Mátturinn vaknar: Femínískt stríð meðal stjarnanna

Plaggat Star Wars: The Force Awakens

Varúð: Mikið spilli­efni (e. spoilers) fylg­ir þess­ari frétt.

Á síðustu árum hef­ur nör­d­inu vaxið fisk­ur um hrygg. Þessi erkitýpa, sem áður spilaði Drek­ar og dýfliss­ur í kjall­ar­an­um hjá móður sinni hef­ur fyr­ir margt löngu skriðið upp úr myrkr­inu sem gróðvæn­leg­ur mark­hóp­ur fyr­ir út­gef­end­ur bóka, tölvu­leikja og kvik­mynda. Með vax­andi mik­il­vægi tölvu­tækni hef­ur hann jafn­vel kom­ist í áln­ir og gert menn­ing­ar­heim sinn eft­ir­sókn­ar­verðan. Nú er svo komið að nirðir af öll­um stærðum og gerðum geta stolt­ir gengið upp­rétt­ir í dags­ljós­inu og sagst hafa fílað hina og þessa af­kima njarðhegðunar áður en það varð svalt.

Sum­ir karlnör­d­ar eiga erfitt með að samþykkja til­veru kvennörda, sem skriðu nokkuð seinna en karl­ar upp úr kjöll­ur­um sín­um. Hik kvennj­arða er afar skilj­an­legt þegar litið er til þess að í kvik­mynd­um tí­unda ára­tug­ar­ins var nóg að setja gler­augu á nef kven­manns til þess að hún teld­ist óaðlaðandi. Eins og hið and­fem­in­íska Gamerga­te ber vitni um eiga kon­ur enn langt í land með að vera metn­ar að verðleik­um inn­an menn­ing­ar erk­inörds­ins.

Stjörnustríðs aðdáendur lyfta geislasverðum sínum á loft í kollektívri fullnirðingu …
Stjörnu­stríðs aðdá­end­ur lyfta geislasverðum sín­um á loft í kollektívri fulln­irðingu (e. ner­dga­sm) AFP

Með frum­sýn­ingu Star Wars: The Force Awakens var hins­veg­ar tekið risa­stórt skref í átt að auknu jafn­rétti og það ekki bara í njarðheim­um. Aðal­per­són­an Rey (Daisy Ridley) skipaði sér á einni nóttu í fremstu röð kven­hetja kvik­mynda­sög­unn­ar án þess að klæðast sér­lega þröng­um eða efn­is­litl­um föt­um og þurfti meira að segja ekki að kyssa neinn til að kom­ast þangað.

Aðeins tvær af hinum sex Star Wars mynd­un­um stand­ast einu sinni Bechdel prófið (og það naum­lega) en einu kröf­ur þess eru að:
a) í mynd­inni séu tvær eða fleiri kon­ur,
b) sem tala sam­an,
c) um eitt­hvað annað en karl­menn.

The Force Awakens stenst prófið með prýði en skil­ur það þó ekki eft­ir í ryk­inu. Mynd­in hef­ur verið lof­sung­in af nör­d­um, femín­ist­um og fem­in­ísk­um nör­d­um um all­an heim en ger­ir hún nóg eft­ir ára­tugi af karl­miðuðu Stjörnu­stríði? Eru kannski gall­ar á hinni fem­in­ísku gjöf Njarðar?

Daisy Ridley fer með hlutverk kvenhetjunnar Rey sem Mátturinn er …
Daisy Ridley fer með hlut­verk kven­hetj­unn­ar Rey sem Mátt­ur­inn er svo sann­ar­lega með. AFP

Eins og vinnustaður nú­tím­ans

Rey er hug­rökk, sjálf­stæð og sterk kona sem hef­ur kom­ist af að því er virðist upp á eig­in spýt­ur frá því hún var skil­in eft­ir á hinni guðsvoluðu plán­etu Jakku aðeins fimm ára göm­ul. Hún hef­ur öfl­ug­ustu teng­ingu við Mátt­inn (e. The Force) sem sést hef­ur í kvik­mynd­un­um en var frá­bær flugmaður, vél­virki og bar­dagamaður jafn­vel áður en hún kynnt­ist hon­um.

Eins og Pat­ricia Karvelas skrif­ar í The Guar­di­an breyt­ir Rey öllu fyr­ir litl­ar stúlk­ur sem hafa verið hunsaðar af Star Wars veld­inu í ára­tugi enda hafa þær loks­ins kven­hetju sam­bæri­lega Loga Geim­gengli að líta upp til.

„Hún er ekki hlut­laus, hún er ekki í smá­hlut­verki, hún er ekki skil­greind eft­ir leyfi karla. Hún er skil­greind af því sem okk­ur hungr­ar öll í – vald henn­ar á ræt­ur sín­ar í verðleik­um henn­ar – hún er besti bar­dagamaður­inn, besti flug­stjór­inn, hinn nátt­úru­legi leiðtogi.“

Hjá sama miðli seg­ir Bridi Ja­bour hina „sterku konu“ nálg­ast það að verða klisja en að Rey sé frum­leg á sama tíma og hún tali til kvenna á djúpu stigi.

„(...) [hún] berst í gegn­um vetr­ar­braut­ir ásamt minna hæf­um en vel mein­andi karli, sí­fellt van­met­in, hald­andi við reiðinni og fyndn­inni. Það er næst­um alleg­oría fyr­ir kon­ur á vinnu­stöðum nú­tím­ans.“

Ýmsar kenn­ing­ar eru á lofti um hver Rey er og hef­ur því verið velt upp að hún sé dótt­ir Loga eða Leiu, af­kom­andi Obi-Wan Kenobi eða jafn­vel Anak­in sjálf­ur end­ur­fædd­ur. 

Hvað sem fortíð henn­ar líður er full­ljóst að Rey er miðpunkt­ur mynd­ar­inn­ar og mun halda áfram að vera hetja næstu mynda. Það eitt og sér er nógu merki­legt sam­an­borið við fyrstu mynd­irn­ar þrjár þar sem eina stóra kven­per­són­an er Leia prins­essa (Carrie Fis­her).

Leia prinsessa er hugrökk og sterk kvenpersóna en er þó …
Leia prins­essa er hug­rökk og sterk kven­per­sóna en er þó oft­ar en ekki upp á karl­menn kom­in.

Fant­así­ur drengja

 Leia kom upp­haf­lega inn sem sterk og hug­rökk kona til­bú­in að berj­ast fyr­ir sig og sína. Oft­ast eru þæg­indi en ekki kynþokki í fyr­ir­rúmi þegar kem­ur að fatnaði henn­ar, hún mund­ar skot­vopn og not­ar eig­in þræla­hlekki til að drepa kval­ara sinn, Jabba the Hut.

Í gegn­um mynd­irn­ar neyðist hún þó trekk í trekk til að treysta á björg­un karl­manna sem grípa yf­ir­leitt í hönd henn­ar og bók­staf­lega leiða hana frá hætt­unni. Raun­ar er henn­ar fræg­asta til­vitn­un „Hjálpaðu mér Obi-Wan Kenobi, þú ert mín eina von,“ sem er ekki bein­lýn­is vald­efl­andi. Þá þarf Leia að þola eina sögu­fræg­ustu kyn­gerv­ingu kvik­mynda­sög­unn­ar íklædd gull­bik­iníi sem þræll Jabba The Hut. Bik­iní þetta er svo óaðskilj­an­leg­ur hluti per­sónu henn­ar að það á sína eig­in Wikipedia síðu.

Leia prinsessa í gullbikiníinu: Uppspretta óteljandi blautra drauma og tilgangslaus …
Leia prins­essa í gull­bik­iní­inu: Upp­spretta ótelj­andi blautra drauma og til­gangs­laus kyn­gerv­ing sterkr­ar kven­per­sónu.

„Eina leiðin sem þeir kunnu til að gera per­són­una sterka var að gera hana reiða,“ sagði Carrie Fis­her um hlut­verkið við Roll­ing Stone.

„Í Ret­urn of the Jedi fær hún að vera kven­legri, stuðnings­rík­ari, ástúðlegri. En við skul­um ekki gleyma því að þess­ar mynd­ir eru í grunn­inn fant­así­ur drengja. Svo hin leiðin sem þeir notuðu til að gera hana kven­legri í þess­ari mynd var að láta hana fara úr föt­un­um.“

Meðferðin á per­sónu Leiu er auðvitað ekki eina umkvört­un­ar­efni femín­ista við fyrri Star Wars kvik­mynd­irn­ar. Móðir henn­ar, Padmé Ami­dala (Na­talie Portman), er sterk­ur leiðtogi í The Phantom Menace en miss­ir lífs­vilj­ann og deyr úr ástarsorg und­ir lok Revenge of the Sith. Tal­hlut­verk kvenna yfir fimm setn­ing­um eru telj­andi á fingr­um annarr­ar hand­ar og í The Ret­urn of the Jedi gekk Geor­ge Lucas svo langt að döbba karl­manns­rödd yfir setn­ingu eina kven­orr­ustuflug­manns­ins sem sést í mynd en tveir aðrir voru al­farið klippt­ir út úr mynd­inni.

Klæðnaði Rey er ekki ætlað að vekja athygli karlmanna á …
Klæðnaði Rey er ekki ætlað að vekja at­hygli karl­manna á lík­ama henn­ar.

Rökuð en hag­kvæm

Ef vel er að gáð sýn­ir Rey aðeins meira hold en aðrar per­són­ur The Force Awakens, að ómann­leg­um geim­ver­um und­an­skild­um. Það er þó ekki brjósta­skor­an sem læt­ur á sér kræla held­ur stælt­ir upp­hand­legg­irn­ir og kálfarn­ir sem vísa frem­ur í styrk henn­ar en kyn­ferði. Þar að auki fá handakrik­ar henn­ar raun­ar að anda ræki­lega og þannig gefst áhorf­end­um tæki­færi til að bæta henni á list­ann yfir kon­ur sem láta ekk­ert koma í veg fyr­ir rakst­ur. Það er skemmti­leg til­hugs­un að ímynda sér Rey skjót­ast inn á bað í Fálk­an­um og svíða brodd­ana af með geislasverðinu, en dvelj­um ekki of lengi við slíka pæl­ing­ar.

Í grein sinni fyr­ir The Atlantic seg­ir Meg­an Garber Rey vera per­sónu fyr­ir öld þar sem femín­ismi sem lífstíll er að koma í stað femín­isma sem hreyf­ing­ar. Bún­ing­ur­inn henn­ar end­ur­spegl­ar það ágæt­lega.

„Lítið aft­ur á þenn­an bún­ing. Hann ber vitni um erfiðleika  og hag­kvæmni – þess kon­ar flík sem Katn­iss Ever­deen og Im­perator Furi­osa og lík­lega einnig Jessica Jo­nes myndu klæðast, skyldu þær þurfa að reyna að lifa af á Jakku- og samt sem áður búa í hon­um smá­ar vís­an­ir í kven­leika. Beltið sem legg­ur áherslu á mitti Rey. Kyrtill­inn, krosslagður yfir axl­ir henn­ar minn­ir á grísk­ar gyðjur. Og þetta er að sjálf­sögðu bún­ing­ur sem minn­ir mikið á bún­ing Loga Geim­gengils.“

Hingað til hafa konur og stúlkur haft úr fáum fyrirmyndum …
Hingað til hafa kon­ur og stúlk­ur haft úr fáum fyr­ir­mynd­um af eig­in kyni að moða í spennu­mynd­um á við Stjörnu­stríð en það kem­ur ekki í veg fyr­ir að þær njóti sín. AFP

Að láta til leiðast

Rey neit­ar að feta í fót­spor Leiu og láta leiða sig frá hættu enda er hún mun bet­ur í stakk búin til þess að bjarga sér sjálf. Þetta er und­ir­strikað í The Force Awakens með skemmti­legri vís­un í fyrri mynd­irn­ar þar sem Finn (John Boyega) reyn­ir end­ur­tekið að leiða Rey á hlaup­um og upp­sker mikl­ar skamm­ir fyr­ir. Þá er rétt að taka fram að Rey er ekki eina kven­hetja mynd­ar­inn­ar því Leia á sterka end­ur­komu sem leiðtogi And­spyrnu­hreyf­ing­ar­inn­ar og Maz Kanata (Lupita Nyong‘o) er ekki bara æva­forn og vit­ur held­ur vörður geislasverðs Loga Geim­gengils og staðfast­ur siðferðis­leg­ur komp­ás til mót­væg­is við hin ungu og óör­uggu Rey og Finn. Einnig kem­ur fyrsta kven­kynsill­menni Störnu­stríðsheims­ins fyr­ir í mynd­inni en kap­teinn Phasma sem átti upp­runa­lega að vera karl­maður en eft­ir kvart­an­ir vegna skorts á kven­per­són­um við fyrstu kynn­ingu á mynd­inni var Gwendol­ine Christie ráðin í hlut­verkið.

Ef við víkj­um aft­ur að Rey og Finn þá er eina vís­bend­ing­in sem áhorf­end­ur fá um hugs­an­legt ástar­sam­band þeirra á milli sú að Finn spyr hvort Rey eigi kær­asta. Það gæti vissu­lega átt að gefa tón­inn fyr­ir kom­andi róm­an­tík en eins og farið verður yfir hér síðar er þó annað hugs­an­legt par mun ofar á í umræðunni meðal aðdá­enda. Það að Rey sleppi við að vera bund­in við karl­per­sónu með ástar­sam­bandi gef­ur henni aukið frelsi og skil­ur hana frá öðrum kven­hetj­um enda snúa helstu hlut­verk kvenna í spennu- og æv­in­týra­mynd­um yf­ir­leitt að því að vera sæt­ar, fara í sleik eða hugs­an­lega að láta ræna sér.

Han Solo réttir Rey skotvopn.
Han Solo rétt­ir Rey skot­vopn.

Ákveðið fem­in­ískt bak­slag virðist ein­mitt ætla að eiga sér stað eft­ir að Kylo Ren nær Rey á sitt vald. Finn, Han Solo og Chewbacca reyna að bjarga henni en þegar upp er staðið slepp­ur hún á eig­in ramm­leik og bjarg­ar jafn­vel Finn með hjálp Chewbacca. Það er aðeins eitt af mörg­um augna­blik­um í mynd­inni þar sem hamrað er á þeirri staðreynd að Rey get­ur bjargað sér sjálf. Viðbrögð henn­ar á til­b­urðum Finn við „hand­leiðslu“ eru eitt þeirra og bar­dag­inn við Kylo Ren er annað. Það hjart­næm­asta er hins­veg­ar þegar Han Solo rétt­ir henni skot­vopn í því sem hún und­ir­býr sig fyr­ir bar­daga.

„Þú gæt­ir þurft á þessu að halda,“ seg­ir hann. Hún svar­ar „Ég get séð um mig sjálfa,“ og Solo svar­ar að bragði „Þess vegna er ég að gefa þér það“.

Líta má á þetta sam­tal sem mynd­hverf­ingu fyr­ir sátta­hönd leik­stjóra The Force Awakens, J.J. Abrams, til kvenna fyr­ir hönd Stjörnu­stríðsveld­is­ins. Kon­ur hafa sýnt það og sannað að þær geta séð um sig sjálf­ar en karl­ar búa þó enn yfir völd­um sem geta skipt sköp­um í bar­átt­unni fyr­ir jafn­rétti. Með því að gera konu að aðal­hetju stærstu kvik­mynd­ar ára­tug­ar­ins, sem er að auki inn­an hins karl­miðaða nör­d­heims, rétt­ir Abrams fram vopn í jafn­rétt­is­bar­átt­unni og seg­ir „Ég styð ykk­ur.“

Ungar malasískar konur stilla sér upp með meðlimum aðdáendaklúbbs Star …
Ung­ar malasísk­ar kon­ur stilla sér upp með meðlim­um aðdá­enda­klúbbs Star Wars. AFP

Er Rey Mary Sue?

Þess­um stuðningi hef­ur verið tekið fagn­andi af fólki af öll­um kynj­um sem kunna vel að meta þá auknu fjöl­breytni The Force Awakens býður upp á. Aðrir sjá þó ýmsa van­kanta á mynd­inni og skrif­ar Michael Hiltzik í Los Ang­eles Times að hún sé öm­ur­leg. Hún sé hönnuð út frá markaðssjón­ar­miðum til að ná til sem flestra áhorf­enda og það þýði að hún sé eins ómóðgandi og mögu­legt sé. Sú niðurstaða segi okk­ur ým­is­legt um framtíð Hollywood og það ekk­ert gott. 

Aðrir hafa bent á að kven­per­són­an Rey sé ein­fald­lega of full­kom­in. Hún sé svo­kölluð Mary Sue en það hug­tak er oft­ast notað yfir per­sónu í aðdá­enda­skáld­skap (e. fan-ficti­on) þar sem sá sem skrif­ar hef­ur komið full­kom­inni út­gáfu af sjálf­um sér fyr­ir í sög­unni sem hann elsk­ar. Meg­an McAr­dle seg­ir Rey vera Mary Sue en að í þetta skipti sé hún ekki staðgeng­ill höf­und­ar­ins í sög­unni held­ur allra 10 ára stúlkna sem hef­ur dreymt um að eiga sér Jedi hetju inn­an Star Wars heims­ins. Seg­ir hún per­sónu­sköp­un­ina flata og að hún ótt­ist að það muni hafa áhrif á gæði næstu mynda.

Carol­ine Fram­ke hjá Vox er ósam­mála slík­um full­yrðing­um og bend­ir á að ef Rey er Mary Sue þá er Logi Geim­geng­ill það líka og sú staðreynd virðist ekki hafa farið neitt sér­stak­lega í taug­arn­ar á aðdá­end­um til þessa, lík­lega af því að hann er karl­maður.

Syr­eeta McFadd­en geng­ur lengra og seg­ir gagn­rýn­end­um sem telja Rey vera „Mary Sue“ mega „sjúg‘ann“ þar sem við höf­um nú loks­ins fengið hetj­una sem okk­ur hef­ur dreymt um.

„Rey er ekki viðfang ást­ar ein­hvers, hún er stríðsmaður. Og sem ein­hver sem þótt­ist vera Logi Geim­geng­ill í garð-end­ur­leikj­um  barn­dóms­ins og stöku Jedi meðal vina, tek ég fagn­andi á móti hetju sem ég get sam­svarað mig við í heimi sem ég hef dýrkað í ára­tugi.“

Þó svo að konur séu áberandi í kvikmyndinni eru þær …
Þó svo að kon­ur séu áber­andi í kvik­mynd­inni eru þær það ekki þegar kem­ur að varn­ingi tengd­um henni. AFP

Bara dóta-„karl­ar“

Þó svo að kynjagler­aug­un hafi svo sann­ar­lega verið höfð við hend­ina á hverju stigi kvik­mynd­ar­inn­ar hafa ákveðnir fylgi­fisk­ar henn­ar þó valdið mikl­um von­brigðum. Einna helst má þar nefna markaðsetn­ingu á leik­föng­um tengdri mynd­inni.

Myllu­merkið #Wh­ereIs­Rey fór á flug á sam­fé­lags­miðlum þegar von­svikn­ir aðdá­end­ur fundu fullt af „dóta­körl­um“ en enga Rey í leik­fangapökk­um til sölu í Tar­get þar sem jafn­vel nafn­laus­ar per­són­ur fá sitt pláss. Stjórn­end­ur Disney hafa borið því fyr­ir sig að leik­fangapakk­ar sem inni­haldi Rey selj­ist upp um leið og þeir snerti hill­urn­ar. Hafa þeir lofað því að aðdá­end­ur muni sjá meira af henni í leik­fanga­versl­un­um árið 2016.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem skort­ur á kven­hetj­um í leik­fanga­stell­um veld­ur von­brigðum því í fyrra varð #Wh­ereis­BlackWidow vin­sælt í tengsl­um við kvik­mynd­ina The Avengers og árið áður var #Wh­eres­Gamora áber­andi í kjöl­far frum­sýn­ing­ar Guar­di­ans of the Galaxy.

Leia hefur elst, eðli málsins samkvæmt, en er engu að …
Leia hef­ur elst, eðli máls­ins sam­kvæmt, en er engu að síður sterk­ur leiðtogi.

Það er þó önn­ur kven­hetja sem einnig er lítið sýni­leg í leik­fanga­versl­un­um og al­mennri um­fjöll­un um femín­isma The Force Awakens því hin upp­runa­lega kven­hetja Stjörnu­stríðsheims­ins, Leia Prins­essa, er í stóru hlut­verki í kvik­mynd­inni en öllu eldri en í þeim fyrri. Í um­fjöll­un The Guar­di­an seg­ir Laurie Penny ein­mitt lítið heill­ast af Rey sem sé flatur karakt­er en að Leia vermi henn­ar fem­in­íska „fang­irl“ hjarta.

„Raun­veru­leg hetja þessa verks er Leia- sem hef­ur fengið að eld­ast á skján­um og verða enn frá­bær­ari með því ferli. Carrie Fis­her hef­ur gefið okk­ur það sem jafn­vel lengst leiddu geim­fana­tík­us­arn­ir hafa átt í erfiðleik­um  með að ímynda sér – miðaldra móður sem er al­veg jafn öfl­ug og mik­il­væg og hún var sem gjaf­vaxta prins­essa.“

Í kjöl­far frum­sýn­ing­ar mynd­ar­inn­ar hef­ur Carrie Fis­her ein­mitt stigið fram og sent fólki sér velt­ir sér upp úr út­liti henn­ar tón­inn. 

„Vin­sam­leg­ast hættið að rök­ræða hvort ég hafi elst vel eða illa. Því miður sær­ir það all­ar mín­ar til­finn­ing­ar. Lík­am­inn minn hef­ur ekki elst eins vel og ég,“ sagði Fis­her á Twitter.

„Lík­ami minn er far­ar­tæki fyr­ir heil­ann minn, hann drösl­ar mér á staði þar sem ég hef eitt­hvað að sjá og segja.“

Suður kóreyskir aðdáendur klæddir sem Jedi.
Suður kóreysk­ir aðdá­end­ur klædd­ir sem Jedi. AFP

Sigr­ar ást­in að lok­um?

Eins og Jon Green­berg bend­ir á í grein sinni á Everyday Fem­in­ism stenst mynd­in ekki bara Bechdel prófið held­ur einnig kynþátta Bechdel prófið sem snýst um að tvær per­són­ur utan hins al­hvíta kyn­stofns ræði sam­an sín á milli. Finn, sem er svart­ur, ræðir við Poe Dameron sem leik­inn er af Oscar Isaac sem rek­ur ætt­ir sín­ar til Gua­temala og er þar með af lat­nesku bergi brot­inn

 „(...) Star Wars hef­ur boðið börn­um upp á val­kost sem þau hafa nán­ast aldrei haft áður,“ skrif­ar Green­berg. „Ef þú vilt vera Star Wars hetja, viltu leika hvítu kon­una, svarta gaur­inn eða lat­ingaur­inn?“ 

Eins og áður seg­ir er Rey ekki smættuð niður í kyn sitt og kyn­ferði með fatnaði eða ástar­sam­bönd­um í mynd­inni. Þó svo að lít­il vís­un sé í ástar­sam­band á henn­ar veg­um telja marg­ir aðdá­end­ur sig hins­veg­ar sjá vísi að róm­an­tík í sam­skipt­um þeirra Finn og Poe sem faðmast inni­lega þar sem þeir þykj­ast hafa heimt hvorn ann­an úr helju.

Nú þegar, inn­an við mánuði frá frum­sýn­ingu, hafa aðdá­end­ur skrifað hátt í 400 sög­ur á síðuna Archi­ve of Our Own sem snúa sér­stak­lega að ástar­sam­bandi milli Finn og Poe

 Space boyfriends

Mynd: Lava-Alley

Leik­ar­arn­ir hafa jafn­vel gert sitt til að kynda und­ir von­um aðdá­enda með því að segj­ast hafa verið að leika róm­an­tískt sam­band. Ef satt reyn­ist mun Stjörnu­stríðsheim­ur­inn skrá sig enn frem­ur á spjöld sög­unn­ar sem bylt­ing­ar­kennd­asta kvik­myndaröð heims. Ef eitt­hvað er að marka viðtök­ur The Force Awakens er hon­um ekk­ert að van­búnaði.

mbl.is