef dýrkað í áratugi.“
Þó svo að kynjagleraugun hafi svo sannarlega verið höfð við hendina á hverju stigi kvikmyndarinnar hafa ákveðnir fylgifiskar hennar þó valdið miklum vonbrigðum. Einna helst má þar nefna markaðsetningu á leikföngum tengdri myndinni.
Myllumerkið #WhereIsRey fór á flug á samfélagsmiðlum þegar vonsviknir aðdáendur fundu fullt af „dótakörlum“ en enga Rey í leikfangapökkum til sölu í Target þar sem jafnvel nafnlausar persónur fá sitt pláss. Stjórnendur Disney hafa borið því fyrir sig að leikfangapakkar sem innihaldi Rey seljist upp um leið og þeir snerti hillurnar. Hafa þeir lofað því að aðdáendur muni sjá meira af henni í leikfangaverslunum árið 2016.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem skortur á kvenhetjum í leikfangastellum veldur vonbrigðum því í fyrra varð #WhereisBlackWidow vinsælt í tengslum við kvikmyndina The Avengers og árið áður var #WheresGamora áberandi í kjölfar frumsýningar Guardians of the Galaxy.
Það er þó önnur kvenhetja sem einnig er lítið sýnileg í leikfangaverslunum og almennri umfjöllun um femínisma The Force Awakens því hin upprunalega kvenhetja Stjörnustríðsheimsins, Leia Prinsessa, er í stóru hlutverki í kvikmyndinni en öllu eldri en í þeim fyrri. Í umfjöllun The Guardian segir Laurie Penny einmitt lítið heillast af Rey sem sé flatur karakter en að Leia vermi hennar feminíska „fangirl“ hjarta.
„Raunveruleg hetja þessa verks er Leia- sem hefur fengið að eldast á skjánum og verða enn frábærari með því ferli. Carrie Fisher hefur gefið okkur það sem jafnvel lengst leiddu geimfanatíkusarnir hafa átt í erfiðleikum með að ímynda sér – miðaldra móður sem er alveg jafn öflug og mikilvæg og hún var sem gjafvaxta prinsessa.“
Í kjölfar frumsýningar myndarinnar hefur Carrie Fisher einmitt stigið fram og sent fólki sér veltir sér upp úr útliti hennar tóninn.
„Vinsamlegast hættið að rökræða hvort ég hafi elst vel eða illa. Því miður særir það allar mínar tilfinningar. Líkaminn minn hefur ekki elst eins vel og ég,“ sagði Fisher á Twitter.
„Líkami minn er farartæki fyrir heilann minn, hann dröslar mér á staði þar sem ég hef eitthvað að sjá og segja.“
Eins og Jon Greenberg bendir á í grein sinni á Everyday Feminism stenst myndin ekki bara Bechdel prófið heldur einnig kynþátta Bechdel prófið sem snýst um að tvær persónur utan hins alhvíta kynstofns ræði saman sín á milli. Finn, sem er svartur, ræðir við Poe Dameron sem leikinn er af Oscar Isaac sem rekur ættir sínar til Guatemala og er þar með af latnesku bergi brotinn
„(...) Star Wars hefur boðið börnum upp á valkost sem þau hafa nánast aldrei haft áður,“ skrifar Greenberg. „Ef þú vilt vera Star Wars hetja, viltu leika hvítu konuna, svarta gaurinn eða latingaurinn?“
Eins og áður segir er Rey ekki smættuð niður í kyn sitt og kynferði með fatnaði eða ástarsamböndum í myndinni. Þó svo að lítil vísun sé í ástarsamband á hennar vegum telja margir aðdáendur sig hinsvegar sjá vísi að rómantík í samskiptum þeirra Finn og Poe sem faðmast innilega þar sem þeir þykjast hafa heimt hvorn annan úr helju.
Nú þegar, innan við mánuði frá frumsýningu, hafa aðdáendur skrifað hátt í 400 sögur á síðuna Archive of Our Own sem snúa sérstaklega að ástarsambandi milli Finn og Poe.
Leikararnir hafa jafnvel gert sitt til að kynda undir vonum aðdáenda með því að segjast hafa verið að leika rómantískt samband. Ef satt reynist mun Stjörnustríðsheimurinn skrá sig enn fremur á spjöld sögunnar sem byltingarkenndasta kvikmyndaröð heims. Ef eitthvað er að marka viðtökur The Force Awakens er honum ekkert að vanbúnaði.